Mummi hjá Landvernd I

Steinunn Harðardóttir ræðir við Guðmund Inga Guðbrandsson, Mumma, framkæmdastjóra Landverndar.

Steinunn Harðardóttir
höfundur

Steinunn Harðardóttir sér um þáttinn Með náttúrunni á Náttúran.is. Steinunn er með BA í almennri þjóðfélagsfræði og hefur verið stundakennari á ýmsum skólastigum, haldið sjálfstyrkingarnámskeið, starfað sem leiðsögumaður og síðustu 25 ár sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu. Lengst af var hún með þætti sem tengjast náttúrunni, útivist og ferðamálum. Þátturinn „Út um græna grundu“ hafði verið 18 ár á dagskrá þegar hann hætti haustið 2013 og átti þá stóran hlustendahóp. Hann hlaut viðurkenningu Umhverfiráðuneytisins fyrir umfjöllun um umhverfismál 1998 og var tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru 2011.

Náttúran.is
framleiðandi

Náttúran.is er sjálfstætt starfandi vefsetur með aðaláherslu á að þjóna hinum almenna neytanda með áreiðanlegum upplýsingum um allt sem snertir umhverfi okkar og heilsu. Í raun er hér allt undir, nærumhverfi okkar og náttúran sjálf sem og heimilið, neyslan og fyrirtækin sem upplýstir borgarar vilja fá til aðstoðar við að skapa sjálfbæra framtíð.

Náttúran.is var stofnuð árið 2006.
Stofnandi og framkvæmdastjóri Náttúrunnar er Guðrún Arndís Tryggvadóttir.

Náttúran.is hlaut Kuðunginn fyrir árið 2011 fyrir „framúrskarandi vefsíðu um umhverfismál, og jákvæð áhrif þess á almenning og fyrirtæki.“  Segir í ...


Tengt efni:

Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Mummi útdeilir grænum fánum á fyrstu grænu göngunni þ. 1. maí 2013Næstu mánuðina er ætlunin að kynna hér í þættinum „Með náttúrunni“ nokkra einstaklinga sem eru og hafa verið í eldlínunni fyrir náttúruvernd í landinu. Ef ekki væri fyrir störf þeirra þá væri eflaust öðruvísi umhorfs á Íslandi en nú er.

Þennan mánuðinn verður Guðmundur Ingi Guðbrandsson eða Mummi eins hann er kallaður í „eldlínunni“. Hann er framkvæmdastjóri Landverndar sem eru frjáls félagasamtök er starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Hlusta á þáttinn.

Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera  virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi.
Þau eru því mörg verkefnin sem þarf að vinna á sviði landverndar í landinu og í mörg horn að líta hjá framkvæmdastjóranum. Við Mummi munum því ræða saman um nokkur mikilvæg málefni svo sem virkjanaframkvæmdir, hjarta landsins og ágang vvegna fjölgunar ferðamanna, í fjórum þáttum  og mun afraksturinn birtast hér í Náttúran.is næstu vikurnar.

En hver er Guðmundur Ingi Guðbrandsson? Hvarflaði það að honum sem ungum dreng að hann ætti eftir að vera í forystusveit fyrir landvernd?

Útdráttur úr viðtalinu:

Með Bill McKibben í Háskólabíói Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar ólst upp við landbúnaðarstörf og dreymdi um að verða bóndi. Góðir bændur hugsa vel um landið og stunda ekki rányrkju segir hann. Á hverju ári fór hann með fjölskyldunni í Hítardal þar sem orðið hefur mikil landeyðing og voru það fyrstu kynni Mumma af neikvæðum áhrifum mannsins á náttúruna. Þessu þurfti að breyta fannst honum en hann er alinn upp við áherslu á góða umgengni um náttúruna og í uppeldinu var lögð áhersla á að hann og bræður hans væru meðvitaðir um þau áhrif sem þeir hefðu með gjörðum sínnum. Mummi var mikill dýravinur strax sem barn og hafði mikinn áhuga á plöntum.

Hann varð þó ekki bóndi heldur líffræðingur, lærði líffræði við Háskóla Íslands og rannsakaði bæði  plöntur og ferskvatnsfiska en það er nokkuð óvanaleg blanda. Síðan stundaði hann nám í umhverfisfræðum við Yale háskóla og bætti svo við námi í umhverfisstjórnun í lokin. Fyrst eftir að hann kom heim vann hann hjá Landgræðslu ríkisins, síðan Háskóla Íslands þar sem hann stundaði rannsóknir og kennslu og síðan við stofnun Sæmundar Fróða.

Fyrir um 3 árum, áður en hann var ráðinn framkvæmdastjóri Landverndar, var hann farinn að ganga erinda náttúrunnar af fullum krafti. Í dag vinna 5 manns í fullu starfi hjá Landvernd en allir nema Mummi sjá um afmörkuð verkefni. Auk framkvæmdastjórnarinnar vinnur hann að náttúruverndarmálum sérstaklega. Auk hinna launuðu starfsmanna er fjöldinn allur af fólki sem leggur mikið til málanna sem sjálfboðaliðar í náttúruvernd.

Mummi á Grænlandi„Allt þetta fólk eru eiginlega batteríin sem drífa mann áfram“ segir Mummi. Þetta er fjölbreyttur hópur sem sameinar krafta sína til að verja náttúru landsins bæði staðbundin félög og einstaklingar. Það er mjög mikilvægt fyrir Landvernd að eiga þetta fólk að því við getum ekki haft augu og eyru allstaðar.

Frá því Guðmundur Ingi hóf störf hjá Landvernd hefur hann og formaðurinn Guðmundur Hörður, sem kjörinn var formaður á svipuðum tíma, lagt mikla áherslu á að efla innviðina og hefur félagafjöldi aukist úr 500 í 3000. Einnig hefur verið lögð áhersla á að ná inn fjármunum til að efla starfið  og bætt hefur verið við tveimur nýjum langtímaverkefnum. Annað er loftslagsverkefni í samvinnu við Höfn í Hornafirði og hitt er landgræðsluverkefni sem snýr að vistheimt sem unnið er með grunnskólum á suðurlandi.

Einnig er lögð áhersla á að styrkja og efla Grænfána- og Bláfánaverkefnið. Í fyrra haust hófst svo spennandi verkefni í Þjórsárverum sem heitir „Hálendið hjarta landsins“. Því er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hálendi landsins og þær virkjanaframkvæmdir sem þar eru fyrirhugaðar og fá almenning  til að styðja við baráttuna um að hálendinu verði hlíft. Í apríl komu svo Útivist, Ferðafélag Íslands 4x4 og Samtök útivistarfélaga (SAMÚT) inn í þetta verkefni og vonast er til að í framtíðinni verði hægt að ráða starfsmann. Þetta er náttúrulega eitt stæsta náttúruverndarverkefni samtímans hér á Íslandi, og því eitt af baráttumálum Landverndar.

Verkefninu „Hálendið - hjarta landsins“ startað með stæl í Þjórsárverum „Það verður að halda hálendi Íslands án frekari stórframkvæmda“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar en hann var Með náttúrunni, í eldínunni þessa vikuna. Í næstu viku ræðum við saman um ferðaþjónustuna og aukinn ágang á náttúruna vegna fjölgunar ferðamanna.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á þáttinn.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Mummi hjá Landvernd I


Birt:
8. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Mummi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson í eldlínunni - 1. þáttur“, Náttúran.is: 8. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/08/med-natturunni-gudmundur-ingi-gudbrandsson-i-eldli/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. október 2014

Skilaboð: