Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun
Ágústa Helgadóttir líffræðingur flytur erindið Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun á Hrafnaþingi miðvikudaginn 9. apríl, 2014 kl. 15:15.. Meðhöfundar eru Ásta Eyþórsdóttir og Sigurður H. Magnússon Náttúrufræðistofnun Íslands.
Eftir að jarðvarmavirkjanir á Nesjavöllum og við Hellisheiði tóku til starfa varð vart við nokkrar gróðurskemmdir í nágrenni þeirra. Að ósk Orkuveitu Reykjavíkur hóf Náttúrufræðistofnun Íslands sumarið 2012 vöktun á gróðri í nágrenni beggja virkjananna. Tilgangur vöktunarinnar er að kanna áhrif virkjananna á gróður í mosaþembum og rannsaka breytingar með tíma.
Til þess að meta ástand og mismunandi skemmdir á mosa var sýnum safnað af mosanum hraungambra (Racomitrium lanuginosum) í nágrenni virkjananna og þau skoðuð á rannsóknarstofu. Í kjölfarið var útbúinn sérstakur lykill til greiningar á öllum helstu útlitseinkennum mosans, bæði heilbrigðum og skemmdum, alls 10 flokkar. Tíðni háplantna, fléttna, mosa og mismunandi mosaflokka var metin í samtals 30 vöktunarreitum sem staðsettir voru í mismunandi stefnu og fjarlægð frá báðum jarðvarmavirkjununum.
Skemmdir á mosa voru mjög misjafnar eftir stöðum, þó mun meiri við Nesjavallavirkjun en Hellisheiðarvirkjun. Þær eru að hluta raktar til mengunar frá virkjununum. Ekki kom fram neitt ákveðið mynstur eftir fjarlægð eða stefnu. Mestu skemmdirnar voru bundnar við einstaka reiti sem voru ýmist næst virkjununum eða í 4 km fjarlægð.
Í erindinu verður fjallað nánar um verkefnið m.a. ræddar tilgátur og spár um þróun skemmda í mosaþembum við virkjanirnar.
Ljósmynd: Mosagróður á heiði, Guðrún Tryggvadóttir.
-
Vöktun mosaþembugróðurs
- Location
- None Urriðaholtsstræti 6
- Start
- Wednesday 09. April 2014 15:15
- End
- Wednesday 09. April 2014 16:15
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun“, Náttúran.is: April 8, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/08/voktun-mosathembugrodurs-vid-hellisheidarvirkjun-o/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.