Sambúðarslit fela í sér margar „ógrænar“ gjörðir, af þeirri einföldu ástæðu að parið sem deildi hlutum þarf nú að skipta dótinu á milli sín og þá vantar oftast nær eitthvað í skörðin, báðu megin borðsins. Hluti sem þarf að kaupa og það oft með hraði og að óyfirveguðu máli geta verið mikil sóun á náttúruverðmætum, utan þess sem vera þyrfti ef hugsað væri út í hlutina á umhverfismeðvitaðan hátt.

Á vefnum planetgreen.discovery.com, einum fremsta umhverfisvef vestanhafs er fjallað um sex punkta til að „grænka“ aðeins á skilnaðinum. Ráðin hafa verið staðfærð og tengd íslenskum raunveruleika:

  1. Skiptið með ykkur húsgögnum, skrauti og öðru gagnlegu (og ógagnlegu). Vinnið saman að því að skipta hlutunum jafnt frekar en að láta einn aðilann fá allt gamla dótið þannig að hinn þurfi að kaupa allt nýtt. Þannig nýtum við verðmæti betur og minnkum sóun. Ef ykkur tekst að sjá skiptingu muna frekar sem tækifæri til að „losa ykkur við“ gamla lífsmynstrið og gefa færi á fersku nýju lífi, en sorglegan skilnað við veraldlega hluti, verður skilnaðurinn mun auðveldari. Nóg er af tilfinningum til að fást við þó ekki komi til sorg yfir gömlu dóti. Það sem hvorugt ykkar vantar er tilvalið að koma til þurfandi t.d. til Góða hirðisins eða líknarfélaga. Tekið er á móti munum á móttökustöðum Sorpu og á öðrum móttökustöðum um allt land. Sjá Endurvinnslukortið.
  2. Hægt er að finna huggun á mörkuðum og heimagerðum máltíðum. Að elda fyrir einn getur verið mun dýrara því það eru meiri líkur á því að þú kaupir í litlum einingum, sem eru oftast dýrari. Þú getur samt haldið verðinu í lágmarki með því að skipuleggja innkaupin og versla t.d. á bændamörkuðum, eða heimavinnsluaðilum um allt land eða panta á Náttúrumarkaðinum og fá sent beint heim, farið á heilsumatstað eða farið í heilsuvörubúðir og valið lífrænar og góðar vörur, líka í litlu magni. Gott er að hafa í huga að elda almennilegar grunnmáltíðir sem duga langt fram á vikuna. T.d. pottrétti án kjöts, með baunum, hrísgrjónum og grænmeti.
  3. Þú gætir hjólað, farið í strætó eða verið samferða öðrum. Ef þið skiptuð með ykkur einum bíl í sambúðinni og þú ert sá/sú sem situr eftir bíllaus má leysa það á ýmsa vegu. Þó að það sé kannski tímabundið ástand má reyna að sjá bílleysið sem tækifæri til að ferðast um á umhverfisvænni og heilbrigðari hátt. Taktu fram hjólið, hringdu til vinnufélaga og kunningja um að fá að fljóta með eða notaðu samferda.net til að fara lengri ferðir. Nú svo má ekki gleyma því að strætó og rútur voru einu sinni aðalferðamáti fólks og við erum ekkert of góð til að nota almenningssamgöngur. Í strætó stendur tíminn svolítið í stað og tími gefst til að hugsa málin, lesa eða láta sig dreyma!
  4. Að leigja með öðrum. Það getur verið alger bömmer að vera allt í einu ein/einn eða jafnvel „á götunni“. Frekar en að búa einn getur verið gott að leigja með öðrum, þó ekki sé nema tímabundið. Fyrir utan hvað það getur verið miklu skemmtilegra þá sparar þú örugglega bæði peninga og náttúruauðæfi.
  5. Að halda græn teiti og hitta nýtt fólk. Það er mikilvægt að hitta nýtt fólk þegar þú ert aftur óbundin/nn. Þú gætir t.d. boðið heim í „náttúrulegan kost“ t.d. með lífrænum mat og lífrænu víni eða efnt til útiteitis í götunni þinni og fundið mat úr garðinum eða næsta nágrenni sem meginuppistöðu eða meðlæti. Allir geta jafnvel tekið þátt í að finna hvað er ætilegt. Í bók Hildar Hákonardóttur Ætigarðinum má finna ótal upplýsingar um grænt og gott til átu, beint úr garðinum. Næstum allt má borða, þetta gerir okku óháðari grænmetisborðinu í stórmarkaðinum og nú þegar allt iðar af lífi er tilvalið tækifæri til að læra að verða sjálfbær um fæði.
  6. Þú verður örugglega ekki á lausu til eilífðarnóns. Í sambandi eða ekki, umhverfishugsun á alltaf við og sparar þér alltaf aur þegar á heildina er litið. Það er ekkert hallærislegra í dag en sóun verðmæta og algerlega ósexí. Heilsumatstaðir og grænar uppákomur af alls kyns tagi eru í boði um allt land. Kíktu bara á Græna kortið og sjáðu hvað landið okkar hefur upp á rosalega mikið að bjóða!
Birt:
2. maí 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sex leiðir til að skilja á grænum nótum“, Náttúran.is: 2. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2009/06/18/sex-leioir-til-ao-skilja-graenum-notum/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. júní 2009
breytt: 2. maí 2011

Skilaboð: