Næstum því allt sem við gerum skapar einhvern úrgang eða hefur einhverja mengun í för með sér. Úrgangsfjallið sem fellur til á hverju ári er stórt og á hverju ári fara stór landflæmi undir urðun sorps. Að draga úr úrgangsmyndun er eitt það besta sem hægt er að gera fyrir umhverfið. Myndun úrgangs felur í sér sóun á hráefnum sem væri hægt að endurnýta auk þes sem sorphaugar valda lyktarmengun, smithættu og í þeim myndast mengandi sigvatn sem rennur síðan út í sjó. Metangas myndast einnig í sorphaugum og sem betur fer er hægt að nýta það að hluta til sem eldsneyti fyrir bifreiðar. Þannig margborgar sig að draga úr minnkun úrgangs og best er að byrja við uppsprettuna þar sem úrgangurinn verður til.

Hvernig vinnum við að því að minnka úrgang ?

  1. Við komum í veg fyrir að sorp verði til t.d. með því að við sem neytendur kaupum minna eða kaupum vörur sem mynda lítið sorp. Umbúðir skipta miklu máli í þessu sambandi.
  2. Við minnkum áhrif skaðlegra efna úr vörum á okkur með því að velja lífrænar og umhverisvottaðar vörur og um leið minnkar líka magn skaðlegra efna í sorpinu.
  3. Við endurnotum eins mikið og hægt er t.d. með því að nota glerkrukkur og matarleifar.
  4. Við kaupum nýjar vörur endurunnar úr sorpi, t.d. pappír, flíspeysur og kerti.
  5. Við notum orkuna í sorpinu og ökum um á metanbílum.

Aðrir geta haft þörf fyrir þá hluti sem við þurfum ekki að nota lengur, svo sem skó, fatnað, íþróttavörur, sjónvörp, ýmis heimilistæki, húsgögn, reiðhjól bækur o.s.frv. Þú getur t.d. gefið Rauða Krossinum, Hjálpræðishernum eða Mæðrastyrksnefnd notuð föt eða komið þeim á annan hátt í endursölu. Þú getur farið með hluti eins og t.d. bækur á skiptimarkað, sett af stað markað í hverfinu þínu eða gefið hluti til fjölskyldu og vina t.d. gefa unglingum sem eru að hefja búskap gömul húsgögn. Sveitarstjórn ákveður fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangs í sveitarfélaginu og því geta reglur um flokkun úrgangs verið mismunandi á milli sveitarfélaga. Í öllum sveitarfélögum hér á landi er tekið aðgreint á móti spilliefnum, og lang flest sveitarfélög taka við flokkuðum pappír, drykkjavöruumbúðum, timbri, fatnaði, húsbúnaði, garðaúrgangi og lyfjum. Byrjið á því að flokka þennan úrgang.

Þú getur síðan smám saman aukið flokkunina eftir því sem möguleikarnir aukast í sveitarfélaginu*. Það þarf ekki að kaupa dýran búnað í eldhúsið til þess að flokka. Dagblöðum og öðrum pappír má safna í pappakassa. Gosflöskur má setja í poka eða pappakassa. Notið þá kassa og poka sem þegar eru til staðar. Þá tekur enga stund að koma flokkuninni af stað og það kostar ekkert. Margt smátt gerir eitt stórt! Ef þú flokkar endurvinnanlegan úrgang, leggur þú þitt af mörkum til þess að draga úr áhrifum neyslusamfélagsins á umhverfið. Þitt framlag skiptir máli.

Á Græna kortinu eru einnig nokkrir flokkar sem halda utan um þá aðila sem stuðla að endurnýtingu, annað hvort með sölu eða framleiðslu. T.d. flokkarnir Nytjamarkaðir og Endurnýting

Náðu þér í ókeypis Endurvinnslukorts-app sem við höfum þróað fyrir snjallsíma.

Ljósmynd: Stóll úr plastrusli.

Birt:
10. mars 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Með nýtni og skynsemi má minnka magn úrgangs“, Náttúran.is: 10. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2009/12/21/meo-nytni-og-skynsemi-minnka-magn-urgangs/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. desember 2009
breytt: 10. mars 2014

Skilaboð: