Íslenska Gámafélagið hlaut Kuðunginn 2008
Í dag á „degi umhverfisins“ stóð umhverfisráðuneytið fyrir málþingi um græn störf í Iðnó en auk þess var úthlutað umhverfisverðlaunum umhverfisráðuneytisns „Kuðungnum“. Að þessu sinni hlaut sorphirðufyrirtækið Íslenska gámafélagið ehf Kuðunginn.
Áður hafa 14 fyrirtæki hlotið Kuðunginn en umhverfisráðuneytið veitti Kuðunginn fyrst árið 1994. Sjá nánar um hver hefur fengið Kuðunginn hér á Grænum síðum.
Íslenska gámafélagið hefur verið leiðandi afl á ýmsum sviðum sem tengjast umhverfinu og endurvinnslu á undanförnum árum og þá sérstaklega í að koma á flokkun í sveitarfélögum og færa á hærra þjónustustig. Á síðasta ári innleiddi fyrirtækið endurvinnslukerfi í Stykkishólmi sem nú gengur undir nafninu „Stykkishólmsleiðin“. Græn og brún tunna eru við hvert hús í bænum auk hinnar venjulegu gráu tunnu fyrir óflokkað sorp. Sama kerfi var einnig tekið upp í Flóanum, fyrst dreifbýlissvæða og nú síðast innleiddi Arnarneshrepppur Grræna tunnu sem staðalbúnað fyrir hvert hús.
Grræna tunnan tekur við endurvinnanlegu sorpi s.s. plasti, dósum, dagblöðum og tímaritum en brúna tunnan við lífrænu heimilissorpi sem nýtt er til moltugerðar. Íslenska gámafélagið sér um söfnun og útflutning á því flokkaða efni sem þarf að vinna erlendis en kemur öðru í réttan farveg hér á landi. Þjónusta Íslenska Gámafélagsins við sveitarfélögin hafa mælst mjög vel fyrir og er orðin fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög í því hvernig flokkun og endurvinnsla getur sparað beinharða peninga en urðun er dýr og óumhverfsisvæn leið til að láta sorp hverfa sjónum fólks. Markmið verkefnisins er að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar um 70-80%. Þannig sparar sveitarfélagið stórar fjárhæðir og flokkaða efnið fær endurnýjun lífdaga í nýjum framleiðsluvörum sem sparar auðlindir, eða umbreytist í orku t.d. við bruna eða við metanframleiðslu.
Íslenska Gámafélagið hefur ennfremur lagt metnað sinn í að umbreyta bílaflota sínum í metanbifreiðir og keyrir nú nær allur bílafloti Íslenska Gámafélagsins á metaneldsneyti.
Með haustinu mun Íslenska Gámafélagið væntanlega fá vottun ISO 14001 umhverfisvottunarkerfisins en fyrirtækið hefur markvisst unnið að því að innleiða umhverfisstjórnun í allan sinn rekstur. Í dag hafa níu íslensk fyrirtæki ISO 14001 vottun, sjá hér á Grænum síðum.
Náttúran.is óskar Íslenska Gámafélaginu til hamingju með Kuðunginnn!
Myndin sýnir Jón Þóri Frantzson framkvæmdastjóra Íslenska Gámafélagsins ehf. og Kolbrúnu Halldórsdóttur umhverfisráðherra með Kuðunginn á Tjarnarbakkanum fyrir utan Iðnó, nú fyrr í dag. Ljósmynd: Einar Bergmundur.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íslenska Gámafélagið hlaut Kuðunginn 2008“, Náttúran.is: 25. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/25/islenska-gamafelagio-hlaut-kuounginn-2009/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. apríl 2009