Endurvinnsla stuðlar að því að efni í umferð komist aftur í hringrásina og minnki þannig álag á auðlindir. Við neytendur verðum að gera okkur grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að versla vörur, bæði vegna innihaldsins og vegna umbúðanna.

Umbúðir eru úr ýmsum efnum, sumum endurvinnanlegum og öðrum ekki. Gler-, málm- og pappírsumbúðir eru umhverfisvænni en plastumbúðir því gler, málmar og pappír eru náttúruleg efni sem auðvelt er að endurvinna og endurnýta. Plast aftur á móti er í flestum tilvikum olíuafurð og því bæði óumhverfisvæn þess vegna og einnig vegna þess að plast brotnar seint og illa niður og skapar ýmis alvarleg vandamál í náttúrunni. Margar plasttegundir er þó hægt að endurnýta t.d. til að búa til nýjar plastafurðir. Umbúðir úr blönduðum efnum eins og t.d. akríl og pvc er ekki hægt að endurvinna. Ekki heldur einangrunarplast sem safnast upp í náttúrunni.

Til að minnka neikvæð umhverfisáhrif er mikilvægt að við flokka rétt. Röng flokkun getur gert það að verkum að ómögulegt sé að endurvinna úrgang á síðari stigum.

Endurvinnslu er stýrt á ýmsan máta, m.a. með Evrópulöggjöf sem sér til þess í samráði við hvert land, að úrvinnslu sé framfylgt.

Hér á landi sér Úrvinnslusjóður um að hringrásin virki. Úrvinnslusjóður ákveður hvort og þá hve hátt skilagjald er lagt á umbúðir og greiða neytendur það skilagjald sem lagt er á vöruna til Úrvinnslusjóðs þegar vara er keypt. Skilagjaldið hvetur síðan þjónustuaðila þ.e. sveitarfélög og sorphirðufyrirtæki til að safna flokkuðu sorpi og koma í endurvinnsluhringrásina. Fyrir flokkað sorp fæst skilagjald greitt úr Úrvinnslusjóði. Skilagjald er einnig hvatning fyrir neytendur til að skila einnota drykkjarumbúðum úr áli, gleri og plasti til endurvinnslu enda er 16 kr. skilagjald greitt út á hverja umbúð. Endurvinnslan hf. er með útibú út um allt land og tekur við einnota drykkjarumbúðum til endurvinnslu og greiðir skilagjaldið út.

Það eru til fjöldi merkja sem á einn eða annan máta gefa til kynna að hægt sé að flokka, endurnýta eða endurvinna vöru. Á Íslandi hefur Fagráð um endurnýtingu og úrgang (FENÚR), tekið saman flokkunarmerkingar fyrir endurvinnslu og sorphirðu.

Hér á vef Náttúrunnar tengjast endurvinnsluflokkarnir og staðsetning grenndargáma og gámastöðva öllum vörum á Náttúrumarkaði, bæði innihalds og umbúðaflokkum auk þess sem Náttúran.is hefur þróað Endurvinnslukort sem er yfirlit yfir staðsetningu móttökustöðva endurvinnanlegs sorps á öllu landinu.

Náttúran.is hefur einnig gefið út Endurvinnslukort fyrir iPhone og iPad og er það nú aðgengilegt í App Store. Smáforritið er ókeypis og notkun þess líka. Þeir sem nota það yfir 3G eða 4G samband greiða fyrir gagnflutning sem reynt er að halda í lágmarki. Endurvinnslukortið verður innan skamms einnig fáanlegt fyrir Android.

Tilgangur Endurvinnslukorts-appsins er að fræða almenning um endurvinnslu og gefa eins fullkomið yfirlit og mögulegt er yfir hvar á landinu sé tekið við hverjum endurvinnsluflokki.

Birt:
24. janúar 2013
Höfundur:
Náttúran er
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Náttúran er „Endurvinnsla - viðmið“, Náttúran.is: 24. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. mars 2007
breytt: 7. ágúst 2015

Skilaboð: