Góð viðmið þurfa að uppfylla nokkur einföld skilyrði:

Eru mælanleg
Umhverfisskilyrði þurfa ekki nauðsynlega að vera töluleg en þau verða að vera mælanleg, þ.e að það þarf að vera ljóst hvenær markmiðinu er náð. Dæmi um mælanlegt markmið sem er ekki tölulegt er að allir starfsmenn eiga að hljóta 4 tíma grunnmenntunar í umhverfismálum á næstu 12 mánuðum. Þetta er ekki tölulegt markmið en það er ljóst að markmiðinu hefur verið náð ef allir starfsmenn hafa fengið grunnumhverfisfræðslu innan 12 mánaða.

Hafa grunnviðmið og tímaramma
Skilyrði verða að hafa þekktan grunn sem þau byggja á. Markmið um að lækka eldsneytisnotkun um 5% segir í raun ekkert. Þetta markmið tilgreinir ekki hver er grunntalan né heldur hvenær ná á markmiðinu, þ.e. á næsta ári eða næstu 10 árum. Betra væri að hafa markmið sem segði að minnka eigi eldsneytisnotkun farartækja um 5% á árinu 2009 samanborði við 2007.

Eru afmörkun og með skilgreinda mæliaðferð
Þegar markmið eru sett er einnig mikilvægt að skilgreina þegar í byrjun hvernig eigi að afmarka og mæla markmiðið. Algeng mistök eru að fyrirtæki skilgreini að það ætli að minnka orkunotkun um X% á ákveðnu tímabili. Sé haldið áfram með dæmið um 5% minnkun eldsneytis á 2 ára tímabili, vaknar spurninginn hvort markmiðin eigi einungis að ná yfir bíla fyrirtækisins eða einnig bíla starfsmanna sem notaðir eru í þágu vinnuveitenda. Þetta þarf að skilgreina áður en markmið eru sett. Það er einnig hægt að mæla hluti á mismunandi máta og það verður að liggja ljóst fyrir þegar í byrjun hvernig á að mæla markmiðið. Séu reglurnar óljósar í byrjun verða reglurnar alltaf óljósar.

Eru raunsæ
Markmið verða að vera raunsæ. Ekki er nokkuð vit í að setja markmið sem þegar er búið að ná eða sem ljóst er að ekki er hægt að ná. Þessi markmið þjóna aldrei hlutverki sínu að vera mælikvarði á starfsemi fyrirtækisins. Þvert á móti sýna þau einungis að fyrirtækið vinnur ekki heils hugar að umhverfismálum.

Taka tillit til ytri áhrif og breytingar í atvinnurekstri
Markmið eiga alltaf að vera sett þannig að það er starfsfólkið sjálft sem nær markmiðunum með athöfnum og gerðum sínum en ekki vegna hagstæðra ytri breyta. Ef markmið er til dæmis að minnka orkunotkun um 5% en samtímis minnkar framleiðslan um 20% þá er ljóst að markmiðið náðist vegna (ó)hagstæðra ytri aðstæðna. Salan minnkaði um 20% og þá er eðlilegt að markmiðið taki tillit til þess. Markmið eru því oft sett í samhengi við aðrar stærðir eins og veltu, sölutölur akstur bifreiða, fjölda starfsmanna osfrv. Frá þessu eru þó nokkur frávik og eru til dæmis fyrirtæki að setja sér markmið um minnkun koltvísýringsmengunar frá bílum óháð akstri eða veltutölum. Fyrirtæki eru ekki endilega að minnka orkunotkun sína heldur eru að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Sjá framhald „Skítur inn, skítur út“.

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is

Birt:
2. desember 2013
Höfundur:
Finnur Sveinsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Einkenni góðra umhverfisviðmiða“, Náttúran.is: 2. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/05/27/umhverfisvimi-og-umhverfisskilyri/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 27. maí 2007
breytt: 14. júní 2014

Skilaboð: