Um áramótin var Lárus Vilhjálmsson, áður varaformaður Framtíðarlandsins, ráðinn framkvæmdastjóri Landverndar, en samtökin hafa verið án framkvæmdastjóra síðan Bergur Sigurðsson lét af störfum fyrir þingkosningarnar sl. vor er hann settist á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi. Bein stjórnmálaþátttaka þótti ekki sæma starfi framkvæmdastjóra og kaus Bergur því að hætta störfum. Landvernd hefur því lotið framkvæmdastjórnar stjórnarforrmannsins Björgólfs Thorsteinssonar og 10 manna stjórnar samtakanna frá því á vordögum. Starf framkvæmdastjóra var ekki auglýst laust til umsóknar fyrr en um mánaðarmótin nóv./des. og bárust 18 umsóknir um starfið er fjögurra manna ráðninganefnd fór yfir. Ekki er upplýst um hverjir sóttu um stöðuna en staða framkvæmdastjóra var auglýst sem hálft starf til að byrja með, á grundvelli fjárhagsstöðu samtakanna.

Á vef Landverndar segir um feril Lárusar: „Lárus stundaði nám í ensku og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fjármálastjórn við skóla bandaríska utanríkisráðuneytisins. Hann starfaði lengi hjá Menningarstofnun Bandaríkjanna og var í nokkur ár framkvæmdastjóri Nýlistasafnsins. Lárus hefur mikla reynslu af félagsstörfum og stjórnun félaga og var um langt árabil formaður Leikfélags Hafnarfjarðar og í stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga. Lárus hefur lengi verið ötull umhverfisverndarmaður og sagðist aðspurður hlakka mikið til að starfa fyrir Landvernd. „Það eru mörg krefjandi og spennandi verkefni í umhverfismálum framundan og Landvernd mun leika stórt hlutverk í þeim. Ég held að reynsla mín geti nýst samtökunum vel og horfi bjartsýnn fram á veginn.“

Náttúran.is óskar Lárusi velfarnaðar í starfi og lítur björtum augum til samstarf um að gera Ísland „grænt land, fagurt land“.

Birt:
Jan. 19, 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lárus Vilhjálmsson nýr framkvæmdastjóri Landverndar“, Náttúran.is: Jan. 19, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/18/larus-vilhjalmsson-nyr-framkvaemdastjori-landvernd/ [Skoðað:Feb. 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 18, 2010
breytt: Jan. 20, 2010

Messages: