Heimildamynd Ómars Ragnarssonar "In memoriam?" um Kárahnjúkavirkjun og svæðið norðan Vatnajökuls verður frumsýnd á Íslandi með íslensku tali næstkomandi fimmtudagskvöld kl. 20:00 í Bíó Paradís.

Myndin er sýnd í tilefni af margföldu tíu ára afmæli.
Hún var gerð fyrir erlendan markað 2003, fyrir réttum 10 árum, og var mun styttri, markvissari og hnitmiðaðri en myndin „Á meðan land byggist“ sem gerð var í byrjun þess árs, áður en Alþingi og borgarstjórn Reykjavíkur samþykktu virkjunina.

"In memoriam" er venjulega grafskrift, sem er til dæmis rituð á legsteina, og nú liggur fyrir að grafskriftin er án spurningamerkis varðandi helstu náttúruperlurnar, sem eyðilagðar voru, nú síðast hið dauða Lagarfljót.
Í myndinni voru nýir kaflar um málið eftir ferðir á virkjanasvæðið sumarið 2003, tvær nýjar ferðir til Noregs og eina aukaferð til Bandaríkjanna.
Íslenska þjóðin hefur til dæmis ekki fyrr átt þess kost að sjá Hálsinn, sem Hálslón er kennt við og hefur verið tortímt.

Myndin var send á tvær kvikmyndahátíðir og hlaut önnur af tveimur aðalverðlaunum alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Canavese á Ítalíu 2004.

Aðgangur ókeypis á frumsýninguna. Sjá Facebooksíðu myndarinnar.

Ljósmynd: Bakkar Hálslóns.

Birt:
22. apríl 2013
Höfundur:
Ómar Ragnarsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ómar Ragnarsson „In memoriam? - Frumsýning“, Náttúran.is: 22. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/22/memoriam-frumsyning/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: