Jökulsárlón. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landvernd skorar á Alþingi og ríkisstjórn að festa kaup á jörðinni Felli í Suðursveit sem á austurbakka Jökulsárlóns og vernda það ásamt Breiðamerkursandi í heild sinni sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði. Þá skorar Landvernd á stjórnvöld að veita auknu fjármagni í rannsóknir á einstöku lífríki Jökulsárlóns og í náttúruvernd á svæðinu.

Aðalfundur Landverndar árið 2015 ályktaði og skoraði á stjórnvöld að friðlýsa Jökulsárlón og Breiðamerkursand sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði. Vesturbakki Jökulsárlóns er þjóðlenda í eigu ríkisins en austurbakkinn tilheyrir jörðinni Felli í Suðursveit, sem er í eigu yfir 30 aðila. Auglýst hefur verið uppboð á jörðinni í dag, fimmtudag.

Jökulsárlón hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1974. Það er einstakt sökum legu sinnar nálægt sjó og hinna tilkomumiklu ísjaka sem liggja iðulega á lóninu og reka til sjávar við þjóðveginn. Lífríki þess er hins vegar lítið rannsakað, en ólíkt öðrum íslenskum jökullónum er Jökulsárlón kvikt af lífi, enda nálægð við hafið mikil. Þá eru Breiðamerkursandur og Jökulsárlón afar hentugur staður til að rannsaka jökla og jöklasögu.

Enginn landeigenda á Felli byggir afkomu sína á búsetu á jörðinni og engin hefðbundin landnýting er til staðar, enda að mestu sandar og jökulgarðar. Jökulsárlón er hinsvegar einn fjölfarnasti ferðamannastaður á Íslandi og þangað koma yfir 40% þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja landið. Þar er rekin öflug ferðaþjónusta með hinar rómuðu bátasiglingar. Landvernd telur að best færi á því að eignarhald jarðarinnar væri hjá hinu opinbera og tekur þar með undir hugmyndir bæjarstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Ef Jökulsárlón og Breiðamerkursandur væri í eigu þjóðarinnar og hluti af þjóðgarði þá væru komnar forsendur til þess að hafa þar landvörslu á heilsársgrundvelli, vernda og vakta svæðið og jafnframt fræða og mennta gesti um einstaka náttúru og lífríki svæðisins.

Jökulsárlón er í flokknum „Loftslagsbreytt svæði“ á Græna kortinu. Skýring á flokknum er: Svæði sem gefa góð dæmi um fyrirsjáanleg áhrif loftslagbreytinga á alla plánetuna.

Birt:
14. apríl 2016
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vilja Jökulsárlón inn í Vatnajökulsþjóðgarð“, Náttúran.is: 14. apríl 2016 URL: http://nature.is/d/2016/04/14/vilja-jokulsarlon-inn-i-vatnajokulsthjodgard/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: