Fyrsta MSC vottun á karfa í heiminum
Gullkarfaveiðar Íslendinga fá MSC vottun
Iceland Sustainable Fisheries (ISF) hefur fengið MSC - Marine Stewardship Council vottun á gullkarfaveiðar Íslendinga og eru það fyrstu karfaveiðarnar í heiminum til að fá vottun samkvæmt staðli MSC. Vottunin kemur í kjölfar 17 mánaða matsferlis sem unnin var af íslensku Vottunarstofunni Túni.
ISF var stofnað af 19 fyrirtækjum árið 2012 til að halda utan um MSC fiskveiðiskírteini á þorski og ýsu. Jafnframt var í samþykktum félagsins kveðið á um að sótt verði um fleiri fiskveiðivottanir í samræmi við þarfir hluthafanna. Í dag eru 36 fyrirtæki hluthafar í ISF og samtals eru 87 fyrirtæki á Íslandi með MSC rekjanleikavottun og geta unnið eða verslað með MSC vottaðan fisk. Við Ísland eru veiðar á þorski, ýsu, ufsa, síld og nú gullkarfa vottaðar samkvæmt staðli MSC, en jafnframt eru grásleppuveiðar í vottunarferli.
MSC vottunarferillinn er umhverfismat, þar sem vottunarstofan metur fiskveiðarnar í samræmi við kröfur MSC staðlanna. Hluti af kröfunum er að hagsmunaðilar geti komið með athugasemdir og jafnvel andmælt niðurstöðu vottunarstofunnar. Fari svo fjallar sérskipaður oddamaður um andmælin og leitar jafnframt leiða til að andmælandi og umsækjandi finni ásættanlega niðurstöðu, ella fer málið til úrskurðar hjá oddamanni.
Í vottunarferlinu fyrir gullkarfa bárust athugasemdir og einnig andmæli frá WWF í Þýskalandi um niðurstöðu fiskveiðimatsins. WWF taldi meðal annars að frekari aðgerða væri þörf til að vernda viðkvæm búsvæði hafsbotnsins fyrir áhrifum togveiða. Úr varð að ISF og WWF hófu viðræður og á þeim grunni setti ISF fram skuldbindandi úrbótaáætlun í fiskveiðimatið sem felur í sér rannsókna- og aðgerðaáætlun til verndunar á búsvæðum kóralla og svampa. Á grunni þessara tillagna féll WWF frá áfrýjuninni og í framhaldinu gaf Vottunarstofan Tún út fiskveiðivottunina.
Gunnlaugur Eiríksson framkvæmdarstjóri ISF segir:
„Við höfum fengið fyrstu MSC vottun á karfa veiðar í heiminum. Með því sýnum við kaupendum á mörkuðum að sjávarútvegur á Íslandi er í fremstu röð. Karfinn er mikilvæg tegund víða á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir og ég vona að þessi vottun með okkar úrbótaáætlun hvetji kaupendur að velja íslenskan MSC vottaðan karfa. Við erum stolt af sjálfbærri arfleifð okkar en lítum jafnframt björtum augum fram á veginn í samvinnu að úrbótaáæltun með Smart Fishing Initiative WWF og ekki síður að sækja um vottun á fleiri tegundum. "
Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda segir:
„Þýskar verslunarkeðjur leggja mikla áherslu á að geta selt fiskafurðir úr MSC-vottuðum fiskistofnum. HB Grandi er það útgerðarfélag sem veiðir mest af karfa. Karfi hefur verið í hávegum hafður hjá þýskum neytendum. Það er því mjög mikilvægt að fá MSC vottun um að Íslendingar stundi karfaveiðar með ábyrgum og sjálfbærum hætti.“
Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfisksviðs Vinnslustöðvarinnar segir:
Gullkarfi er drjúgur hluti af afla Vinnslustöðvarinnar í bolfiski og því mikilvægur hluti af rekstri fyrirtækisins. Það er vaxandi krafa á markaði að afurðir eigi uppruna í vottuðum sjálfbærum fiskveiðum. Við höfum fundið þetta vel á okkar helstu karfamörkuðum í Evrópu. Því fögnum við því að gullkarfa veiðar Íslendinga hafi nú fengið MSC vottun.
Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC á Íslandi segir:
"Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingar eru fyrstir með MSC vottun á ákveðinni tegund og er það ánægjulegt. Við vonum að þessi vottun verði öðrum sem stunda karfa veiðar hvati til að verða sér úti um MSC vottun og geri nauðsynlegar úrbætur sé þess þörf til að öðlast vottun. Þannig verði vonandi á endanum allar karfa veiðar stundaðar með sannarlega sjálfbærum hætti.
MSC vottaðar fiskveiðar er mælikvarði á sjálfbærar og umhverfisvænar fiskveiðar. Í nýrri skýrslu MSC er staðfestar 575 úrbætur í 125 vottuðum fiskveiðum á síðustu árum en þar vinnur umsækjandi að úrbótum til að hækka matið skv MSC staðlinum, rétt eins og ISF mun vinna að úrbótum í karfaveiðunum. Þessar úrbætur gera veiðar bæði sjálfbærri og umhverfisvænni, en þetta gerist m.a. vegna þess að markaðurinn er virkjaður sem nú kallar eftir afurðum úr MSC vottuðum veiðum."
Marine Stewardship Council
The Marine Stewardship Council (MSC) er alþjóðleg samtök rekin án gróðrasjónarmiða (non-profit). Tilgangurinn er að umbreyta verslun með sjávarfangi þannig að uppruninn sé í sjálfbærum veiðum. MSC rekur vottunarkerfi og er með skrásett vörumerki fyrir afurðir úr vottuðum fiskistofnum. Staðlarnir eru í samræmi við ISEAL Code um góðar starfsvenjur félagslegs og umhverfis staðla og unnar samkvæmt siðareglum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og leiðbeiningum FAO um umhverfismerkingar og vottun vegna veiða úr villtum stofnum. Þetta felur m.a. í sér:
• Hlutlæg vottun faggilts þriðja aðila sem nýtir vísindaleg gögn;
• Gegnsætt ferli með þáttöku hagsmunaðil og virku andmæla ferli;
• Í vottunarferlinu er metið, sjálfbærni veiðanna, áhrif veiðanna á vistkerfið og stjórn veiðanna.
MSC hefur skrifstofur í London, Seattle, Tokyo, Sydney, The Hague, Beijing, Berlín, Höfðaborg, Kaupmannahöfn, Halifax, París, Madrid, Stokkhólmi, Santiago, Moskvu, Salvador, Singapore og Reykjavík.
Í heild eru yfir 340 fiskveiðar opinberlega þáttakendur í MSC kerfinu þar sem 240 eru vottaðar veiðar og 100 í aðalmati. Árlegur afli úr þessum veiðum er tæplega tíu milljón tonn sem er um ellefu prósent af heimsveiðum á viltum fiski. Vottaðar fiskveiðar eru yfir sjö milljónir tonn - nærri átta prósent af heimsveiðunum. Í dag eru meira en 25.000 á vörunúmer sem bera bláa MSC umhverfismerkið og eru seldar í yfir 100 löndum.
Birt:
Tilvitnun:
Gísli Gíslason „Fyrsta MSC vottun á karfa í heiminum“, Náttúran.is: 9. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/09/fyrsta-msc-vottun-karfa-i-heiminum/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.