Hver vill stofna íslenskan matarbanka?
Á málþinginu Ekkert til spillis sem Landvernd, Kvenfélagasamband Íslands, Vakandi og Norræna húsið buðu til í Norræna húsinu í tengslum við Nýtniviku Reykjavíkurborgar nú í vikunni var Jesper Ingemann frá fødevareBanken í Kaupmannahöfn einn frummælanda.
Foedvarebanken var stofnaður sem andsvar við samfélagsmeinunum „matarsóun“ og „matarskorti“.
Foedvarebanken hefur verið rekinn af ópólitískum ó-gróða (non-profit) sjálfboðaliðasamtökum síðan 2009, til þess að bjarga mat sem annars væri hent af framleiðendum og stórverslunum og koma til þeirra sem bágstaddir eru eða heimilislausir og þurfa á hjálp að halda. Yfir 100 sjálfboðaliðar aðstoða Foedvarebanken dag hvern. Foedvarebanken eru í stærri samtökum eins og Federation of European Food Banks og Global Food Banking Network en öll þessi samtök vinna gegn matarsóun og sinna samfélagslegri aðstoð við útdeilingu matarins, verðmætanna sem aðrir henda.
Ljóst er að slík samtök þyrfti að stofnsetja hér á landi því jafnvel þó að Fjölskylduhjálpin, Mæðrastyrksnefnd og Samhjálp vinni gott starf til hjálpar fólki í neyð þá byggir það starf á frjálsum matargjöfum frá fyrirtækjum en við vitum að miklu meira er til af mat, mat sem nú er hent en væri hægt að bjarga frá förgun og koma til nauðstaddra.
Næg er þörfin einnig fyrir mat í íslensku samfélagi ójafnréttis og syndsamlega lakra kjara stórs hóps fólks.
Á málþinginu kom fram mikill áhugi á því að taka á vandanum sem matarsóun er og skilgreina vandann, fá fulltrúa frá allri virðiskeðjunni að borðinu, framleiðendur, heildsölur, flutningsfyrirtækin, smásöluverslanir, mötuneyti og veitingahús og finna lausnir sem eru í takt við það mann- og umhverfisvæna samfélag sem við viljum (næstum) öll búa í. Matarsóun er óásættanlegt mein í nútíma samfélögum en um þriðjungur af öllum framleiddum mat í heiminum lendir í ruslinu.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hver vill stofna íslenskan matarbanka?“, Náttúran.is: 27. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/27/hver-vill-stofna-islenskan-matarbanka/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.