Ómar Ragnarsson I

Steinunn Harðardóttir ræðir við fólk í eldlínunni

Steinunn Harðardóttir
höfundur

Steinunn Harðardóttir sér um þáttinn Með náttúrunni á Náttúran.is. Steinunn er með BA í almennri þjóðfélagsfræði og hefur verið stundakennari á ýmsum skólastigum, haldið sjálfstyrkingarnámskeið, starfað sem leiðsögumaður og síðustu 25 ár sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu. Lengst af var hún með þætti sem tengjast náttúrunni, útivist og ferðamálum. Þátturinn „Út um græna grundu“ hafði verið 18 ár á dagskrá þegar hann hætti haustið 2013 og átti þá stóran hlustendahóp. Hann hlaut viðurkenningu Umhverfiráðuneytisins fyrir umfjöllun um umhverfismál 1998 og var tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru 2011.

Náttúran.is
framleiðandi

Náttúran.is er sjálfstætt starfandi vefsetur með aðaláherslu á að þjóna hinum almenna neytanda með áreiðanlegum upplýsingum um allt sem snertir umhverfi okkar og heilsu. Í raun er hér allt undir, nærumhverfi okkar og náttúran sjálf sem og heimilið, neyslan og fyrirtækin sem upplýstir borgarar vilja fá til aðstoðar við að skapa sjálfbæra framtíð.

Náttúran.is var stofnuð árið 2006.
Stofnandi og framkvæmdastjóri Náttúrunnar er Guðrún Arndís Tryggvadóttir.

Náttúran.is hlaut Kuðunginn fyrir árið 2011 fyrir „framúrskarandi vefsíðu um umhverfismál, og jákvæð áhrif þess á almenning og fyrirtæki.“  Segir í ...


Tengt efni:

Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Ómar í skemmtiþætti í Sjónvarpinu um 1970.Ómar Ragnarsson skemmtikraft, fréttamann, rithöfund, flugmann, lagasmið og kvikmyndagerðamann þarf ekki að kynna fyrir þjóðinni. Hann sagði upp störfum á fréttastofu Ríkisútvarpsins árið 2006 vegna stöðugra ásakana um hlutdrægni í fréttaflutningi af Kárahnjúkamálinu. Síðan hefur hann helgað líf sitt baráttunni fyrir náttúruvernd og verið óþreytandi á því sviði.

Að kvöldi 26. september 2006 leiddi Ómar ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Í kosningum Rásar 2 og Stöðvar 2 um mann ársins sama ár varð Ómar hlutskarpastur. Hann ferðaðist til Bandaríkjanna, Noregs og víðar til að kynna sér þjóðgarða og skipan náttúruverndarmála og heimsótti 28 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði. Hann hefur gert fjölmarga þætti og myndir um náttúruvernd, meðal annars myndina In merorian  um Kárahnjúka og svæðið fyrir norðan Vatnajökul. Dagur íslenskrar náttúru var stofnsettur á sjötugsafmæli Ómars þ. 16. september 2011, til heiðurs honum. Ómar tók þátt í baráttunni um verndun Gálgahrauns og vakti það þjóðarathygli þegar hann var borinn út í lögreglubíl vegna mótmælasetu sinnar þar.

Ómar verður í eldlínunni næstu vikurnar og segir frá áhrifavöldum í lífi sínu og augnablikum sem skiptu sköpum fyrir hann. Honum er mikið niðri fyrir þegar hann fjallar um handtökuna í Gálgahrauni. Hann segir frá ferðum í þjóðgarða erlendis. Hann segir frá uppblæstri og ástandinu á Kárahnjúkasvæðinu í dag en hann er þar mikið á ferðinni og hann er ekki sáttur við framkvæmdirnar í Hellisheiðarvirkjun.

Að þessu sinni segir hann frá áhrifavöldunum í lífi sínu sem leiddu hann á þá braut sem hann hefur farið.

Hlusta á viðtalið.

Útdráttur úr viðtalinu

Hætti í sjónvarpinu 2006 vegna fréttaflutnings af Kárahnjúkavirkjun

Unglingsárin í Sögusetrinu í Borgarfirði
Í eldlínunni hjá okkur næstu vikurnar er enginn annar en Ómar Ragnarsson. Hann þarf ekki að kynna fyrir þjóðinni en það er full ástæða til að rifja upp með honum nokkur brot úr ævi hans og leggja sérstaka áherslu á störf hans fyrir náttúruvernd og áhrifavalda þar að lútandi. Hann er orðin 74 ára og hefur meira að gera en nokkru sinni segir hann enda eru svo mörg knýjandi verkefni sem hann langar að klára fyrir ævilok. Ég er í kapphlaupi við sjálfan mig segir hann. Ómar býr yfir mjög miklum fróðleik um land og lýð sem hann vill miðla og er nú þessa dagana að segja frá unglingsárunum í Sögusetrinu í Borgarnesi, æskuárin tók hann fyrir í fyrra.

Landafræðinörd sem fór um allt land 18 ára
Grunnurinn að allri þessari þekkingu var lagður þegar Ómar var 18 ára en þá ferðaðist hann sem skemmtikraftur og kom í öll þorp landsins. Þar áður var hann þrjú sumur í Kaldárseli og eftir dvölina þar ætti engan að undra að hann skuli vera hraunavinur segir hann. Ómar var líka landafræðinörd átta ára og tók landafræðina af sjúklegri nákvæmni. Lærði til dæmis allar hæðatölur á fjöllum. Síðan þegar hann var ráðinn sem íþróttafréttamaður að sjónvarpinu var þeim teningi kastað líka segir Ómar.

Skjáskot úr kvikmyndinni Kings - Kóngar*.Hann fór fljótt að vinna fyrir flokkana og kynnist  ráðamönnum bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, en hann varð stjórnmálanörd þegar níu ára. Hann bjó að stjórnmálaþekkingunni þegar hann var orðin skemmtikraftur því það þótti sérstakt að átján ára drengur gæti komið með beitta stjórnmálaádeilu eins og hann gerði. Fyrstu 10 árin var hann bara þekktur sem skemmtikraftur og hefur haldið áfram á því sviði allar götur síðan. Í skólanum fór hann strax að gera vísur og segja sögur og sá þáttur tók alveg yfir svo hvorki stjórnmálamaðurinn né fréttamaðurinn komust að. Ómar hafði mikið að gera sem slíkur en vann líka á Vísi og hóf nám í lögfræði en það átti ekkert við hann. Ef kennd hefði verið stjórnmálafræði þá hefði ég farið í hana og þá er óvíst hvaða leið ég hefði farið í lífinu segir hann.

Tók sex ár að fá starf við almennar fréttir
Örlagavaldurinn var séra Emil Björnsson segir Ómar, hann þekkti mig frá því ég var krakki. Hann vildi fá mig sem dagskrárstjóra lista- og skemmtildeildar en ég hafði nóg annað að gera.

Síðar bauð séra Emil Ómari starf sem íþróttafréttamaður og þar nutu félagarnir í almennu fréttunum góðs af þekkingu hans á landi og þjóð, stjórnmálum og ýmsum atburðum.

Þá var engin Wikipedia eins og nú. Vegna þess að Ómar þurfti stundum að skemmta í mismunandi landshlutum sama daginn útvegaði hann sér flugmannsréttindi og flaug á milli.

Skjáskot úr kvikmyndinni Kings - Kóngar*.Fyrst var hann skíthræddur við flug en í dag segir hann flugið það næst besta sem hafi komið fyrir hann í lífinu það besta gefur hann ekki upp. Ómar sogaðist inn í lífið á fréttastofunni og var fljótlega farinn að fljúga með aðra fréttamenn.

Fyrstu sex árin starfaði hann sem íþróttafréttamaður en var samt alltaf  að vinna í almennu fréttunum með. Þangað stefndi hann en þurfti að bíða þar til þar losnaði staða enda bara fjórir innlendir fréttamenn við störf þá.

Augnablik sem skipta sköpum í lífinu
Ómar segir að hlutirnir hafi eins og gerst af sjálfu sér og nefnir  nokkur auganablik í lífinu sem hafa skipt sköpum.

