Aðalfundur Landverndar kallar eftir auknu samstarfi eða sameiningu náttúruverndarfélaga
Fjölmennt var á aðalfundi Landverndar laugardaginn 5. apríl sl. og var mikill baráttuandi í fundarmönnum.
Fundurinn ályktaði um fjögur mál: gjaldtöku af ferðamönnum (náttúrupassa), loftslagsmál, áskorun á verkefnisstjórn rammaáætlunar um að taka ekki fyrir svæði í núverandi verndarflokki í nýrri rammaáætlun, og um aukið, marvisst samstarf og mögulega sameiningu frjálsra félagasamtaka á sviði náttúru- og umhverfisverndar.
Fram kom á fundinum að fjöldi félagsmanna í Landvernd hefur fimmfaldast á síðustu tveimur árum. Nýr samningur við umhverfis- og menntamálaráðuneyti um rekstur grænfánaverkefnisins var endurnýjaður til þriggja ára á starfsárinu og fjöldi þátttakenda í bláfánaverkefni samtakanna tvöfaldaðist. Þá var þremur nýjum langtímaverkefnum hleypt af stokkunum á síðasta starfsári sem verið hafa í undirbúningi síðan 2012: loftslagsverkefni með sveitarfélögum, landgræðsluverkefni með skólum á Suðurlandi og verkefninu Hálendið – hjarta landsins sem fjögur stór útivistarsamtök hafa gengið til liðs við. Markmið verkefnisins er að vernda hálendi Íslands gegn stórframkvæmdum á borð við virkjanir og tilheyrandi háspennulínur og uppbyggða vegi. Landvernd lét einnig vinna fyrir sig á árinu óháða úttekt á kostnaðarmuni jarðstrengja og loftlína á háum spennustigum sem leiddi í ljós að mun minni munur reynist almennt á kostnaði en Landsneti hefur reiknast til.
Gunnsteinn Ólafsson flutti erindi á fundinum um reynslu sína af baráttunni um Gálgahraun. Gunnsteinn sagði að náttúruverndarhreyfingin þyrfti að huga vandlega að réttindum sínum þegar kemur að málsmeðferð kæru- og dómsmála því þegar á reyni þá hafi dómstólar vísað málum tengdum Gálgahrauni frá á grundvelli þess að náttúruverndarfélög hafi ekki hagsmuni að verja – náttúran á sér sem sagt ekki málsvara fyrir dómstólum. Gunnsteinn hvatti til þess að náttúruverndarsamtök kæmu að málum mun fyrr í undirbúningsferli þeirra, þannig að þau gætu haft áhrif á endanlega niðurstöður mála svo síður þyrfti að koma til átaka eins og þeirra sem átt hafa sér stað um Gálgahraun.
Ályktanir fundarins eru eftirfarandi:
Aukið samstarf eða sameining náttúruverndarsamtaka
Aðalfundur Landverndar samþykkti ályktun Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur fyrrverandi formanns Landverndar um að fela stjórn samtakanna að óska eftir viðræðum við stjórnir annarra náttúruverndarfélaga, s.s. Náttúruverndarsamtaka Íslands og Framtíðarlandsins, um markvisst samstarf eða sameiningu samtakanna. Markmið þessa væri að styrkja náttúruverndarstarf í landinu. Fram kom í greinargerð ályktunarinnar að mikil átök væru framundan í náttúruverndarbaráttunni, m.a. í tengslum við rammaáætlun, landsskipulagsáætlun, stækkun raforkuflutningskerfisins og náttúruverndarlög. Markvisst samstarf eða sameining myndi leiða til hagræðingar og aukins samtakamáttar sem gæti skilað sterkara náttúruverndarstarfi.
Verkefnisstjórn rammaáætlunar hvött til að endurmeta ekki svæði í verndarflokki
Aðalfundur Landverndar hvetur verkefnisstjórn rammaáætlunar til að taka svæði í núverandi verndarflokki ekki til endurskoðunar í þriðja áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Aðalfundurinn mótmælir jafnframt harðlega öllum tilraunum orkufyrirtækja og opinberra stofnana, þ.m.t. Orkustofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, til að fá verkefnisstjórnina til að taka upp svæði í verndarflokki og meta á nýjan leik í þriðja áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Með framferði sínu hafa þessir aðilar að engu áralangar tilraunir til að eyða óvissu um afdrif fjölmargra náttúruperlna og sátt um vernd þeirra gegn orkunýtingu.
Gjaldtaka af ferðamönnum og uppbygging innviða
Aðalfundur Landverndar hvetur iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að láta útfæra fleiri tillögur að gjaldtöku af ferðamönnum til uppbyggingar ferðamannastaða en s.k. náttúrupassa, þar á meðal hóflegt komu- eða brottfarargjald sem einungis yrði rukkað af einum farmiða á ári og breytingar á gistináttagjaldi sem einnig næði til skemmtiferðaskipa. Aðalfundurinn ítrekar mikilvægi þess að gjaldtökuleiðir gangi ekki í berhögg við hinn forna almannarétt um frjálsa för fólks og dvöl á óræktuðu landi. Náttúrupassi stangast á við almannarétt, kallar á umfangsmikla uppbyggingu markaðs-, sölu- og eftirlitskerfis og gæti leitt til neikvæðra breytinga á viðhorfum fólks og umgengni við náttúruna og ferðaþjónustuna. Þá varar aðalfundurinn sérstaklega við hugmyndum um að girða af einstaka ferðamannastaði og náttúruperlur í þeim tilgangi að taka gjald af svæðunum og hefta þannig för almennings. Aðalfundurinn harmar að slík gjaldtaka sé þegar hafin á vinsælum ferðamannastöðum á Íslandi.
Stjórnvöld hvött til að láta af orðræðu um gróða Íslendinga af loftslagsbreytingum
Aðalfundur Landverndar samþykkti ályktun Sveins Atla Gunnarssonar um að hvetja ríkisstjórn Íslands til að taka skilvirkan þátt í lausn á loftslagsvandanum með m.a. umræðu og fræðslu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, og virkri þátttöku á alþjóðavettvangi. Í greinargerð með ályktuninni er hvatt til þess að komist verði út úr þeirri grunnhyggnu orðræðu að Íslendinga bíði mikil tækifæri við hlýnun jarðar og að þess í stað þurfi Ísland að vera á meðal þeirra þjóða sem vinna að lausnum til framtíðar. Þær felist ekki í óskhyggju og olíuvinnslu, heldur áræðni og þori til að takast á við vandann.
Stjórn Landverndar
Þrír nýir stjórnarmenn voru kosnir á fundinum, þau Andri Snær Magnason rithöfundur, Margrét Auðunsdóttir framhaldsskólakennari og Pétur Óskarsson rekstrarhagfræðingur. Í stjórn Landverndar sitja nú:
- Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður. Nánari upplýsingar hér.
- Andri Snær Magnason, rithöfundur.
- Anna Gunnhildur Sverrisdóttir, ferðamálaráðgjafi.
- Einar Bergmundur Arnbjörnsson, forritari.
- Fríða Björg Eðvarðsdóttir, landslagsarkitekt.
- Guðmundur Björnsson.
- Helena Óladóttir, verkefnisstjóri.
- Jóna Fanney Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri.
- Margrét Auðunsdóttir, framhaldsskólakennari.
- Pétur Óskarsson rekstrarhagfræðingur.
Ljósmyndir: Frá aðalfundinum, ljósm. Landvernd.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Aðalfundur Landverndar kallar eftir auknu samstarfi eða sameiningu náttúruverndarfélaga“, Náttúran.is: 7. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/07/adalfundur-landverndar-kallar-eftir-auknu-samstarf/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.