}

Hrafnaþing: Á fýlaslóðum í Rangárþingi

Staðsetning
Urriðaholtsstræti 6
Hefst
Miðvikudagur 17. febrúar 2016 15:15
Lýkur
Miðvikudagur 17. febrúar 2016 16:00
til baka sjá mánuð

Tengt efni

Kortlagning fýlabyggðar í Rangárþingi: Náttúrufræðistofnu ÍslandsBorgþór Magnússon plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Á fýlaslóðum í Rangárþingi 2015“  á Hrafnaþingi miðvikudaginn 17. febrúar kl. 15:15.

Sumrin 1980 og 1981 gekkst Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir skráningu og kortlagningu á fýlabyggðum í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Fuglar í vörpum voru taldir og leitað upplýsinga um aldur varpa hjá heimamönnum. Þannig fékkst allgóð mynd af útbreiðslusögu fuglsins á svæðinu og stofnstærð, einkanlega í Rangárvallsýslu. Hefur því áður verið gerð skil á þessum vettvangi. Gróflega áætlað má telja að nær 100.000 fýlspör hafi orpið á  svæðinu á þessum tíma og um þriðjungur þeirra í Rangárvallasýslu. Frá þessum árum hefur lítið verið hugað að þróun fýlsvarpa á svæðinu, hvort útbeiðsla hefur aukist eða dregist saman og hvernig stofninum hefur reitt af.

Sumarið 2015 varð örlítil breyting á en þá var farið í tvö gil í Rangárvallasýslu þar sem fýlsvörp eru gamalgróin. Þetta eru Kaldaklifsgil undir Eyjafjöllum (varp frá um 1885) og Þórólfsárgil í Fljótshlíð (varp frá um 1952). Gengið var með giljunum og fuglar taldir á sambærilegan hátt og gert var sumarið 1980. Verkið var unnið í samvinnu við Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, sem vinnur nú að endurmati á stærð fýlastofnsins á landinu. Auk þessa voru eldri kort af vörpum tekin fram og mæld upp lengd gilja- og hamraveggja þar sem vörp var að finna 1980–1981. Fékkst þannig betri mynd en áður af þéttleika fugla í einstökum vörpum á þeim tíma.

Niðurstöður talninganna 2015 sýndu að fjöldi fugla var áþekkur í Kaldaklifsgili og 1980 en veruleg fækkun hafði hins vegar orðið í Þórólfsárgili. Í erindinu verða rifjaðir upp fróðleiksmolar um fýlinn svæðinu og gerð nánari grein fyrir niðurstöðum.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð.

Hrafnaþing er opið öllum. Verið velkomin!

Birt:
15. febrúar 2016
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Hrafnaþing - Á fýlaslóðum í Rangárþingi“, Náttúran.is: 15. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2016/02/15/fylaslodum-i-rangarthingi/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 1. mars 2016

Nýtt efni:

Veður frá windyty.com

Skilaboð: