Kringlan og Íslenska Gámafélagið undirrituðu með sér samstarfssamning um flokkun og endurvinnslu þann 6. desember eftir hátíðlega athöfn að viðstöddum umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur. Samningurinn tók gildi þann 1. janúar 2009 og felur í sér að allir verslunareigendur leggi sitt að mörkum til að ná markmiðum Kringlunnar í flokkunarmálum. Starfsmaður á vegum Íslenska Gámafélagsins mun vera starfsfólki verslana innan handar og veita faglega ráðgjöf í flokkun.
 
Kringlan hefur fyrst verslunarkjarna, í samvinnu við Íslenska Gámafélagið, tekið þá ákvörðun að leggja sitt að mörkum til umhverfisins með því að auka alla flokkun á sorpi. Nú þegar hefur Kringlan sett upp ruslastampa í sameiginlegu rými fyrir gesti og gangandi þar sem hægt er að flokka í annars vegar almennt og hins vegar plast, gler og dósir. Auk þess munu verslunareigendur sjá til þess að flokka bylgjupappa, sléttan pappa og plast frá almennu sorpi með aðstoð og ráðgjöf frá Íslenska Gámafélaginu. Marmiðið er að ná 40% flokkun fyrstu 3 mánuðina og að einu ári liðnu 60-70% flokkun.
 
Þessi aðgerð er ekki aðeins umhverfisvæn, heldur fylgir henni mikill sparnaður með minnkun urðunargjalda, svo og er hún atvinnuskapandi. Hátt í þrjú störf munu skapast í kringum það að gera Kringluna grænni. Einn starfsmaður í 100% starfi mun vera flokkunarstjóri Kringlunnar. Losun á gámum, flokkun og böggun hjá Íslenska Gámafélaginu skapar tvö önnur störf til viðbótar. Að flokkun lokinni er hráefnið flutt erlendis í endurvinnslu með tilheyrandi útflutningstekjum.
Þess má til gamans geta að það sorpmagn sem fellur til frá Kringlunni á ári er um 700 tonn sem er fjórum sinnum meiri úrgangur en kemur frá sveitarfélagi eins og Stykkishólmi.
 
Að lokinni athöfninni þ. 6. desember sl. afhenti starfsfólk Íslenska Gámafélagsins áhugasömum fría áskrift að Grænu tunnunni í þrjá mánuði. Með því vill starfsfólk Íslenska Gámafélagsins auðvelda áhugasömum að flokka og leggja sitt að mörkum til umhverfisins.
Birt:
Jan. 19, 2009
Tilvitnun:
Íslenska gámafélagið „Tímamótasamningur Kringlunnar og Íslenska gámafélagsins“, Náttúran.is: Jan. 19, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/19/timamotasamningur-kringlunnar-og-islenska-gamafela/ [Skoðað:May 21, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 6, 2011

Messages: