Að tilstuðlan Bjarkar Guðmundsdóttur sameinuðust virkustu náttúruverndaröfl Íslands í áskorun til Össurar Skarphéðinssonar um að beita sér fyrir náttúruvernd.

Áskorun til ferðamálaráðherra um að beita sér fyrir náttúruvernd !

Náttúruvernd samtvinnuð ferðaþjónustu er öflug leið til að markaðssetja Ísland sem áhugaverðan áfangastað fyrir ferðamenn.

Náttúran er okkar mikilvægasta auðlind og sú náttúruverndarbarátta sem háð hefur verið undanfarin ár og áratugi er öflugasta tækið til að kynna sérstöðu og aðdráttarafl Íslands. Náttúruverndarbaráttan hefur sett í forgrunn brýnasta viðfangsefni samtímans. Íslendingar gætu verið í fararbroddi á heimsvísu í mótun nýrrar orkustefnu og afstöðu til náttúrunnar.

Við blasir, samkvæmt fáanlegum upplýsingum, að hvorki álver né orkuver verði byggð eða stækkuð á Íslandi næstu mánuði og misseri. Framleiðsla áls hefur að undanförnu dregist hratt saman, verð áls lækkað og fjármögnun risavirkjana því næsta vonlítil. Stjórnvöldum ber að leita allra raunhæfra leiða til að byggja upp fjölbreytilegt atvinnulíf og stuðla að sjálfbærri þróun í sátt við náttúruna.

Í dag fjallar ferðamálaþing um það hvernig efla megi ferðaþjónustu á Íslandi. Að undanförnu hefur komið fram fjöldi nýrra hugmynda um ónýtta möguleika í ferðaþjónustu. Þær frjóu hugmyndir mega ekki stranda vegna stóriðjuhugmynda sem hafa of lengi rutt annarri uppbyggingarviðleitni úr vegi.

Neðangreind náttúruverndaröfl skora á ferðamálaráðherra, Össur Skarphéðinsson, að lýsa því yfir á ráðstefnu Ferðamálaráðs í dag að nú verði náttúruvernd og ný orkustefna að vera í öndvegi ferðaþjónustu á Íslandi til framtíðar.

Nattura.info
Náttúruverndarsamtök Íslands
Natturan.is
Framtíðarlandið  
Landvernd

Nánari upplýsingar veita: Björk Guðmundsdóttir, Árni Finnsson, Oddný Eir Ævarsdóttir, Bergur Sigurðsson, Irma Erlingsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir.

Ljósmynd: Össur Skarphéðinsson með uppskeru hjá ORF.

Birt:
20. nóvember 2008
Tilvitnun:
Björk Guðmundsdóttir „Áskorun til ferðamálaráðherra“, Náttúran.is: 20. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/20/askorun-til-feroamalaraoherra/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: