Domenique Pledel JónssonDominique Plédel Jónsson flutti eftirfarandi erindi á Ólafsdalshátiðinni í ár:

Góðir gestir.

Ég kynntist Ólafsdal í Möðrudal. Já, þetta hljómar sérkennilega, en tengingin er þó ekki svo fjarstæðukennd. Húsfreyjan unga í Möðrudal var að lesa bókina „Sigríður stórráða“ eftir Játvarð Jökul Júlíusson og Sigríður var jú frá Skáleyjum á Breiðafirði. Jón Sigurðsson hafði sent hana til Danmerkur í kringum 1860 til að læra að meðhöndla mjólk og taka þá þekkingu með sér heim að námi loknu. Sem hún og gerði og var hún svo lengi bústýra – og jafnvel meira – í Möðrudal. Þetta leiddi mig til að lesa bók Játvarðs um Torfa Bjarnason og vakti forvitni mína, ég hafði þarna opnað kistu sem mig langaði ekki að loka aftur.

Mikið var hún merkileg, starfsemin sem fór fram í þessum fyrsta skóla fyrir bændur á Íslandi. Það hefur þurft hugsjón, seiglu, trú og langtímasýn til að byggja upp þetta litla samfélag sem var algjörlega sjálfbært. Þessi sjálfbærni kom ekki til vegna þess að það þyrfti að slá skjaldborg um heimaframleiðslu – hún var til vegna þess að það bauðst engin önnur leið – og það sem gert var, var þó betra en það sem þekktist víðast hvar annars staðar. Það er ekki víst að allir geri sér alveg grein fyrir því hvað er átt með sjálfbærni.

Ég var á fundi fyrir stuttu þar sem talað var um að vistræktun – hvað sem það nú er – væri sjálfbær en lífræn ræktun hins vegar ekki, og annar fundargestur lýsti sjálfbærni sem „nostalgí“ eða eftirsjá eftir fyrri tímum. Ef dæma má út frá þessum athugasemdum eigum við langt í land í að verða sjálfbær. Einfaldast er að segja að sjálfbærni sé hringrás, við gefum jörðinni tilbaka í jafn miklum mæli og hún gaf okkur. Það er ekkert nostalgískt við það. Menn voru áður fyrr í nánari tengslum við móður jörð, þekktu hana betur og virtu hana því þeir vissu af aldalangri reynslu að án þessara tengsla væri ekki hægt að tóra í þessu landi þar sem jafnvægið sem tryggði lífsskilyrði var alltaf brothætt.

Hér í Ólafsdal var frumkvöðlastarfsemi í túnrækt og vatnsveitu, hér var framleitt skyr, hér voru framleiddir ostar, meira að segja Roquefort-ostur. Hér var ræktað lífrænt því að tilbúinn áburður var ekki kominn til sögunnar, þetta var hefðbundinn landbúnaður. Mjólkin var ekki gerilsneydd því að það þekktist ekki, hún hefur í besta falli verið soðin eftir þörfum en aðallega var hún unnin með öðrum hætti. Lítið var aðkeypt og námið fyrir stúlkurnar var líka frumkvöðlastarf og hefur skipt sköpum fyrir þær. Þetta þarf ekki að vera nein glansmynd, baráttan var hörð og náttúruöflin ekki blíð. Barnadauði var mikill, menn fórust í sjóslysum, heilu áhafnir stundum og heilu fjölskyldurnar. – Þið þurfið ekki Frakka, fæddan í París, til að rifja þetta upp, en þið vitið, það er kannski þetta með gestsaugað. – En maðurinn hafði betur. Það var ekki tekið meira af náttúrunni en þurfti, engu var hent. Í Ólafsdal var markmiðið að gera betur svo að bændur gætu haft það aðeins betra. Örlítið betra.

Bændaskólinn í Ólafsdal myndi aldrei fá starfsleyfi í dag.

Það væri ekki leyfilegt að framleiða skyr úr mjólk af eigin búi, það þyrfti helst annaðhvort að kaupa mjólkina af Mjólkursamsölunni eða uppfylla sömu kröfur og eru gerðar til stærsta framleiðandans. Það er ekki leyfilegt að framleiða ost úr ógerilsneyddri mjólk – þótt síðasta tilfelli af berklum sem hugsanlega má rekja til mjólkur hafi verið skráð 1958 og hverjum öðrum en útlenskum vinnumanni skyldi hafa verið kennt um?!!

Það þarf að greiða stórar fjárhæðir í dag til að fá vottaða ræktun sem var svo sjálfsögð fyrir 100 árum síðan að hún var ekki einu sinni kölluð lífræn – og á meðan er verið að tæma birgðir heims af þeim efnum sem þykja ómissandi við svokallaða hefðbundna ræktun. Í dag erum við hrædd við að borða mat, við borðum aðallega næringarefni. Í dag viljum við fá allt og það strax, án þess að hugleiða afleiðingarnar af þessum kröfum. Við viljum breyta kúakyni sem hefur dugað í meira en 1000 ár því við þurfum að framleiða meira kjöt. Núna! Meiri mjólk! Núna! Ísland gæti verið fyrirmynd að því að vera sjálfbært samfélag sem ber virðingu fyrir móður Jörð og börnum hennar, Ísland gæti auðveldlega sýnt fram á að það þurfi ekki alltaf að biðja um meira og það strax, að það sé auðvelt að vera nægjusamur. Að það þurfi ekki að byggja samfélag á neyslunni einni.

Íslandsstofa bað okkur landsmenn í fyrra um að tilnefna staði sem átti að safna undir heitinu „My secret Iceland“ til að reyna að dreifa ferðamannastraumnum um allt land. Ég tilnefndi Ólafsdal, ég veit að vísu ekki hvort tillaga mín var notuð, en ég vildi með þessu deila með sem flestum því ótrúlega starfi sem hér átti sér stað fyrir meira en 100 árum en líka því starfi sem hér fer fram núna til að bjarga því sem eftir er og þar með bjarga sögu staðarins. Það er nefnilega hér á þessum stað sem einstakt tækifæri gefst til að skilja hvað átt er við þegar talað er um sjálfbærni, þegar talað er um lífræna ræktun. Þá. Og nú.

Gleðileg Ólafsdalshátíð!

Birt:
16. ágúst 2014
Tilvitnun:
Domenique Plédel Jónsson „Hugleiðingar á Ólafsdalshátíð 2014, um sjálfbærni þá og nú“, Náttúran.is: 16. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/16/hugleidingar-olafsdalshatid-2014-um-sjalfbaerni-th/ [Skoðað:30. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: