}

Dagur íslenskrar nattúru

Staðsetning
Óstaðsett
Hefst
Þriðjudagur 16. september 2014 00:00
Lýkur
Þriðjudagur 16. september 2014 23:59
til baka sjá mánuð

Tengt efni

Við afhendingu Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti, en þau hlaut Vigdís Finnbogadóttir og Fjölmiðlaverðlaunanna, en þau hlaut Páll Steingrímsson.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til tvennra verðlauna sem afhent verða á Degi íslenskrar náttúru, 16. september næstkomandi. Annars vegar er um að ræða Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda til framtíðar.

Verðlaunin verða veitt fjölmiðli, ritstjórn, blaða- eða fréttamanni, dagskrárgerðarfólki eða ljósmyndara sem hafa skarað fram úr með umfjöllun sinni um íslenska náttúru. Til greina koma einstök verkefni eða heildarumfjöllun um íslenska náttúru.

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti
Þá verður Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar. Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði mikið á sig í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.

Óskað er eftir tilnefningum til beggja viðurkenninga fyrir 18. ágúst 2014. Tilnefningar með rökstuðningi sendist umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eða á netfangið postur@uar.is.

Ljósmynd: Við afhendingu Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti, en þau hlaut Vigdís Finnbogadóttir og Fjölmiðlaverðlaunanna, en þau hlaut Páll Steingrímsson árið 2013. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra afhenti verðlaunin við athöfn í Elliðavatnsbænum.

Sjá þá sem hlotið hafa Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti frá upphafi hér á Grænum síðum: http://natturan.is/gm/gs/842/

Sjá þá sem hlotið hafa Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá upphafi hér á Grænum síðum: http://natturan.is/gm/gs/1009/

Birt:
17. júlí 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Óskað eftir tilnefningum til verðlauna á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 17. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/17/oskad-eftir-tilnefningum-til-verdlauna-degi-islens/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Jarðarberið, verðlaunagripurinn hannaður af hannaði Finni Arnari Arnarsyni.Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða á Degi íslenskrar náttúru, þriðjudaginn 16. september næstkomandi.

Tilnefnd til verðlaunanna eru:

Gunnþóra Gunnarsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu
Fréttablaðið birti í sumar greinaflokk undir heitinu Útivist og afþreying eftir Gunnþóru Gunnarsdóttur, þar sem sjónum er beint að áhugaverðum náttúruperlum í öllum landshlutum. Framsetning  efnisins er aðlaðandi og til þess fallin að kveikja löngun hjá lesandanum til að ferðast um landið og sjá það með eigin augum. Textinn er stuttur, en þó er hvert orð vandlega valið, og fallegar ljósmyndir, kort og textabox gera efnið freistandi til aflestrar. Gunnþóra Gunnarsdóttir er tilnefnd til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 fyrir hnitmiðaða, einfalda og fallega umfjöllun um náttúru Íslands.

Just.In.Iceland
Just.In.Iceland syngur íslenskri náttúru óð með hjálp mismunandi samfélagsmiðla á borð við Facebook, Pinterest, Twitter og Vimeo. Um er að ræða framtak áhugamanna í því augnamiði að kynna sérstöðu Íslands fyrir umheiminum með því að skapa stafrænan vettvang til að birta og deila fagmannlega teknum ljósmyndum af íslenskri náttúru og lífríki. Just.In.Iceland er tilnefnt til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 fyrir að nýta sér Netið og gagnvirkni þess með frábærum árangri enda er ljósmynda- og kvikmyndaefnið á síðum miðilsins mikið bæði að vöxtum og gæðum.

RÚV, hljóðvarp og sjónvarp
Umfjöllun RÚV um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum á liðnu ári hefur verið mikil að vöxtum og alhliða, allt frá stuttum fréttaskotum til ítarlegra og vandaðra skýringa eða umræðu, þar sem öll mikilvægustu sjónarmið málanna hafa komið fram. Verður hvorki gert upp á milli sjónvarps og hljóðvarps í þessu sambandi né einstakra þátta, þótt virðist mega nefna sérstaklega Morgunútvarpið, Spegilinn, Sjónmál og Kastljós, heldur er fjölmiðillinn RÚV tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 í einu lagi.

Verðlaunagripinn, Jarðarberið,

Í dómnefnd sitja Þór Jónsson formaður, Árni Gunnarsson og Snæfríður Ingadóttir.

Ljósmynd: Jarðarberið, verðlaunagripur Fjölmiðlaverðlaunanna sem úthlutað verður á Degi íslenskrar náttúru þ. 16. sept. nk. Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
11. september 2014
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 11. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/11/tilnefningar-til-fjolmidlaverdlauna-degi-islenskra/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Þriðjudaginn 16. september verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi - í tilefni Dags íslenskrar náttúru - við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þetta séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.

Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma.

Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.

Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli en afar erfitt er að koma auga á þá fyrir óvana. Kall glókollsins er á hárri tíðini sem fer gjarnan fram hjá fólki sem komið er fram yfir miðjan aldur en sönginn heyra flestir en söngur hans líkist söng skógarþrasta.

Birt:
11. september 2014
Tilvitnun:
Fuglavernd - Fuglaverndarfélag Íslands „Glókollaferð á degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 11. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/11/glokollaferd-degi-islenskrar-natturu/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Dynkur í ÞjórsáÁ fundi ríkisstjórnarinnar þ. 1. október 2010 var ákveðið að 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, yrði þaðan í frá „dagur íslenskrar náttúru“.  Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lagði fram tillögu þess efnis. Hún sagði að ákvörðun ríkisstjórnarinnar vera viðurkenningu á framlagi Ómars til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum til að efla fræðslu um íslenska nátttúru. (sjá frétt)

Dagur íslenskrar náttúru er nú hladin hátíðlegur í fjórða sinn. Dagskráin á degi íslenskrar náttúru 16. september 2014 er svohljóðandi:

Höfuðborgarsvæðið

10:00 - 19:00 Kópavogur Náttúrufræðistofa Kópavogs býður á sýninguna „Þríhnúkagígur og hraunhellar á Íslandi“ þar sem fjallað er um hella og umgengi fólks um þá, með áherslu á Þríhnúkagíg. Starfsmenn verða á staðnum til leiðsagnar og umræðu um umgengi og verndun vinsælla ferðamannastaða. Sýningin verður opin út október. Nánari upplýsingar.

12:15 Garðabær Náttúrufræðistofnun Íslands býður til hádegisgöngu um hraunið í nágrenni stofnunarinnar undir leiðsögn Sigmundar Einarssonar jarðfræðings og Ásrúnar Elmarsdóttur plöntuvistfræðings. Mæting er við hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti. Áætlað er að gangan taki um 45 mínútur. 

13:00 Reykjavík Hátíðarsamkoma umhverfis- og auðlindaráðherra á Umhverfisstofnun við Suðurlandsbraut. Afhending fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti.

14 - 17 Reykjavík Skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands í gömlu Loftskeytastöðinni að Brynjólfsgötu 5 verða opnar almenningi milli kl. 14 og 17. Gestum býðst að skoða þetta glæsilega hús og forstöðumaður stofnunarinnar, dr. Hilmar J. Malmquist, spjallar við gesti um forsögu og framtíðarhorfur höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða.

16:30 Garðabær Umhverfisnefnd bæjarins býður til hjólaferðar í tilefni af Samgönguviku sem hefst á Degi íslenskrar náttúru. Gunnar Einarsson bæjarstjóri hjólar um nýja hjóla- og göngustíga og kynnir fyrir íbúum skemmtilega hringleið um Garðahraun. Stoppað er á tveimur stöðum og boðið upp á drykki. Upphaf og endir hjólaferðarinnar er við Ráðhústurninn á Garðatorgi. Nánari upplýsingar. 

17:00 Mosfellsbær Mosfellsbær, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosverjar bjóða til skógargöngu og grillveislu fyrir alla fjölskylduna við Hafravatn. Hjólað er frá miðbæjartorgi Mosfellsbæjar kl. 17 að Hafravatni eftir malarvegi. Skógargangan leggur upp frá Hafravatnsrétt kl. 18. Grillveisla að lokinni göngu við Sumargerði, hús Skógræktarfélags Mosfellsbæjar við Hafravatn. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar

17:00 Reykjavík ÍSOR býður til jarðfræðigöngu þar sem Fossvogslögin eru skoðuð undir leiðsögn Árna Hjartarsonar jarðfræðings. Meðal annars er hægt að sjá á svæðinu Reykjavíkurgrágrýti, jökulrispur á bergi, jökulurð á klöppum, sjávarsetlög með fornskeljum, jökulruðningur og straumvatnaset, en upplýsingar um þessi fyrirbæri er að finna í jarðfræðikorti af Suðvesturlandi sem ÍSOR gaf út árið 2010. Brottför er við Perluna í Öskjuhlíð kl. 17:00 og er áætlað að gangan taki um klukkustund. Er tilvalið að fá sér hressingu við Kaffi Nauthól áður en gangan endar aftur við Perluna. Nánari upplýsingar.

