Á Náttúruverndarþingi frjálsra félagasamtaka sem fram fór í gær var níumenningunum sem kærðir hafa verið fyrir mótmæli í Gálgahrauni veitt verðlaunin Náttúruverndarinn.

Níumenningarnir eru fulltrúar fyrir stærri hóp Hraunavina sem stóð vaktina í Gálgahrauni í heilan mánuð síðastliðið haust og reyndi þannig að stöðva vegaframkvæmdir sem klufu þessa sögulegu og kyngimögnuðu hraunbreiðu í tvennt. Þessi ötula barátta endaði 21. október sl. með stærstu fjöldahandtöku á Íslandi á síðari árum. Tuttuguogfimm manns voru færð í fangageymslur og einangrunarklefa og mörg þeirra tvisvar fyrir að mótmæla friðsamlega í hrauninu. Af þessum hópi voru níu manns ákærðir.

 Tinna Þorvalds-Önnudóttir, ein níumenninganna, þakkaði fyrir hönd hópsins og sagði að þau tækju á móti þessum verðlaunum í þeirri von „að barátta okkar verði til þess að náttúruverndarsinnum alls staðar á landinu vaxi ásmegin, að þeir þori að láta til sín taka“. Tinna hvatti náttúruverndarsamtök til að „krefjast þess að engar meiriháttar framkvæmdir fari fram á láði eða legi án þess að unnendur íslenskrar náttúru séu hafðir með í ráðum.“ Jafnframt lagði Tinna áherslu á að lagabætur yrðu gerðar vegna innleiðingar Árósasamningsins sem tryggði ekki aðkomu náttúruverndarsamtaka að dómsmálum.

Hér að neðan má lesa ávarpið í fullri lengd sem Tinna  Þorvalds-Önnudóttir, flutti fyrir hönd hópsins:

Ágætu þingsetar.

Við Hraunavinir sem hljótum verðlaun Náttúruverndarans að þessu sinni þökkum þann mikla heiður sem okkur er sýndur. Sjálfum finnst okkur við tæpast vera þess verðug að taka við svo mikilli viðurkenningu þar sem við vorum aðeins að sinna borgaralegri skyldu okkar í baráttunni fyrir verndun Gálgahauns. Og það vorum ekki bara við níu sem stóðum þar í ströngu: tugir félaga okkar tóku virkan þátt í baráttunni og eiga þessa viðurkenningu fyllilega skilið ekki síður en við. En við þiggjum þessi verðlaun með þökkum í þeirri von að barátta okkar verði til þess að náttúruverndarsinnum alls staðar á landinu vaxi ásmegin, að þeir þori að láta til sín taka í hvert sinn sem andlitslausir þursar leggja til atlögu við íslenska náttúru.

Skilaboð okkar til þingheims og þjóðarinnar eru þau að náttúruverndarsamtök á Íslandi verði að krefjast þess að engar meiriháttar framkvæmdir fari fram á láði né legi án þess að unnendur íslenskrar náttúru séu hafðir með í ráðum. Náttúruverndarmál eru ein mikilvægustu hagsmunamál þjóðarinnar, og heimsins alls. Þau snerta líf alls almennings og heilsu hans og hafa óafturkræf áhrif á framtíð landsmanna um ókomna tíð. Tækin sem okkur eru ætluð í baráttunni fyrir verndun landsins hafa reynst haldlaus. Umhverfismat eitt og sér nægir ekki til að tryggja réttláta málsmeðferð, umhverfismatið í Gálgahrauni var t.d. byggt á blekkingum sem engin leið var að leiðrétta á þeim forsendum að náttúruverndarsinnar ættu ekki aðild að málinu. Nýlega kom í ljós fyrir Hæstarétti að Árósasamkomulagið sem tryggja átti aðild náttúruverndarsamtaka að öllum umhverfismálum er ekki pappírsins virði. Alþingi Íslendinga verður að taka það til alvarlegrar skoðunar. Á meðan náttúruverndarsamtök geta ekki kært mál né farið með þau fyrir dómstóla er engin leið að stöðva framkvæmdir, hversu heimskulegar sem þær eru, ekki einu sinni þótt öll leyfi séu útrunnin eins og í Gálgahrauni. Meginatriðið er samt það að náttúruverndarsamtök komi fyrr inn í ferlið, hafi strax áhrif á framkvæmdina á hugmyndastigi. Þá er ef til vill hægt að finna lausn sem allir geta sætt sig við. En ef slík lausn finnst ekki þá eru það hagsmunir almennings og náttúrunnar sem eiga að ganga fyrir.

Ljósmynd: Tinna  Þorvalds-Önnudóttir flytur ávarp fyrir hönd níumenninganna, níumenningarnir t.h. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
11. maí 2014
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Tinna Þorvalds-Önnudóttir „Náttúruverndarinn til níumenninganna “, Náttúran.is: 11. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/11/natturuverndarinn-til-niumenninganna/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: