Bláfánaveifa
Bláfáninn (Blue Flag) er umhverfismerki sem úthlutað er þeim smábátahöfnum og baðströndum sem uppfylla ákveðin skilyrði sem miða að því að auka umhverfisgæði og umhverfisvitund gesta staðanna.
Hvalaskoðunaskip og smábátar geta fengið „Bláfánaveifu“ (Blue Flag Pennant) að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Bláfánaveifur eru ekki það sama og eiginlegur Bláfáni. Bláfánaveifur eru merki fyrir þá sem hafa gefið fyrirheit um góða umgengni við hafið.
Landvernd hefur umsjón með Bláfánanum á Íslandi, en verkefnið er hluti af alþjóðlega verkefninu Fee-Foundation for Environmental Education.
Til að hljóta Bláfánaveifu hvalaskoðunarskipa verður skipstjóri viðkomandi skips að skrifa undir yfirlýsingu sem felur í sér eftirfarandi atriði:
- Koma hættulegum úrgangi svo sem olíu, málningu, rafhlöðum og rafgeymum og hættulegum efnum á þar til ætlaðan losunarstaði og fylgja settum reglum um losun á skolpi.
- Nota eftir föngum vörur og hráefni sem hægt er að endurvinna svo sem gler og pappír en forðast að nota einnota áhöld.
- Nota vistvænar og umhverfismerktar vörur til viðhalds ef þær standa til boða, s.s. málningu, botnmálningu, leysiefnum og hreinsiefnum og stuðla að því að þjónustuaðilar geri hið sama.
- Tilkynna yfirvöldum tafarlaust um slys og óhöpp sem hugsanlega kunna að valda umhverfisskaða, virða allar reglur um veiðar og nálgast ekki veiðiskip á mikilli ferð og sýna aðgát og tillitssemi við innsiglingu í hafnir.
- Leggja sig fram um að halda allar reglur um náttúru- og umhverfisvernd, gæta sérstakrar varúðar á viðkvæmum svæðum svo sem varpstöðum fugla og hringingarsvæðum og vera öðrum fyrirmynd og hvatning til öflugri umhverfisverndar.
- Leggja metnað sinn í það að varðveita og viðhalda bátum sem hafa sögulegt og menningarlegt gildi.
- Miða siglingahraða og rekstur véla við hámarksnýtingu á eldsneyti og lágmörkun losunar mengandi efna.
- Veita farþegum haldgóðar upplýsingar um lífríkið í hafinu, fiska og sjófugla, hvalina og mikilvægi þess að vernda hafið fyrir mengun.
- Hafa öryggi og vellíðan farþega ávallt í fyrirrúmi og sjá til þess að þeir hafi aðgang að upplýsingum um Bláfánann.
Birt:
Tilvitnun:
Náttúran „Bláfánaveifa“, Náttúran.is: 3. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/02/blafanaveifa/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. nóvember 2009