Mánudaginn 18. apríl kl.20:30 mun Ævar Petersen fuglafræðingur halda fræðslufund um lóminn í sal Arion banka Borgartúni 18 sem ber heitið ástand íslenska lómastofnsins.
Rannsóknir hafa verið stundaðar á lómum frá árinu 2006 en fyrir þann tíma hafði þessi tegund vakið litla athygli til rannsókna hér á landi. Upphaflega voru settir ljósritar á lóma en einnig fylgst með ástandi stofnsins og varpárangri. Jafnframt hefur upplýsingum verið safnað um varpstaði lóma í landinu.

Í fyrirlestrinum verður þó mest fjallað um samanburð milli tveggja svæði í landinu, á Mýrum á Vesturlandi og Núpasveit – V-Sléttu á Norðausturlandi, sem staðið hefur yfir frá árinu 2012. Fylgst hefur verið með fjölda óðalsbundinna para, varpárangri, fæðu unga o.fl. Niðurstöður eru m.a. túlkaðar með hliðsjón af umræðunni um loftlagsbreytingar og viðkomubrest hjá sandsílum. Ýmsir aðrir umhverfisþættir hafa áhrif á fjölda, útbreiðslu og varp lóma, t.d. afrán refa, sumarþurrkar og himbrimar.

Fundurinn hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra.
Meðfylgjandi ljósmynd tók Ævar við Nýlenduvatn á Mýrum, Mýrasýslu, 25. maí 2015 en þetta er lómur á hreiðri.


Birt:
14. apríl 2016
Höfundur:
Fuglavernd
Tilvitnun:
Fuglavernd „Ástand íslenska lómastofnsins“, Náttúran.is: 14. apríl 2016 URL: http://nature.is/d/2016/04/14/astand-islenska-lomastofnsins/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: