Nokkrir af hinu fjölskrúðuga úrvali Kaja innkaupapoka.

Kaja organic, sem rekur tvær lífrænar verslanir, Matarbúr Kaju og Café Kaja á Akranesi og Matarbúr Kaju á Óðinsgötunni í Reykjavík, fer alla leið í umhverfishugsuninni.

Ekki aðeins var Kaja fyrst með lífrænt vottaða matvörurlínu pakkaða á Íslandi og stofnaði fyrstu lífrænt vottuðu verslanirnar heldur er stefna Kaju að skilja sem minnst rusl eftir á þessari jörð.

Ekki nóg með það að umbúðir fyrir vörulínu Kaju eru úr einföldum pappír án plastglugga, fólk getur líka komið með sín eigin ílát og látið fylla á þau, sem er auðvitað allra umhverfisvænast, þá hefur Kaja látið gera skemmtilega innkaupapoka úr efnisafgöngum.

Pokarnir eru framleiddir hjá vinnustofunni Öldunni en það er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku í Borgarnesi. Aldan fær allt efnið, aðallega rúmföt frá Rauða krossinum og umbreytir í þessa skemmtilegu innkaupapoka. Merki fyrirtækja er síðan saumað á pokana, eins og þessa fyrir Kaju.

Að mínu viti er Kaja eitt framsæknasta og umhverfisvænsta fyrirtæki á Íslandi í dag. Með dug og þor og trú á lífræna framtíð og sigur skynseminnar yfir bjánaskapnum. Til hamingju Kaja!

 

Birt:
17. október 2016
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lífrænt og umhverfisvænt - alla leið“, Náttúran.is: 17. október 2016 URL: http://nature.is/d/2016/10/17/lifraent-og-umhverfisvaent-alla-leid/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. október 2016

Skilaboð: