Með náttúrunni - Sigþrúður Jónsdóttir í eldlínunni - 2. þáttur
Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!
Sigþrúður Jónsdóttir náttúrufræðingur í Eysta Geldingaholti í Gnúpverjahreppi er í eldlínunni hjá okkur í september. Hún hefur í verið ötull baráttumaður fyrir verndun Þjórsárvera. Í fyrsta viðtalinu við hana segir hún okkur frá tengslum sínum við Þjórsárver og sögu baráttunnar fyrir verndun þeirra. En hver er Sigþrúður Jónsdóttir og hvernig hafa sterk tengsl hennar við náttúruna mótast allt frá því hún var lítið barn. Hlusta á þáttinn.
Útdráttur úr viðtalinu
Landbúnaðarnám í Wales og beitarrannsóknir á Auðkúluheiði
Gibba hafði mótandi áhrif
Ég er alin upp við mikla nátúrurfegurð því út um eldhúsgluggann er einstaklega fögur fjallasýn til austurfjallanna, Heklu, Tindafjallajökuls, Þríhyrnings og Eyjafjallajökuls. Svo er Þjórsárdalur í næsta nágrenni með sínum perlum Háafossi, Hjálparfossi og Gjánni. Þetta eru staðir sem ég heimsótti sem barn. Þangað var stundum skroppið á milli mjalta. Mér finnst jörðin heima líka falleg með holt og hæðir, landslagið er afslappað og fagurt. Sem barn man ég ekki eftir að hafa hugsað mikið um framtíðina, lifði bara í núinu var ekki að velta því fyrir mér hvar ég byggi eða hvað ég ætlaði að verða. Ég taldi að ég myndi alltaf hafa tengingu heim og vera með nokkrar kindur. Ég stefndi ekki að því að verða bóndi en ætlaði um tíma að verða sauðfjárræktarráðunautur.
Valdi Wales vegna fjárbúskapsins
Eftir grunnskóla lá leiðin í MH og svo fór ég einn vetur í líffræði í Hí en svo lá leiðin í landbúnaðarnám í Bangor í Norður Wales. Ég vildi fara í einhverskonar náttúrufræði og Wales varð fyrir valinu þar sem þar var mikið af kindum og þeir framarlega í beitarmálum. Ég hélt reyndar að ég myndi aldrei fara til útlanda þar sem ég taldi að það yrði allt of erfitt að fara svo langt að heiman. Það er mjög fallegt þar sem ég var í Wales, þar eru fjöll og dalir og mikið af litlum þorpum. Bangor er lítill háskólabær á stærð við Akureyri. Það var gott að vera í Wales. Mér var mjög vel tekið, fólkið var mjög gott við mig og ég eignaðist góða vini.
Þegar ég fór til Wales árið 1985 var erfitt að komast þangað. Það var bara hægt að fljúga til London eða Glasgow og síðan tók við sex tíma lestarferð. Nú er flogið til Manchester og þaðan er bara steinsnar til Wales. Það eru samt ótrúlega fáir sem hafa komið til Norður Wales sem er ákaflega fallegt svæði sem á merka sögu og þar er mjög margt að skoða. En þarna er mjög mikill sauðfjárbúskapur og mér var sagt að það væri hvergi jafn margt sauðfé á hektara en í Wales. Ég veit ekki hvort það er satt segir Sigþrúður en það eru allsstaðar kindur. Ég var í alhliða landbúnaðarnámi, lærði um sauðfé, nautgriparækt, svín, akuryrkju og kartöflur en þegar ég gat valdi ég alltaf greinar sem tengdust úthagafræði og samspili gróðurs og grasbíta, það heillaði mig mest
Það er mikil beitarstýring í Wales og mikið af girðingum sem flestar eru hlaðnar úr grjóti. Það er mikið skipulag á öllu og fleiri en eitt sauðfjárkyn. Beitarskipulagið fer eftir því um hvaða kyn er að ræða. Það er beitt bæði á hálendi og láglendi á ákveðnum tímum og féð er flutt milli svæða. Þarna er smalað eins og hér en þetta er þó að mörgu leiti allt öðruvísi kerfi en við þekkjum.
Þarna eru láglendis kindur og hálendis kindur. Fjárkynið frá svæðinu heitir Wales- Mountain og eins og nafnið bendir til eru það kindur sem fara til fjalla en þær bera á láglendi og hafa eitthvert skjól á veturna. Ég fór í sauðburð á háskólabýli, þar var manngert sauðfjárkyn sem hét Cambridge en prófessor í minni deild hafði komið eitthvað að því. Þetta eru mjög frjósamar kindur en mjög slepjulegar og stórar og ósköp aumingjalegar, linar og asnalegar. Það var búið að rækta þær svo mikið til að ná upp frjóseminni. Nei ég heillaðist ekki af þeim segir Sigþrúður og bætir við svo eru allar kindur þarna með hala og minna þannig á hunda en ekki með dindil eins og okkar kindur.
Fé á ekki að vera á auðnum landsins
Við verðum að horfast í augu við að beit hefur áhrif. Þó mér þyki manna vænst um sauðkindina þá vil ég líka að beitinni sé stjórnað, það er mjög miklvægt. Við verðum að hefta frelsi þessarar ágætu skepnu, hún hefur ekkert vit til að sjá hvað er best fyrir framtíðina frekar en margir aðrir.
Ég vil ekki að fé gangi í Þjórsárverum. Það er mjög mikilvægt að eiga slíkt svæði sem er ósnortið af búfjárbeit. Landið þar hefur lengi verið blómum skrýtt og þar eru góðar og eftirsóttar beitarplöntur eins og blágresi, hvönn og burnirót sem er í stórum breiðum. Féð hætti að fara þangað þegar það fækkaði á afréttinum og ég vil ekki að það fari þangað aftur. Ég veit ekki hvenær þar var fé síðast en þegar ég fór fyrst í Þjórsárver fyrir 30 árum þá voru þar um 30 kindur. Ég vona að þær finni þetta svæði ekki aftur og það fái að vera í friði. Þjórsárver eru svo dýrmæt og viðkvæmt. landsins
Beitarrannsóknir á Auðkúluheiði
Það land sem fór undir lónið á Auðkúluheiði var vel gróið. Þetta var mjög sterkt land þar sem farið höfðu fram beitartilraunir í áraraðir eða frá 1975 til 1989. Í þessum tilraunum voru könnuð áhrif mismunandi beitarþunga annars vegar á fé og hinsvegar á gróðurinn.
Þarna var búið að safna mjög miklum upplýsingum um beit á hálendinu þegar öllu þessu landi var sökkt undir Blöndulón. Margt var gert upp og gefið út en þó ekki allt. Fyrir utan fórnina að sökkva öllu þessu gróna landi á Auðkúluheiði þá var mikill missir af þessum hólfum, gríðarlegt tjón því þau hefðu getað gefið svör við ýmsu þegar fram liðu stundir. Hversu lengi hefði ofbeitta hólfið verið að jafna sig ef það hefði nokkru sinni gert það og hvernig gróður hefði þá komið upp. Vísindalega var þetta gríðarleg sóun.
Síðan þá hafa engar slíkar rannsóknir verið gerðar. Upphafið var Þjóðargjöfin 1974, í kjölfarið voru sett upp beitahólf víða um landið og mikið fé lagt í rannsóknirnar. Síðan fækkaði stöðunum með árunum og að lokum voru bara tveir staðir eftir, Auðkúluheiði og Hestur í Borgarfirði. Það voru líka uppskerumælingar í Sölvholti í Flóa. Nú finnst mér áhugi á svona rannsóknum vera að aukast. Það vantar meiri þekkingu á þessu sviði.
Gibba og beitarráðgjöf
Sigþrúður hefur unnið hjá Landgræðslunni frá 1994 svo það má segja að heimalningurinn Gibba hafi haft mikil áhrif á framtíðarstarfið. Reyndar átti Sigþrúður fleiri heimalninga en hana. Hún segir að allir þeir sem eigi dýr geri sér grein fyrir að hver einasta skepna er einstök og öðruvísi en sú næsta af sama kyni, hver hefur sinn persónuleika. Sigþrúður flutti heim í sveitina sína árið 1991 vegna þess að maðurinn fékk vinnu þar. Þá var hún að skrifa mastersverkefni og trúði því að hún fengi síðan eitthvað að gera á svæðinu. Það varð raunin því Landgræðslan er með höfuðstöðvar á Suðurlandi, í Gunnarsholti á Rangárvöllum.
Steinunn Harðardóttir.
Tengdar hjóðupptökur:
Sigþrúður Jónsdóttir IIBirt:
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigþrúður Jónsdóttir í eldlínunni - 2. þáttur“, Náttúran.is: 12. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/02/med-natturunni-sigthrudur-jonsdottir-i-eldlinunni-/ [Skoðað:6. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. september 2014
breytt: 3. október 2014