Vettvangsferð í Grunnafjörð – fuglafriðland og vegahugmyndir
Á laugardaginn efna Landvernd, Fuglavernd, Græna netið og Náttúruvaktin til vettvangsferðar í Grunnafjörð – í framhaldi af velheppnaðri ferð þangað í fyrrahaust. Í ferðinni verður athugað ríkulegt fuglalíf og spáð í áhrif hugsanlegra vegaframkvæmda á þetta svæði, sem nýtur alþjóðlegrar verndar sem friðland fugla. Ferðin hefst kl. 10 og er komið aftur í höfuðborgina síðdegis. Leiðsögumaður er Einar Þorleifsson en Mörður Árnason gerir grein fyrir framkvæmdahugmyndum og áhrifum þeirra á fuglalíf og náttúrufar. Farið verður um fjörðinn norðanverðan.
Fuglalíf í Grunnafirði eða Leirárvogi er nú með miklum blóma. Allir farfuglar eru komnir og norðlægir viðkomugestir í hópum á leirunum að fita sig upp áður en þeir halda áfram ferðinni til varpstöðva sinna á Grænlandi og heimskautaeyjum Kanada. Þarna er vænta mikilla hópa af margæs, tildru, rauðbrystingi og sanderlu. Innlendu fuglarnir eru flestir komnir á varplöndin en sumir þeirra halda þó áfram að heimsækja leirurnar í ætisleit, til dæmis stelkur, jaðrakan, lóuþræll og sendlingur. Brandendur, stórir og litskrúðugir andfuglar gætu verið á vappi að sía upp fæðu á leirunum. Brandöndin er ein af nýju fuglategundunum sem að hafa verið að nema land á síðustu árum í kjölfar loftslagsbreytinga með hlýnandi veðurfari og aukinni fuglavernd á meginlandi Evrópu. Þarna eru ernir og fálkar einnig tíðir gestir og nær dagleg sjón.
Við norðanverðan Grunnafjörð er einnig að finna fjölbreyttan gróður og merkilegar jarðfræði minjar frá lokum ísaldar. Þarna eru ernir og fálkar einnig tíðir gestir og nær dagleg sjón.
Undanfarin ár hafa verið uppi hugmyndir, einkum á Akranesi, um vegagerð á svæðinu með brú yfir ós Grunnafjarðar. Vegagerðin hefur enn uppi hugmyndir um að leggja hringveginn yfir Grunnafjarðarós. Í ferðinni verður gerð grein fyrir þessum hugmyndum og áhrifum hugsanlegra framkvæmda á fuglalíf og náttúrufar á svæðinu.
Farið verður frá BSÍ á laugardaginn, 22. maí, kl. 10.00 og er áætlaður komutími til Reykjavíkur aftur milli 16 og 17. Ferðalöngum er ráðlagt að taka með kíki og fuglabók ef til er, vera búnir til göngu í votlendi og taka með sér nesti.
Þátttökugjald er 2500 krónur, skráning í netfanginu sigrun.pals@simnet.is og í síma 866 9376 (Sigrún) fram á föstudag.
Komið með í áhugaverða og skemmtilega vorferð út í náttúruna!
Myndin er fengin úr skýrslu Akranesskaupstaðar um vegtengingu yfir Grunnafjörð. Ljósmynd: Jónas Guðmundsson. Af vef Umhverfisráðuneytisins.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd, Fuglavernd „Vettvangsferð í Grunnafjörð – fuglafriðland og vegahugmyndir“, Náttúran.is: May 19, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/19/vettvangsferd-i-grunnafjord-fuglafridland-og-vegah/ [Skoðað:Sept. 14, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.