}

Frestur til að gera athugasemdir við Sprengisandslínu er til 17. nóvember 2015

Staðsetning
Óstaðsett
Hefst
Þriðjudagur 03. nóvember 2015 17:00
Lýkur
Þriðjudagur 17. nóvember 2015 00:00
til baka sjá mánuð

Tengt efni

Aðalvalkostir fyrir Sprengisandslínu (rauð lína) og Sprengisandsveg (svört lína) skv. niðurstöðu forathugunar.Landsnet hefur nú sent Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun vegna Sprengisandslínu, 220 kílóvolta háspennulínu milli Norður- og Suðurlands, til formlegar ákvörðunar í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Allir geta gert athugasemdir við tillöguna og sent Skipulagsstofnun fyrir 17. nóvember 2015.

Drög að tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu voru send umsagnar- og samráðsaðilum í október 2014. Í framhaldi af því voru þau kynnt hagsmunaaðilum og almenningi, m.a. í opnu húsi á fjórum stöðum á landinu, og birt til kynningar um þriggja vikna skeið. Á því tímabili gafst umsagnaraðilum og almenningi kostur á að koma með athugasemdir en alls bárust 31 athugasemd og hefur tillagan nú verið endurskoðuð út frá þeim ábendingum og lögð inn til til málsmeðferðar hjá Skipulagsstofnun.

Styrking flutningskerfisins þjóðhagsleg nauðsyn
Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta raforkukerfi landsins en óstöðugleiki í rekstri byggðalínunnar og takmarkanir á orkuafhendingu standa orðið í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun víða á landinu. Hafa nokkrir valkostir verið settar fram af hálfu Landsnets til að styrkja meginflutningskerfið og leysa þann þjóðfélagslega vanda sem blasir við. Þeir fela annars vegar í sér að endurbyggja núverandi byggðalínu hringinn í kringum landið og hins vegar að þvera miðhálendið með háspennulínu og styrkja jafnframt flutningskerfið nyrðra til austurs og vesturs. Tenging raforkuvinnslukjarnans á Suðvesturlandi við norðurhluta landsins er bæði áhrifaríkasta og fljótvirkasta leiðin til að styrkja raforkuflutningskerfið og þar er lína yfir Sprengisand mikilvægur hlekkur.

Hálendisleið í faglegt matsferli
Til að fá úr því skorið hvort hálendisleið sé raunhæfur kostur hóf Landsnet á síðasta ári undirbúning mats á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu, um 195 km langrar 220 kV háspennulínu frá fyrirhugðu tengivirki við Langöldu á Landmannafrétti að fyrirhugðu tengivirki við Eyjadalsá vestan Bárðardals. Háspennulínur á þessu spennustigi eru matsskyldar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, 22. tl. 1. viðauka. Matið er faglegt ferli til að afla ítarlegri upplýsinga um leiðaval yfir Sprengisand, útfærslu mannvirkja og möguleg umhverfisáhrif, áður en tekin er ákvörðun um framtíðarstyrkingu flutningskerfisins.

Í tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd, valkostum og framkvæmdasvæði lýst og fjallað um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt er tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matsvinnuna og hvaða gagnaöflun er yfirstandandi eða er fyrirhuguð.

Tillaga að matsáætlun er aðgengileg á heimasíðum Landsnets, Steinsholts og Skipulagsstofnunar og geta allir sent athugasemdir við hana til Skipulagsstofnun fyrir 17. nóvember 2015, annað hvort bréflega eða í tölvupósti (skipulag@skipulag.is).

Fara í tillögu að matsáætlun að Sprengisandslínu hér
Fara á vef Landsnets hér
Fara á vef Skipulagsstofnunar hér

Birt:
3. nóvember 2015
Höfundur:
Umhverfisfrettir.is
Tilvitnun:
Umhverfisfrettir.is „Sprengisandslína – frestur til að gera athugasemdir er til 17. nóvember 2015“, Náttúran.is: 3. nóvember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/11/03/sprengisandslina-frestur-til-ad-gera-athugasemdir-/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Nýtt efni:

Veður frá windyty.com

Skilaboð: