Við afhendingu Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti, en þau hlaut Vigdís Finnbogadóttir og Fjölmiðlaverðlaunanna, en þau hlaut Páll Steingrímsson.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til tvennra verðlauna sem afhent verða á Degi íslenskrar náttúru, 16. september næstkomandi. Annars vegar er um að ræða Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda til framtíðar.

Verðlaunin verða veitt fjölmiðli, ritstjórn, blaða- eða fréttamanni, dagskrárgerðarfólki eða ljósmyndara sem hafa skarað fram úr með umfjöllun sinni um íslenska náttúru. Til greina koma einstök verkefni eða heildarumfjöllun um íslenska náttúru.

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti
Þá verður Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar. Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði mikið á sig í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.

Óskað er eftir tilnefningum til beggja viðurkenninga fyrir 18. ágúst 2014. Tilnefningar með rökstuðningi sendist umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eða á netfangið postur@uar.is.

Ljósmynd: Við afhendingu Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti, en þau hlaut Vigdís Finnbogadóttir og Fjölmiðlaverðlaunanna, en þau hlaut Páll Steingrímsson árið 2013. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra afhenti verðlaunin við athöfn í Elliðavatnsbænum.

Sjá þá sem hlotið hafa Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti frá upphafi hér á Grænum síðum: http://natturan.is/gm/gs/842/

Sjá þá sem hlotið hafa Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá upphafi hér á Grænum síðum: http://natturan.is/gm/gs/1009/


Birt:
17. júlí 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Óskað eftir tilnefningum til verðlauna á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 17. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/17/oskad-eftir-tilnefningum-til-verdlauna-degi-islens/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: