Sigþrúður Jónsdóttir I

Steinunn Harðardóttir ræðir við fólk í eldlínunni

Steinunn Harðardóttir
author

Steinunn Harðardóttir sér um þáttinn Með náttúrunni á Náttúran.is. Steinunn er með BA í almennri þjóðfélagsfræði og hefur verið stundakennari á ýmsum skólastigum, haldið sjálfstyrkingarnámskeið, starfað sem leiðsögumaður og síðustu 25 ár sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu. Lengst af var hún með þætti sem tengjast náttúrunni, útivist og ferðamálum. Þátturinn „Út um græna grundu“ hafði verið 18 ár á dagskrá þegar hann hætti haustið 2013 og átti þá stóran hlustendahóp. Hann hlaut viðurkenningu Umhverfiráðuneytisins fyrir umfjöllun um umhverfismál 1998 og var tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru 2011.

Náttúran.is
producer

Náttúran.is er sjálfstætt starfandi vefsetur með aðaláherslu á að þjóna hinum almenna neytanda með áreiðanlegum upplýsingum um allt sem snertir umhverfi okkar og heilsu. Í raun er hér allt undir, nærumhverfi okkar og náttúran sjálf sem og heimilið, neyslan og fyrirtækin sem upplýstir borgarar vilja fá til aðstoðar við að skapa sjálfbæra framtíð.

Náttúran.is var stofnuð árið 2006.
Stofnandi og framkvæmdastjóri Náttúrunnar er Guðrún Arndís Tryggvadóttir.

Náttúran.is hlaut Kuðunginn fyrir árið 2011 fyrir „framúrskarandi vefsíðu um umhverfismál, og jákvæð áhrif þess á almenning og fyrirtæki.“  Segir í ...


Related content

Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Í eldlínunni hjá okkur þennan mánuðinn er Sigþrúður Jónsdóttir náttúrufræðingur í Eystra Geldingaholti, Gnúpverjahreppi, en hún er alin upp við frásagnir af Þjórsárverum og þá hættu sem yfir þeim vofði vegna væntanlegrar Norðlingaölduveitu. Hún varð ekki fyrir vonbrigðum þegar hún komst þangað í fyrsta sinn þá um tvítugt.

Seinna varð hún óþreytandi í baráttunni fyrir verndun þessa landsvæðis og hafa hún og félagar hennar náð miklum árangri þó sigurinn sé ekki enn í höfn. Sigþrúður hefur ekki einungis einbeitt sér að Þjórsárverum heldur Þjórsá allri en uppi eru áform um þrjár virkjanir í henni auk Norðlingaölduveitu.

Í septembermánuði heyrum við hennar sjónarmið varðandi Þjórsárver, beit og beitarþol og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár og kynnumst svolítið perónunni á bakvið þessa eldsál. Hlusta á þáttinn.

Útdráttur úr viðtalinu:

Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera

Sá Þjórsárver í hyllingum sem barn
Eins og hálfs árs í fanginu á pabba mínum sem sagði mér fyrstur frá undraheimi Þjórsárvera og hafði djúp áhrif á hug minn til svæðisins. Hann var einn af þeim sem stóð fyrir fyrsta fundi til verndunar Þjórsárvera 1972 og sat síðar í Þjórsárveranefnd. Systur mínar Sigrún og Árdís til vinstri og Ólafur bróðir minn til hægri. Hann hefur farið inn yfir Sand (í Þjórsárver) ár hvert frá 1977.Sigþrúður segist vera alin upp við mikið umtal um Þjórsárver, innsta hluta Gnúpverjaafréttarins. Pabbi hennar sem og fleiri sveitingar fóru oft  á svæðið „fyrir innan sand“og heilluðust af því eins og flest allir sem þangað koma. Það gerðist eitthvað í hugum þessara manna segir Sigþrúður og þeir sögðu þannig frá því að hún sem barn lét sig dreyma um að fara þangað þegar hún hefði aldur til. Það liðu þó all mörg ár því hún var orðin tvítug þegar hún fór þangað fyrst þá á tveimur hryssum ásamt öðrum fjallmönnum.

Sigþrúður varð ekki fyrir vonbrigðum það var einstök og ógleymanleg upplifun segir hún enda hafði hana dreymt um þetta svo lengi. Við vorum 10 saman og riðum inn Fjórðungssand sem er lítt gróinn og fyrirheitna landið nálgaðist smá saman, Hofsjökull, Arnarfell og fellin sem skjótast undan jöklinum.

Fyrst var komið í Tjarnarver og við blasti þetta gróðurfarslega stórveldi, allt er grænt og svo hvítur jökullinn í baksýn. Myndin sem birtist þarna hefur mikið seiðmagn sem dregur mann inn að jökli segir Sigþrúður. Við gistum á Bólstað, gömlum leitarmannakofa sem er hlaðinn úr grjóti og á torfþakinu vex víðir. þetta var síðasta árið sem þarna var gist. Næsta dag riðum við inn í Arnarfell, það var stórkostlegt. Það var komið haust svo blómgróðurinn var fallinn en þar var engu að síður mikil gróska. Þó ég væri að koma þarna í fyrsta sinn þá hafði ég mjög glögga mynd  af svæðinu eftir að hafa hlustað á frásagnir og skoðað myndir og kort en það var allt öðruvísi að vera á staðnum, sjá og upplifa með eigin augum.

Sveitungarnir vilja vernda Þjórsárver
Forsagan er, segir Sigþrúður, að ég er alin upp við þessar sagnir af Þjórsárverum en líka óttann við ógnina sem stafaði af Gamli leitarmannakofinn Bólstaður.fyrirhugaðri Norðlingaveituvirkjun, hann grúfði yfir allri æskunni, hætta var á að samtímamenn myndu sökkva öllum Þjórsárverum. Þessi ótti við að eitthvað myndi gerast gaus upp af og til, það var mjög vont. Upphaflegu hugmyndirnar voru mjög stórtækar, gera átti svokallað Eyjavatn sem hefði sökkt nánast öllu láglendi í Þjórsárverum upp í nær  600 metra hæð. En þá stóðu Gnúpverjar upp og mótmæltu. Þeir héldu fund sem hafði þau áhrif að ekkert var gert að sinni. Þetta var merkilegur fundur sem haldinn var árið 1972, hann var vel sóttur og það var mikill samhugur í mönnum. Þar kom skýrt fram að fólkið í sveitinni gat ekki hugsað sér að láta sökkva þessu svæði.

Pabbi var einn af þeim sem stóð fyrir fundinum en fundarboðendur voru  Landgræðslunefnd ungmennafélags Gnúpverja. Þessi fundur olli því að það kom hik á framkvæmdaraðila sem nú fundu að það var ekki auðsótt að fara þarna inn. Í framhaldinu fengu Gnúpverjar fulltrúa i Þjórsárveranefnd. Þá hófust vísindarannsóknir í Þjórsárverum vegna fyrirhugaðra framkvæmda og lónsins sem myndi sökkva svæðinu. Smá samna minnkaði  lónstærðin nokkuð og lengst af börðumst við á móti lóni sem átti að vera 581 metra hátt. Það hefði orðið mjög stórt lón og skemmt mjög mikið. Lónið sem fór í umhverfismat 2001 átti að  vera í 575 metrum og það var samþykkt með skilyrðum. Þetta var alveg óskiljanlegur úrskurður. Í honum kom fyrst fram að framkvæmdin ylli verulegum Hér er ég með hryssurnar góðu Ösp og Ör sem báru mig inn yfir Sand og inn í Arnarfell.umhverfisáhrifum en í lokin er eins og sagt  „en við leyfum þetta nú samt“. Sigþrúður er sannfærð um að þetta hafi verið gert fyrir pólitískan þrýsting því vinnubrögðin voru mjög ófagleg.

Mikil mótvæli við samþykki Norðlingaölduveitu
Ný fyrst byrjaði ballið segir Sigþrúður sem fór nú að taka mjög virkan þátt í baráttunni sem hefur staðið  með hléum síðan. Í framhaldi af þessu kallar sveitastjórnarkona í sveitinni saman fólk sem hún taldi að væri ekki hrifið af framkvæmdinni. Sigþrúður var ekki í þeim hópi en fór samt á fundinn. Í framhaldinu var haldinn mjög fróðlegur og upplýsandi fundur í Árnesi. Það var húsfylli og samþykkt ályktun og undirskriftasöfnun í sveitinni sem yfir 70% sveitunga skrifuðu undir.

Síðan fór málið í umhverfismat sem við fengum formlega aðkomu að þar sem við höfðum sent inn athugasemdir. Þessi hópur var mjög duglegur og vann mjög vel saman. En þá vildi svo undarlega til að framkvæmdinni er hleypt í gegn með hærri lónhæð en upphaflega.

Skömmu eftir að þetta kom í ljós fékk Sigþrúður símhringingu frá Tryggva Felixsyni þáverandi framkvæmdastjóra Landverndar. Hann spurði hvort hópurinn vildi ekki fá liðsstyrk og vinna saman sem eintaklingar með honum á persónulegum grunni, ekki félaginu sem slíku. Það var mjög kærkomið að fá slíkan liðsstyrk. Við hittimst í Alviðru sem var mjög miðsvæðis fyrir alla. Þar voru haldnir margir fundir og margt gert. Við settum stórar auglýsingar í Morgunblaðið og héldum fund í Austurbæjarbíói og fylltum húsið. Þar talaði meðal annars Falcon Scott sonur Peters Scott sem dvaldi í 5 vikur í Þjórsárverum árið 1951 til að rannsaka heiðagæsina. Það var mikil harka á fundinum og hann hafði mikil áhrif. Þarna hafði myndast fjöldahreyfing um málið svo það var ekki bara skrítið fólk úr Gnúpverjahreppi sem vildi vernda Þjórsárver, fjallamenn úr Gnúpverjahreppi, Skeiðum og Flóa sem uppgötva þetta einstaka svæði, Þjórsárver og upplifa þar mikla Á Hjartafelli 2010.náttúrufegurð og frið.

En þegar Scott fer að leita þar að heiðagæsinni kemst það á kortið. Menn átta sig á að þetta er mjög sérstætt og merkilegt svæði á alþjóðavísu, ekki bara draumórar smala. Þarna er einstakt fuglalíf, freðmýrar og mikil gróska. Við lögðum áherslu á að kynna þessar staðreyndir og í kjölfarið hófust rannsóknir á náttúrufari Þjórsárvera. Það hefur verið skrifað meira um þetta svæði en nokkuð annað á hálendinu.

Kæra vegna setlóns
Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til setts umhverfisráherra, Jóns Kristjánssonar en Sif Friðleifsdóttir hafði sagt sig frá málinu. Að kærunni stóðu margir áhugahópar svo sem Landvernd, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera og sveitarfélagið. Í úrskurði Jóns Kristjánssonar er lónið minnkað úr 33 km2 í 7 km2  en leyft er setlón inn við jökul. Þetta voru mikil tíðindi og Landsvirkjun var ekki ánægð. Okkur var mjög illa við setlónið en þetta var samt áfangasigur. Seinna eða árið 2006 var úrskurðurinn kærður því við töldum að þetta setlón hefði aldrei farið í umhverfismat. Við unnum málið og úrskurðurinn var dæmdur ómerkur að minnsta kosti setlónið, við vitum ekki enn hvort það átti við um alla framkvæmdina. Við vorum 20 manns sem gengum í fjárhagslega ábyrgð fyrir kærunni svo það var mikill léttir þegar málið vannst með hjálp góðs lögfræðings. Það gerðist margt en á þessum árum fór að fjara undan framkvæmdaáætlunum. Í janúar 2006 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að falla frá henni en borgin átti hlut í Landsvirkjun. Nokkru áður var enn einn barattufundurinn haldinn í Norræna húsinu. Sigþrúður segist ekki hafa tölu á fjölda slíkra funda.

Mikilvægt að vinna að stækkun friðlandsins til suðurs og vernda fossana
Hér er ég með dóttur sinni Pálinu Axelsdóttur Njarðvík við einn af ótal fossum í þverám Þjórsár á Gnúpverjaafrétti.Þá fórum við að vinna að stækkun friðlands. Það voru þó ekki nýjar hugmyndir því Áhugahópur um vernd Þjórsárvera sendi inn slíkar tillögur árið 2001.

Fyrstu formlegu hugmyndirnar um stækkun komu frá  heimamönnum. Í okkar hugmyndum var lögð áhersla á að friðlandið næði niður með Þjórsá alveg að Sultartangalóni. Með því yrði gljúfrið sem áin hefur grafið einnig verndað. Undir þá skoðun okkar tóku Jack D. Ives og Roger Crofts, sérfræðingar sem Landvernd fékk hingað til að kanna hvort Þjórsárver ættu heima á heimsminjaskrá. Þeir sögðu engin rök vera fyrir mörkum friðlandsins enda stóð alltaf til að stækka það.

Þessir sérfræðingar töldu að friðlandið ætti að ná upp að vatnaskilum á Hofsjökli og yfir Kerlingarfjöll og síðan niður með ánni að Sultartanga og taka yfir fossana. Þannig yrði þetta heildstæð verndun. Það gafst ekki tími til að vinna nægjanlega með þessi mál  á meðan öll orkan fór í að reyna að koma í veg fyrir Norðlingaölduveitu. Svæðið hefur enn ekki verið merkt svo fólk veit ekki hvenær það er komið inn í friðland sem lýtur ákveðnum reglum. Innviðum svæðisins hefur ekki verið sinn sem skyldi s.s. merkingum og upplýsingum um svæðið. En það hefur verið unnið að friðlýsingu í allmörg ár þó ekki hafi tekist að klára það sómasamlega.  

Eins og málin standa í dag er það eina sem skiptir máli að ýta Norðlingaölduveituvirkjun til fulls út af kortinu og því er brýnt að  stækka friðlandið til suðurs niður með Þjórsá. Þá fyrst er hægt að hefja uppbyggingu og gera fólki kleift að njóta þessa einstaka svæðis.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á þáttinn.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Sigþrúður Jónsdóttir I


Birt:
Sept. 5, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigþrúður Jónsdóttir í eldlínunni - 1. þáttur“, Náttúran.is: Sept. 5, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/03/med-natturunni-sigthrudur-jonsdottir-i-eldlinunni-/ [Skoðað:March 1, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 3, 2014
breytt: Oct. 3, 2014

Messages: