Um þessar mundir er Landvernd að kynna Bláfánann fyrir rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda og er frestur til að sækja um og/eða endurnýja aðild fyrir árið 2009 til loka febrúar nk. Sjá hér á Græna Íslandskortinu hverjir eru með Bláfánann og Bláfánaveifu og hvar þeir eru á landinu (veljið „Land og lögur/Strendur og smábátahafni“..

Nú líður að því að rekstraraðilar smábátahafna og baðstanda þurfi að hefja undirbúning að árlegri umsókn um Bláfánann en frestur til að sækja um fyrir árið 2009 er til loka febrúar. Undanfarin ár hefur Landvernd, í samstarfi við hagsmunaaðila og –samtök, unnið að því að innleiða verkefnið á Íslandi. Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem Foundation of Environmental Education (FEE) stendur að og veitt er rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda fyrir framúrskarandi vistvæna umgengni við hafið. Verkefnið er helgað menntun til sjálfbærrar þróunar og hefur Bláfáninn mikið gildi fyrir svæði sem leggja áherslu á ferðaþjónustu því þar sem fáninn blaktir við hún geta gestir gengið út frá því sem vísu að meðhöndlun úrgangs, öryggismál, gæði vatns og umhverfisfræðsla sé í góðu lagi.

Yfir 3200 baðstrendur og smábátahafnir í 37 löndum Evrópu, Afríku, Ameríku, Nýja Sjálandi og Karabíska hafinu flagga Bláfánanum. Hér á landi hafa sex staðir hlotið þessa viðurkenningu, þ.e. Arnarstapahöfn, Hafnarhólmi á Borgarfirði eystri, Stykkishólmshöfn, Suðureyri og baðstrendurnar Bláa lónið og Ylströndin í Nauthólsvík.

Landvernd ber fjárhagslega ábyrgð á verkefninu og annast úthlutun og eftirlit með Bláfánanum á Íslandi, ásamt fulltrúum frá Fiskifélagi Íslands, Félagi umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Hafnasambandinu, Umhverfisstofnun, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Siglingasambandi Íslands og Fuglavernd.

Stýrihópur og dómnefnd sem í sitja fulltrúar ofangreindra aðila eru Landvernd til ráðgjafar, afgreiða umsóknir og hafa eftirlit með því að skilyrðum Bláfánans sé fullnægt. Alþjóðlegur stýrihópur hefur eftirlit með störfum dómnefndar og heimsækir reglubundið þá staði sem flagga Bláfánanum.

Umsóknareyðublaðið fyrir smábátahafnir ogbaðstrendur er að finna hér. Umsækjendur geta einnig haft samband við skrifstofu Landverndar og beðið um að fá umsóknareyðublað sent í pósti eða tölvupósti. Starfsmenn Landverndar og stýrihópur Bláfánans munu eftir atvikum veita umsækjendum aðstoð við gerð umsóknar.
Allar frekari upplýsingar veitir skrifstofa Landverndar. Þess má geta að þeir rekstraraðilar smábátahafna sem sýnt geta fram á að uppfylla skilyrði Bláfánans að verulegu, en ekki öllu leyti, og eru tilbúir til að lýsa því yfir að áformað sé að gera frekari úrbætur, eiga þess kost að fá Bláfánaskírteini til vitnis um ágæta stöðu og góðan ásetning.

Sjá vef Landverndar, undirsíðu Bláfánans.
Sjá vef Blue Flag International.

Birt:
18. desember 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tími til að sækja um Bláfánann“, Náttúran.is: 18. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/18/timi-til-ao-saekja-um-blafanann/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. febrúar 2011

Skilaboð: