Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Sigþrúður Jónsdóttir náttúrufræðingur í Eysta Geldingaholti í Gnúpverjahreppi er í eldlínunni hjá okkur í september. Hún hefur verið ötull baráttumaður fyrir verndun Þjórsárvera.  Í fyrsta viðtalinu við hana sagði hún frá tengslum sínum við Þjórsárver og sögu baráttunnar fyrir verndun þeirra. Síðan sagði hún frá ást sinni á sauðfé og áhuga á beitarmálum allt frá barnæsku,  landbúnaðarnámi í Wales og beitarrannsóknum á Auðkúluheiði. Á tímabili leit út fyrir að sigur væri að vinnast varðandi verndun Þjórsárvera. Björninn var þó ekki unninn og enn þarf að grípa til vopna til að koma í veg fyrir að tekin verði tota af svæðinu og fossunum fallegu í Þjórsá fórnað. Á þessu tímabili hefur svo Kárahnjúkavirkjun verið reist og mikil athygli beinst að þeim framkvæmdum. Aðspurð um Kárahnjúka segist Sigþrúður hafa haft mikinn áhuga fyrir því máli og fylgst vel með en ákveðið að dreifa ekki kröftum sínum um of þar sem það var svo mikið að gera á heimavígstöðvunum. Hlusta á þáttinn.

Útdráttur úr viðtalinu

Þjórsárverum enn ógnað og fallegir fossar í hættu

Þjórsá ógnað frá upptökum til ósa
Séð upp eftir Þjórsá, Minna-Núpsflúðir og Núpsbæjirnir, Núpurinn og Hagafjall. Ef verður af Hvammsvirkjun verður þessi árfarvegur nánast þurr.

Ég legg alla mína orku í að vernda Þjórsárver og Þjórsá segir Sigþrúður, ég kemst ekki yfir meira. Það er svo mikið að gera bæði varðandi verin og svo varðandi virkjanahugmyndir í sveitinni. Þar get ég ekki setið hjá. Þegar Blöndudeilan stóð var talað um að Blönduvirkun yrði til að þyrma Þjórsárverum. Það stóðst ekki og ásóknin í Norðlingaölduveitu og þar með Þjórsáver hefur alltaf komið upp aftur og aftur.

Við í sveitinni heima höfum lagt tölvert til orkuvinnslu í landinu bæði með Búrfelli og Sultartanga. Mér fannst eins og menn bitu á jaxlinn varðandi Sultartangavirkjun og hafi jafnvel talið að þá minnkaði áhuginn á Þjórsárverum og líkurnar á að farið yrði  í Norðlingaölduveitu.

Ég skynjaði það á pabba, hann var ekkert að mótmæla en hann var ekki ánægður. Ég held að hann hafi talið að þessar framkvæmdir minnkuðu líkurnar á að farið yrði innar með ánni en það er bara alltaf haldið áfram. Það fór þó nokkuð af góðu landi undir Sultartangalón, Sultartanginn sem var á milli Þjórsár og Tungnár og mikið gott gróið og fallegt  land í Skúmstungum sem eru á Gnúpverjaafrétti er horfið. Þá var þarna alskonar umstang og stöðvarhúsið sem er í Sandafellinu eða Bláskógum er ekki fallegasta bygging í landinu.

Möstur frá Búrfellslínu 1 skyggja á fjöllin
Mér finnst eins og menn hafi verið sáttir við Búrfellsvirkjun, það var mikið um að vera og mikið af fólki flutti að Búrfelli. Ég man ekki til þessu að þá hafi neinn mótmælt. Hins vegar voru sett 4 möstur af Búrfellslínu 1 inn á landið okkar. Foreldrar mínir voru mjög óhressir og reyndu að mótmæla en það þýddi lítið. Þessi möstur eru þarna enn og skemma verulega útsýnið heima. Eitt mastur skyggir á Heklu og annað á Eyjafjallajökul. Það er hvergi hægt að vera á jörðunni án þess að hafa þessi möstur fyrir augunum. Ég man að þegar ég var lítil  þá var mér  afskaplega illa við línukallana sem voru bara í sinni vinnu. En umgengni var ekki til fyrirmyndar það var keyrt upp brattar brekkur og förin eftir það sáust árum saman. Ég man að ég varð mjög reið þegar ég rakst á klósettpappír úti í móa. Ég var alin upp við að maður henti ekki rusli í náttúruna og það átti ekki að fara illa með land eða ofbeita. Það var verið að hlúa að landinu, bera moð og skít í börð. Það var ósk foreldra minna að skepnum liði vel og það væri farið vel með landið.

Verndun Þjórsárvera var í augsýn.....nýtt útspil eins og þruma úr heiðskýru lofti
Mörk stækkaðs friðlands Þjórsárvera með totuútfærslunni.Varðandi Þjórsárver þá héldum við að sigurinn væri að komast í höfn, fyrir tveimur árum eða svo. Þegar niðurstöður Rammaáætlunar kæmu yrði ekkert eftir nema að skrifa undir friðlýsingarskilmála sem hafði þegar verið saminn af þar til skipaðri nefnd. Úrskurðurinn kom 2013 og Þjórsárver fóru í verndunarflokk. Það átti ekkert að standa í vegi fyrir friðlýsingu og stækkun friðlandsins þannig að hugmyndum um Norðlingaölduveitu yrði ýtt út af borðinu að eilífu.  En það varð aldeilis ekki svo eins og við vitum. Næsta útspil var alveg ótrúlegt og kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það sem nú stendur til að gera er ekki saklaust  það mun hafa veruleg áhrif.

Það er vissulega búið að virkja töluvert að kvíslum Þjórsár en þær eru allar að austanverðu. Landið vestan árinnar er ósnortið þar finnst mér vera varnarlína segir Sigþrúður, við Þjórsá sjálfa. Það er ekkert rask vestan megin, þar taka við mikil víðerni sem ná langt til vesturs. Þar eru aðeins vegslóðar og gamlir kofar. Það er mikilvægt að ekki verði farið yfir Þjórsá eins og áætlað er með totu inn í Þjórsárver, inn í friðlandið alveg upp að Tjarnarveri.

 

Fossarnir Dynkur, Kjálkaversfoss og Gljúfurleitarfoss í hættu
Dynkur í Þjórsá, séður frá vesturbakkanum.Svo er það annað sem er mjög mikilvægt,  það eru fossarnir flottu Dynkur, Kjálkaversfoss og Gljúfurleitarfoss, hver öðrum fallegri og sérstakari. Það er ekki foss nema það renni vatn í árfarveginum.  Við stöllur Björg Eva Erlendsdóttir og ég höfum verið að sýna fólki þessa fossa. Allir sem hafa farið með okkur hafa orðið mjög hrifnir ég heyrii oft “vá”. Það er erfitt að komast að þessum fossun að vestanverðu því það þarf að leggja nokkuð á sig. Við buðum FÍ göngu meðfram fossunum árið 2002 og höfum farið árlega síðan nema einu sinni. Það eru ekki bara fossarnir sem heilla, þetta er mjög falleg gönguleið, farið er um fallegt  landslag og fjölmargir fossar í þverám Þjórsár eru líka skoðaðir. Nafnið fossaganga stendur alveg undir nafni. Flestir sem hafa farið með okkur hafa ekki komið þarna áður og hefur fundist það svo sannarlega þess virði að leggja þetta á sig.                                       

Sigþrúður og Axel maður hennar í Þjórsárverum.

Þetta er núna þriggja daga ferð. Við bættum þriðja deginum við og gengum fyrsta daginn frá Gjánni í Þjórsárdal að Háafossi, síðan er ekið inn á Gnúpverjaafrétt. Með þessu móti verða dagarnir ekki eins langir, annars þarf báða dagana að aka frá eða til Reykjavíkur. Við gistum í Hólaskógi í flottu fjallmannahúsi Gnúpverja og síðan í Glúfurleit sem er inni á hálendinu. Þar er  frumstæðara hús sem tekur 30 manns en samt alveg ágætt. Það hefur alltaf verið ásókn í þessar ferðir, það kom lægð á tímabili en nú hefur áhuginn rokið upp aftur og ferðirnar festst í sessi.

Víða mikil náttúrufegurð við Þjórsá
Aðspurð hvort fossarnir séu fallegri að vestan segir Sigþrúður að vestan megin sé maður nær Dynki þar er vatnsmesti fossinn en Dynkur samanstendur af mörgum fossum. Mörgum sem hafa líka séð hann að austan finnst hann tilkomumeiri vestan frá.  Ég er ekki viss um að auðvelt sé að komast að Gljúfurleitarfossi að austan en hann er mjög fallegur vestanmegin og það er meira að segja náttúrulegur útsýnispallur við fossinn. Kjálkaversfoss hef ég ekki séð að austan, hann er svolítið falinn, það er svo mikið af klettum sem hylja hann, hann fellur í bútum og það er fullt af stórum klettum og tröllskessum við hann. Eftir því sem meira vatn er tekið úr stórfljóti eins og Þjórsá því snubbóttari verða fossarnir. Það er hægt að sjá mun á þeim eftir veðurfari á sumrin.

Þjórsá er enn stórfljót enda lengsta á landsins þó búið sé að taka um 40% vatnsins úr henni. Áin er mjög falleg víða og landið meðfram henni  bæði inni á afrétti og niðri í byggð. Til dæmis þar sem hún rennur um Gnúpverjahrepp, þar er fossinn Búði og Minna-Núpsflúðir sem eru mjög fallegar. Þær eru aðeins steinsnar frá veginum milli Skaftholts og Núpsbæjanna. Það eru ekki margir sem vita af þessari perlu segir Sigþrúður að lokum.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á þáttinn.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Sigþrúður Jónsdóttir III


Birt:
19. september 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigþrúður Jónsdóttir í eldlínunni - 3. þáttur“, Náttúran.is: 19. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/17/med-natturunni-sigthrudur-jonsdottir-i-eldlinunni-/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 17. september 2014
breytt: 3. október 2014

Skilaboð: