Seint haustið 2012 hvarf lífræna mjólkin úr hillum verslana. Skoðun leiddi í ljós að af fjórum bændum sem sendu á markað lifrænt vottaða mjólk, hafði einn misst vottunina. Þar af leiðandi var forgangsmál að afgreiða mjólkina til Bióbús sem hefur verið með framleiðslu á mjólkurvörum, þannig að rekstur fyrirtækisins væri tryggður. Sá bóndi sem missti vottunina ákvað svo af persónulegum ástæðum að hætta mjólkurframleiðslu. Nú er viðvarandi skortur á lifrænni mjólk og hún ófáanleg.  

Eins og Ólafur Dýrmundsson  ráðunautur há Bændasamtökunum tók fram í grein sem birtist í Bændablaðinu þ. 9. janúar sl. er  stöðugur markaður fyrir þessa mjólk, líklega álíka stór og markaðurinn fyrir laktósfría mjólk og kaupendur eru fleiri en eingöngu neytendur sem kjósa lífrænt af hugsjón. Hvatt er til aukinnar mjólkurframleiðslu um þessar mundir til að geta aukið útflutning á skyri til Bandaríkjanna, framleitt sérmjólkurvörur (eins og laktósfría mjólk), og  smjör fyrir neytendur sem hafa aðhyllst lágkolvetnamegrunarkúr. Ekki heyrist stakt orð frá mjólkurframleiðendum til að hvetja til framleiðslu á lífrænni mjólk.

Margir  neytendur á Íslandi hafa kosið lífrænar afurðir í kjölfar hneyksla um framleiðslu matvæla, eða af hugsjón og virðingu fyrir umhverfinu, og heilsu og velferð dýra og manna. Þetta er langt frá því að vera fyrirbæri einangrað við Ísland og í löndum Evrópu sem og í Bandaríkjunum og Kanada, er neysla lífrænna afurða að stóraukast. Hér heima gildir það sama en hingað til hafa einungis framleiðendur erlendis notið góðs af. Framleiðslan á Íslandi, sem væri auðveldast að breyta í lífræna framleiðslu, breytist ekkert. Fámennur hópur kennara við LBHÍ hafa haft í frammi háværan áróður á móti lífrænni ræktun en eins og í mörgu hafa neytendur ekki fylgt þeim að máli - en afleiðingin er að ekki eru kenndar lífrænar ræktunaraðferðir nema í ylrækt og aðlögunarsjóðurinn, sem átti að nota til að hvetja bændur í að taka þær aðferðir upp, er tómur.

Eru lífrænir neytendur (ef svo má að orði komast) annars eða þriðja flokks neytendur? Þarf virkilega að flytja inn lífræna mjólk til að þjóna þeim  hluta markaðarins? Við viljum það síður.

Slow Food í Reykjavík og Samtök lífrænna neytenda senda hér með áskorun til íslenskra bænda um að skoða alvarlega að taka upp lífrænar ræktunaraðferðir til að þjóna þessum markaði, þar sem fólk er tilbúið að borga meira fyrir lífræna framleiðslu. Hvort sem sem um er að ræða mjólk, kjúklinga eða svín. En byrjum kannski á mjólkinni.

Dominique Plédel Jónsson
, formaður Slow Food í Reykjavík
Meðlimur í framkvæmdanefnd Samtaka lífrænna neytenda

Birt:
24. mars 2014
Tilvitnun:
Dominique Plédel Jónsson „Ákall til bænda!“, Náttúran.is: 24. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/24/akall-til-baenda/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: