Með náttúrunni - Mummi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson í eldlínunni - 3. þáttur
Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!
Í síðustu og þarsíðustu viku sagði Mummi eða Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar okkur frá ýmsum mikilvægum verkefnum félagsins og aukið álag á náttúruna vegna gríðarlega aukins straums ferðamanna til landsins. Nú er viðfangsefnið eitt af stærstu baráttumálum Landverndar sem er verndun hálendisins en þar eru uppi miklar virkjanahugmyndir segir Mummu. Virkjanlegt vatnsafl á landinu í dag miðað við nýtingarflokk er ekki nema um 1000 MW og það þarf að fara víða til að ná þeim saman. Hlusta á þáttinn.
Útdráttur úr viðtalinu:
Miðhálendi á að nýta á annan hátt en til orkuframleiðslu
Miðað við rammaáætlun þá eru aðeins um 1000 MW í nýtingarflokki. Til samanburðar er Kárahnjúkar 690 MW, Búrfell 280 og Hellisheiði um 300 MW. Þegar þriðji áfangi rammáætlunar fór af stað settu orkufyrirtækin fram óskir varðandi þriðja áfanga. Eins og vænta mátti báðu þau um að virkjunarhugmyndir í biðflokki yrðu settar í nýtingarflokk. En það kom á óvart að óskað var eftir að svæði í verndunarflokki yrðu einnig flutt í nýtingarflokk. Þar á meðal Norðlingaölduveita og fleiri staðir á hálendinu. Í desember 2013 fóru orkufyrirtækin fram á að gerðar yrðu 15 nýjar virkjanir á hálendinu. Virkjunum fylgir auk stíflna og uppistöðulóna, vegagerð og háspennulínur svo sem Sprengisandslína sem Landsnet hefur fullan hug á að ráðast í á næstu árum.
Þó ekki sé mikil orka í pottinum þá dreifist hún víða og áhrifin verða því meiri. Þessir 15 staðir eru dreifðir um allt hálendið svo útkoman yrði allt annað og minna hálendi en það sem við þekkjum í dag. Það er því mikilvægt að spyrna við fótum og koma í veg fyrir að virkjanirnar verði að veruleika. Mummi segir mikilvægast sé að vernda miðhálendi Íslands, það er staður segir hann sem við eigum að nýta með öðrum hætti en til orkuframleiðslu.
Það skiptir máli að vita af ósnortinni náttúru
Hann telur að fara þurfi varlega í alla jarðvarmanýtingu þar til meira er vitað um áhrif jarðvarmavirkjanna á heilsu fóks og tæringu málma. Það er ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum og orkufyrirtækjum að halda áfram á þessum hraða á meðan þekkingin er ekki næg og óvissa er um hversu alvarleg áhrif brennisteinsvetni hefur á fólk. Við höfum ekkert efni á að leika okkur með heilsu fólks eða náttúru landsins sem er okkar helsta auðlind bæði þegar horft er til náttúrufegurðar og ímyndar þess efnis að við búum á landi sem býr yfir miklum náttúruauðlindum og hreinni náttúru. Við erum ekki enn búin að temja okkur aðferðir sem stundaðar eru í Bandaríkjunum til að meta verðmæti svæða. Þá er það metið hve miklu máli það skiptir fólk að vita af því að það eigi ósnortna nátturu sem það veit að það getur heimsótt, hvort sem það gerir það eða ekki. Það væri æskilegt að við nýttum meira rannsóknir á þessu sviði í náttúruvernd. Til dæmis að kanna hug fólks til svæða sem búið er að merkja til orkunýtingar eða eru í biðflokki og einnig má spyrja hvaða mælanlegu verðmæti eru fólgin í svæðunum önnur en virkjanir.
Kárahnjúkavirkjun brýtur upp stóra lítt snortna náttúruheild
Í dag heimsækja margir Kárahnjúka og Mummi skilur vel að fólk fari þangað til að skoða framkvæmdirnar. Hann vann á svæðinu sem landvörður í 3 ár og þá komu margir til að skoða staðinn sem svo mikil úlfúð hafði staðið um. Aðgengi er mikið betri nú en áður þegar ekki var neinn uppbyggður vegur og yfir margar stórár að fara. En fólk er ekki að skoða sama svæðið, þetta er gjörbreytt land. Framkvæmdin brýtur upp stóra lítt snortna landslagsheild bæði með lónunum sem þarna eru og stífluframkvæmdunum, þetta eru mikil inngrip í náttúruna. Vissulega komast fleiri inn á svæðið en það er bara gjörbreytt. Fólk hefur alltaf geta komið og skoðað Hafrahvammagljúfur en það var mikið erfiðara og seinlegra en í dag.
Þurfum ekki að komast um allt
En málið snýst ekki um það hvort hægt sé að veita öllum aðgengi að öllum stöðum á landinu heldur að til séu ósnortin svæði. Í því felast verðmæti, að það séu til svæði sem eru tiltölulega ósnortin vermæti eru eigingildi náttúrunnar, að hún fái að þróast nokkurn vegin eftir eigin lögmálum án inngripa mannsins. Heimspekilega er mikilvægt fyrir hverja þjóð að eiga eitthvert slíkt stolt. Það að maðurinn geti ekki komist út um allt og inn um allt er ekki það versta segir Mummi. Hann leiðsagði einu sinni á skemmtiferðaskipi frá Skotlandi til Grænlands. Í ferðinni átti að fara í gegnum Kristjanssund en vegna ísjaka var hætt við það. Vegna þess varð mikill pirringur meðal farþeganna og ég var líka svekktur vegna þessa segir hann. Á kvöldin voru yfirleitt samverustundir meðal starfsfólks og gesta þar sem farið var yfir það markverðasta á hverjum degi. Þetta kvöld ákvað ég að taka ekki þátt í umræðunni en síðasta kvöldið þar sem rætt var um það sem hefði borið hæst í ferðinni sagði ég að það að hafa ekki getað komist í gegnum sundið hafi vakið mig til umhugsunnar um það að mér sem manninum séu ekki allar leiðir færar og að það sé ágætt að vera minntur á það öðru hvoru. Þetta hreyfði við sumum sem sáu þennan atburð þá í nýju ljósi.
Steinunn Harðardóttir.
Tengdar hjóðupptökur:
Mummi hjá Landvernd IIIBirt:
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Mummi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson í eldlínunni - 3. þáttur“, Náttúran.is: 22. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/21/med-natturunni-mummi-gudmundur-ingi-gudbrandsson-i/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. ágúst 2014
breytt: 3. október 2014