Endurvinnslu-móttökulúgurnar á Djúpavogi
Djúpavogshreppur sker sig nokkuð úr öðrum sveitarfélögum á mörgum sviðum umhverfismála. Ekki aðeins er Djúpivogur CittaSlow bæjarfélag með skýra umhverfisstefnu heldur fer sorphirða- og flokkun einnig fram með mjög áhugaverðum hætti á Djúpavogi þar sem sveitarfélagið vill byggja upp með hvatakerfi, meðal annars umbuna þeim sérstaklega sem flokka samviskusamlega og skila.
Íbúum í Djúpivogi býðst að fá til sín tunnu fyrir almennt heimilissorp eins og almennt gerist, en íbúum býðst einnig að skila sorphirðutunnu og undirrita samning þess efnis um leið, að þeir sjái sjálfir um að koma almennu heimilissorpi á safnstöðina og greiða þá aðeins sorpurðunargjald en ekkert sorphirðugjald. Með samningi þessum og niðurfellingu sorphirðugjalda skuldbinda íbúar sig sömuleiðis að flokka samviskusamlega.
Með þessu hvatakerfi sem er til þess fallið að virkja íbúana, sparast ekki aðeins fjármunir til þeirra sem taka þátt, heldur verða íbúar meðvitaðari um það magn sorps sem kemur frá heimilinu þar sem þeir taka sjálfir fulla ábyrgð á flokkun og skilum á réttan stað. Smæð Djúpavogs gerir þetta kleift, en vel mætti hugsa sér að útfæra fyrirkomulag þetta í stærri samfélögum, en íbúar á Djúpavogi þurfa ekki að fara um langan veg til að skila af sér heimilissorpi og endurvinnanlegu efni og því gengur þessi leið vel fyrir sig á Djúpavogi.
Drive-In stíllinn á Safnstöð Djúpavogs við Gleðivík er skemmtilega einfaldur en safnstöðin samanstendur af 5 lúgum, sem aðgangur er opinn að allan sólarhringinn. Lúgurnar taka við; áli og járni, hörðu og mjúku plasti, sléttum pappa, blöðum og tímaritum og bylgjupappa.
Að sögn Andrésar Skúlasonar oddvita Djúpavíkurhrepps er reynsla þessa fyrirkomulags gott. Famsýni í umhverfisstjórnun bæjarfélagsins skilar sér á marga vegu út í samfélagið og verður unnið áfram að úrbótum í þessum málaflokki á Djúpavogi m.a. með það fyrir augum að finna varanlega lausn við moltugerð. Við moltugerð eru sömuleiðis til áhugaverðar leiðir til að virkja íbúana til þátttöku og þá geta skapast möguleikar um leið til að koma í veg fyrir hækkanir á urðunargjöldum á komandi árum samfélaginu öllu til hagsbóta. Andrés segir að mikill og hækkandi kostnaður liggi til framtíðar vegna aukinna krafna um frágang og eftirlit vegna urðunarsvæða fyrir úrgang og fjarlægðar í þau svæði og því mikilvægt að gera allt til þess að lágmarka það magn sem fellur til urðunar eins mikið og hægt er og til að það gangi eftir þá þarf meðal annars að virkja íbúana og byggja upp jákvæð hvatakerfi í þessum efnum.
Sjá nánar um Cittaslow og stefnu Djúpavíkurhrepps í umhverfismálum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Endurvinnslu-móttökulúgurnar á Djúpavogi“, Náttúran.is: 4. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/04/endurvinnslu-mottokulugurnar-djupavogi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. janúar 2015