17:30 Reykjavík Fuglavernd býður til fuglaskoðunar í kirkjugarðinum í Fossvogi.  Skoðaðir verða glókollar og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu. Krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting á bílastæðið við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna. Nánari upplýsingar

18:00 Álftanes Umhverfisstofnun býður til gönguferðar um Norðurnes á Álftanesi. Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins, leiðir gönguna og segir frá hreinsunarstarfi sínu við strendur landsins. Gengið verður um fjörur og fólk því hvatt til að vera í réttum fótabúnaði og klætt eftir veðri. Fjölskrúðugt fuglalíf er á þessum slóðum auk þess sem hægt er að tína fallegar skeljar í fjöruborðinu. Gangan er einnig upphitun fyrir alþjóðlega ráðstefnu sem Umhverfisstofnun stendur að um plast í hafinu í Hörpu þann 24. september nk. Ekið er beint fram hjá Bessastöðum og safnast saman við hestagirðinguna á Norðurnesi. 

18:00 Heiðmörk Útivist og gönguklúbburinn Vesen og vergangur bjóða til göngu í og umhverfis Búrfellsgjá í Heiðmörk. Skoðaðar verða vegghleðslur og tóftir á svæðinu og farið yfir hvernig ferðamenn eiga að umgangast þau landsvæði sem þeir ganga um. Mæting og samansöfnun í bíla er á bílastæði við skóla Hjallastefnunar við Vífilsstaði í Garðabæ. Gera má ráð fyrir að gangan taki tvo til þrjá tíma og því verði farið að skyggja í lok göngu, því væri gott ef þáttakendur hefðu með sér ljós. Nánari upplýsingar.

18:00 Mosfellsbær „Fús" gönguhópur starfsmanna, fjölskyldna og vina starfsmanna ÍSAL - RioTintoAlcan á Íslandi efnir til hópgöngu þar sem sérstaklega verður efnt til samræðna um  umgengni og virðing við náttúrunna. Lagt er af stað frà N1 Ártúnsholti kl 18:00 þar sem sameinast er í bíla og keyrt að Helgafelli í Mosfellsbæ. Gengið verður á Helgafell frá Þingvallavegamótun. Um er að ræða létta göngu við allra hæfi sem varir í um tvo tíma. 

Skólaverkefni

Menntaskólinn í Kópavogi er með sína árlegu umhverfisviku dagana 15. - 18. sept þar sem m.a. verður fjallað um sorpflokkun, loftslagsbreytingar, eldsumbrot og visthæfar samgöngur. Sjá dagskrá. 

Grænfánaleikskólinn Garðaborg heldur upp á Dag íslenskrar náttúru með því að huga að umhverfi leikskólans, þrífa og snyrta í kringum hann. Börnin fara með kennaranum sínum út fyrir lóðina og týna rusl kringum hann. Einnig verður lóð skólans sópuð og snyrt. 

Suðurland

14:00 Þingvellir Jóhannes Sturlaugsson hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum fræðir gesti Þjóðgarðsins á Þingvöllum um Þingvallaurriðann. Kynningin verður haldin tvisvar að deginum og fer fram á bökkum Öxarár. Í báðum tilfellum hefst fræðslan við bílastæðið þar sem Valhöll stóð. Síðan er gengið með ánni upp undir Drekkingarhyl þar sem risaurriðar og aðrir minni verða skoðaðir og fjallað um lífshætti þeirra. Gert er ráð fyrir því að kynningin taki um eina og hálfa klukkustund og fá gestir tækifæri til að sjá risaurriðann í návígi og fræðast um þennan stórhöfðingja Þingvallavatns sem á hverju hausti gengur upp Öxará.

16:00 Höfn í Hornafirði Sveitarfélagið Hornafjörður mun veita umhverfisviðurkenningu á degi íslenskrar náttúru, viðurkenningin verður veitt í Listasafni Svavars Guðnasonar þar sem boðið verður upp á léttar veitingar. Viðurkenning er veitt i þrem flokkum og þurfa þeir aðilar sem tilnefndir eru, að skara framúr eða hafa verið til fyrirmyndar í umhverfismálum. Flokkarnir sem veittar verða viðurkenningar til eru, lóðir í þéttbýli, lögbýli og fyrirtæki eða stofnun.

17:00 Þingvellir Jóhannes Sturlaugsson hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum fræðir gesti Þjóðgarðsins á Þingvöllum um Þingvallaurriðann. Kynningin verður haldin tvisvar að deginum og fer fram á bökkum Öxarár. Í báðum tilfellum hefst fræðslan við bílastæðið þar sem Valhöll stóð. Síðan er gengið með ánni upp undir Drekkingarhyl þar sem risaurriðar og aðrir minni verða skoðaðir og fjallað um lífshætti þeirra. Gert er ráð fyrir því að kynningin taki um eina og hálfa klukkustund og fá gestir tækifæri til að sjá risaurriðann í návígi og fræðast um þennan stórhöfðingja Þingvallavatns sem á hverju hausti gengur upp Öxará.
17:00 Höfn í Hornafirði Náttúrustofa Suðausturlands stendur fyrir gönguferð með leiðsögn á Degi íslenskrar náttúru.  Gengið verður frá "sólinni" á Óslandshæð eftir göngustígnum að Leiðarhöfða. Allir eru velkomnir.

Grímsnes Íbúar á Sólheimum í Grímsnesi ætla að halda upp á daginn með því fegra umhverfi Sólheima á margan hátt. Gróðursett verða tré og verða sérstaklega valdar trjátegundir sem hafa falleg blóm. Einnig verða settir niður haustlaukar um alla byggð.

Skólaverkefni
Laugarvatn Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur verður með kynningarfund um eldgosið í Holuhrauni á sal Menntaskólans að Laugarvatni.

Hella Grunnskólinn á Hellu býður foreldrum og öðrum áhugasömum í heimsókn kl. 11:00.  Nemendur yngsta stigs flytja endurvinnslusöng Grænfánaskólans og nemendur 6. bekkjar kynna vistheimtarverkefni sem er samstarfsverkefni Grunnskólans, Landverndar og Landgræðslunnar. Verkefnið fjallar um endurheimt vistkerfa og á að stuðla að aukinni þekkingu á mikilvægi vistheimtar.

Norðurland eystra

17:00 Akureyri Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru og Samgönguviku býður Akureyrarbær til göngu um Krossanesborgir undir leiðsögn Sverris Thorsteinssonar. Frí strætóferð verður kl. 17 frá miðbæ að Krossanesborgum þar sem farið er út við nýja aðkomu norðan Byko. Gangan tekur um klukkustund og er frí stræóferð frá Krossanesborgum í miðbæinn að henni lokinni. 

20:30 Mývatn Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn stendur að fyrirlestri í Mývatnsstofu í Reykjahlíð undir yfirskriftinni ,,Náttúra í jafnvægi?” Fjallað verður um hugmyndir manna um jafnvægi í náttúrunni og hvernig þær hafa verið að breytast eftir því sem þekking okkar eykst. Tekið er dæmi af silungsveiði í Mývatni, en hún hefur breyst meira í áranna rás en flesta grunar. Skoðun á sögulegum heimildum og borkjörnum úr setlögum víkkar skilning okkar á aflabrögðum í þessu fornfræga veiðivatni. Fyrirlesari er Dr. Árni Einarsson. Allir velkomnir, aðgangur er ókeypis.

Reykjanes

15. og 16. september kl. 14:00 - 18:00  Reykjanesbær Kynning á nokkrum umhverfisverkefnum í bæjarfélaginu á bókasafninu, m.a. á Njarðvíkurskógarverkefninu og tillögum að skipulagi frá Jóhanni Inga Sævarssyni, umhverfisskipulagsfræðingi. Einnig verða upplýsingar um Skógræktarfélag Suðurnesja sem og Reykjanes Geopark. Þá eru íbúar, félagasamtök og fyrirtæki hvött til að nýta daginn til að leggja náttúrunni lið og um leið njóta útivistar á öllum þeim frábæru svæðum sem finnast í bæjarfélaginu.  Er meðal annars bent á reiti skógræktarfélagsins sem eru Vatnsholtið, Rósaselsvötn og Sólbrekkuskógur, auk fjölmargra gönguleiða og heilsustíga innan marka bæjarins.

Vesturland

16:30 Akranes Landmælingar Íslands bjóða á stutt námskeið þar sem kennt verður á GPS handtæki og hvernig hægt er að tengja þau við kortavefsjár stofnunarinnar. Námskeiðið stendur í 45 mínútur en kennarar eru sérfræðingar stofnunarinnar í landmælingum ásamt Hirti Hróðmarssyni fjallgöngumanni. Að því loknu verður farið í gönguferð í Innstavogsnes, undir leiðsögn Guðna Hannessonar og Eydísar L. Finnbogadóttur, þar sem fólki gefst kostur á að æfa sig í notkun GPS tækjanna. Námskeiðið hefst kl 16:30 í fundarsal Landmælinga Íslands, Stillholti 16-18, Akranesi og að því loknu verður gengið út í Innstavogsnes. Þeir sem vilja einungis taka þátt í gönguferðinni geta mætt við Innstavog kl 17:30.Gert er ráð fyrir að gönguferðin taki u.þ.b. einn og hálfan klukkutíma. Námskeiðið er ókeypis og eru allir velkomnir. Nánari upplýsingar.

Ljósmynd: Dynkur í Þjórsá.

 

Birt:
15. september 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Dagskráin á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 15. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/15/dagkrain-degi-islenskrar-natturu/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Nýtt efni:

Veður frá windyty.com

Skilaboð: