Í ár eru tíu ár liðin frá því að Landvernd innleiddi Bláfánaverkefnið á Íslandi. Verkefnið felst í því að veita rekstraraðilum smábátahafna og baðstranda viðurkenningu fyrir vistvæna starfshætti og þjónustu sem stuðlar að verndun umhverfisins við sjóinn. Um er að ræða viðurkenningu í formi fána sem ætlað er að vekja verðskuldaða athygli á því að handhafinn uppfylli kröfur Bláfánans og beri þannig hag almennings og umhverfis fyrir brjósti í umgengni sinni við sjóinn. Fyrstu handhafar Bláfánans á Íslandi voru Stykkishólmshöfn og Hafnarhólmahöfn á Borgarfirði eystri , ásamt Bláa lóninu og Ylströndinni í Nauthólsvík. Alls hafa sex rekstraraðilar smábátahafna og baðstranda tekið þátt í verkefninu, auk hvalaskoðunarfyrirtækjanna Eldingar, Norðursiglingar og Sérferða.
Sjá alla aðilana hér á Græna kortinu undir Strendur og smábátahafnir. 
Sjá aðila með Bláfánann hér á Grænum síðum undir Vottun/Bláfáninn og aðila með Bláfánaveifuna undir Vottun/Bláfánaveifa hér.

Verkefnið á rætur að rekja til hóps áhugamanna í Frakklandi sem sá ástæðu til að bæta umgengni sjófarenda, rekstraraðila og baðgesta við sjóinn í byrjun 9. áratugarins. Skömmu síðar tók síðan Foundation for Environmental Education (FEE) þetta góða verkefni upp á arma sína og er nú svo komið að 3650 staðir í 46 löndum flagga fánanum. Þess má geta að FEE rekur einnig Grænfánaverkefnið.

Bláfáninn er útbreiddasta viðurkenning sinnar tegundar í heiminum og Landvernd því mikið í mun að efla verkefnið hér. Umsóknarfrestur fyrir starfsárið 2012 til 25. febrúar nk.

Umsóknir um Bláfánann 2012: 
Umsókn um Bláfánann fyrir smábátahafnir.
Umsókn um Bláfánann fyrir baðstrendur.

Ljósmynd: Bláfáni Ylstrandarinnar í Nauthólsvík árið 2010, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
31. janúar 2012
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Bláfáninn á Íslandi 10 ára í ár“, Náttúran.is: 31. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/31/blafaninn-islandi-10-ara-i-ar/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: