Með náttúrunni - Mummi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson í eldlínunni - 2. þáttur
Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!
Í síðustu viku sagði Mummi eða Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar okkur frá ýmsum mikilvægum verkefnum sem félagið vinnur að. Nú heyrum við hvernig hann telur að við eigum að bregðast við auknum fjölda ferðamanna og álagi á viðkvæma náttúru vegna aukins ágangs. Hlusta á þáttinn.
Útdráttur úr viðtalinu:
Vöxtur í ferðaþjónustunni er eitt af þeim málefnum sem Landvernd vildi geta einbeitt sér meira að segir Mummi framkvæmdastjóri Landverndar. Það þarf að að gera kort af Íslandi sem litað er mismunandi litum. Einn liturinn táknar svæði þar sem byggja á upp innviðina til að auðvelda aðgengi og til að verja náttúruna fyrir skemmdum. Önnur svæði ætti að byggja upp hægar og enn önnur ekki að byggja upp. Þar ætti fólk aðeins að fara um gangandi. Frekar ætti að takmarka fjöldann en að auka aðgengið til að spilla ekki nátturulegri ásýnd landsins sem margir, bæði Íslendingar og erlendir gestir sækja í. Við megum ekki leggja ákveðin svæði undir fjöldaferðamennsku. Það þarf að hafa mismunandi tegundir stýringa á hinum ólíku svæðum. Á sumum svæðum er ágangur þegar allt of mikill, þar þarf að efla innviði og beyta mikilli stýringu.
Varðandi gjaldtöku á ferðamannastöðum held ég að það hafi gætt ákveðins misskilnings varðandi náttúrupassann. Hugmyndin var að fólk keypti sér aðgang að 10-20 svæðum. Landvernd og fleiri félög mótmæltu þeirri aðferð þar sem með henni væri verið að hefta aðgang að svæðunum, það telur Landvernd vera í berhöggi við almannarétt sem kveðið er á um í náttúruverndarlögum. Þar segir að mönnum sé frjáls aðgangur um óræktað land. Auðvitað á þó ekki að traðka niður óræktað land. Við viljum ekki að gjaldtakan sé sýnileg þannig að notaður sé passi eða landeigendur taki gjald af ákveðnum svæðum. Hvoru tveggja er aðför að almannarétti að okkar mati. Við óttumst að það geti haft djúpar afleiðingar fyrir samband íbúanna við náttúruna ef allt í einu þarf að borga fyrir aðgang að einhverju sem áður þurfti ekki að greiða fyrir. Við erum þó ekki á móti gjaldtöku en hún þarf að vera hófleg svo allir ráði við hana. Það er til dæmis hægt að taka hana inn með skatti eða við brottför frá landinu og það þarf að gæta þess að allir sitji við sama borð. Ég skil landeigendur sem vilja taka gjald þegar þeir sjá landið sitt verða fyrir átroðningi og skemmdum. Þó ég sé ósammála þeim þá skil ég hvers vegna þeir fara þessa leið.
Ég tel að ríkið hafi ekki látið nægilegan hluta tekna af ferðaþjónustunni renna til náttúruverndar. Þó ferðaþjónusta sé orðin sú atvinnugrein sem aflar mestra gjaldeyristekna þá rennur aðeins 0.5% af opinberu rannsóknarfé til atvinnuveganna til ferðaþjónustunnar. Það er mikil þörf á rannsóknum á ágangi ferðamanna á náttúru landsins. Það þarf að byggja á rannsóknum til að meta hvað ákveðin svæði þola við óbreytt ástand og hvað þau geta tekið á móti mikið af fólki ef innviðirnir verða bættir. Það þarf að stýra fjölda ferðamanna á hvert svæði á niðurstöðum rannsókna.
Það hefur þó orðið jákvæð þróun á ýmsum sviðum og má þar nefna Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Hann er þó ekki gallalaus því til að fá úthlutað fé til uppbyggingar þarf landeigandi að leggja fram 50% af kostnaðinum og það getur reynst honum erfitt. Það þarf að auka framlag ríkisins verulega til þessa málaflokks. En ríkið þarf auðvitað að fá tekjur frá greininni í gegnum skatta og því er svört atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu mikið áhyggjuefni.
Árið 2010 kom um hálf miljón ferðamanna til landsins en nú stefnir fjöldinn í eina miljón. Þessi mikla útþensla hefur orðið á mjög skömmum tíma og þar sem kerfi eru yfirleitt seinvirk hefur ekki verið brugðist nógu hratt við þeim breytingum sem eru að verða. Eftir Eyjafjallajökuls gosið myndaðist einskonar panikástand og því farið nokkuð bratt í auglýsingar. Fólk óttaðist að gosið myndi fæla frá en raunin var það gagnstæða. Landið var í heimspressunni dag eftir dag sérstaklega eftir að askan fór að tefja millilandaflug í heiminum.Þetta var gríðarleg auglýsing fyrir Ísland og því komu hingað fleiri en annars hefði orðið.
Með aukinni ferðaþjónustu á veturna þurfum við að huga að nýjum málum. Þá valda frost- og þýðudagar því að landið er mjög mis vel í stakk búið að taka á móti ferðamönnum. Ferðafélögin sem ganga á fjöll á veturna þurfa hafa í huga að 100 manna hópur getur valdið svipuðum skaða og lítið hrossastóð. Það þarf að líta til reynslu og þekkingar ferðafélaganna, ef eitthvað er að veðri þá er hætt við gönguferðir. Það þarf líka að gera ef hætta er á skemmdum á náttúrunni.
Steinunn Harðardóttir.
Tengdar hjóðupptökur:
Mummi hjá Landvernd IIBirt:
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Mummi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson í eldlínunni - 2. þáttur“, Náttúran.is: 15. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/14/med-natturunni-gudmundur-ingi-gudbrandsson-i-eldli/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. ágúst 2014
breytt: 3. október 2014