Það fyrsta var þegar hann var látinn leika aðalhlutverk í Vesalingunum, tólf ára götustrák. Þar fræddist hann um þjóðfélagsaðstæður í Frakklandi og í heiminum og hvers vegna ræðan sem hann átti að flytja einn á sviðinu yrði að komast til skila. Þetta límdist inn segir hann, hlutverk sendiboðans, að flytja sannleikann. Þetta var heillandi og því hlaut ég að verða fréttamaður.

Hitt atvikið er 2006 þegar hann gafst upp og hætti á fréttastofunni. Ég var bláeygður segir hann og gleymdi fyrirbæri sem heitir valkvæð þekking. Að fólk valdi hvað það vildi vita, það vildi vita að 450 manns myndu vinna í álverinu á Reyðarfiði en ekki  af því hvað miklu landi þyrfti að fórna eða hvaða aðrir möguleikar væru á þessu landssvæði.

Ómari fagnað á mótmælagöngunni miklu, sem Ómar boðaði til með dags fyrirvara, daginn fyrir fyllingu Hálslóns þ. 27. september 2006 og 15 þúsund manns mættu til. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Ég reyndi alltaf að láta ekki hanka mig fyrir að vera hlutdrægur þegar ég flutti féttir af Kárahnjúkum og það tókst ekki þó mikið væri reynt.

Í bókinni Kárahnjúkar með og á móti lagði ég mikla vinnu í að skrifa þann kafla sem er með virkjuninni og lét Jakop Björnsson fyrrum orkumálastjóra lesa hann yfir.

Fréttafluttningur minn af Kárahnjúkavirkjun sætti stöðugri gagnrýni svo ég beitti æ meiri sjálfsgagnrýni.

Þegar ekki dugði að flytja tvær jákvæðar fréttir fyrir eina neikvæða og þegar kvartað var í útvarpsráði yfir neikvæðri frétt þó sömu helgi hafi hann flutt jafn sterkt jákvæða frétt þá gat ég þetta ekki lengur. Það var ekki nóg að bera sannleikanum vitni.

Áunnin vanþekking
Pollar við niðurdælingu á Hellisheiði. Ljósm. Ómar Ragnarsson.Ég ferðaðist um landið með þeim Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og Hermanni Jónassyni formanni Framsóknarflokksins sitt hvort sumarið. Annar sagði „gjör rétt þol ei órétt“, það var kjörorð flokksins þá. það er nóg ástæða til að standa upp og andæfa þó vitað sé að slagurinn sé tapaður. Það er ekkert val, menn mega ekki gefast upp segir Ómar. 

Hermann vitnaði í ljóð sem byrjaði svo „þau eru verst þau þöglu svik að þegja við öllu röngu“.  Það er það sem ég er að reyna að andæfa, að þegja um það sem er mikils virði eins og það að stanslaust klifa á að við séum í fararbroddi á svið endurnýjanlegrar orku.

Það er stunduð hrein rányrkja á Hellisheiðar- og Nesjavallasvæðinu. Þar ætlum við að þurrka upp alla orku frá barnabörnum okkar. Svo er hún ekki hreinni en það að Hellisheiðarvirkjun er mest mengandi verksmiðja á Íslandi, meira en nokkurt álver. Það er sagt að þetta sé hagkvæm nýting þó 80% af orkunni fari beint útí loftið.                                                            

Þegar það hefur verið klifað á því þúsund sinnum frá upphafi hversu jákvætt þetta sé á móti hverjum einum andmælum þá kemur fólk sér upp áunninni vanþekkingu segir Ómar. Það er hægt að berjast á móti þessu ástandi á mörgum sviðum þjóðfélagsins og reyna að koma stjórnarskrá og aðstöðu almennings í sama horf og í nágrannalöndunum okkar segir Ómar.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á viðtalið.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

*Sjá kvikmyndina Kings - Kóngar á Vimeo.

Tengdar hjóðupptökur:

Ómar Ragnarsson I


Birt:
17. nóvember 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 1. þáttur“, Náttúran.is: 17. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/13/med-natturunni-omar-ragnarsson-i-eldlinunni-1-that/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. nóvember 2014
breytt: 21. nóvember 2014

Skilaboð: