Reykjavíkurborg hefur nú sett upp vefsíðuna pappirerekkirusl.is þar sem íbúum er kynnt þjónusta borgarinnar með blátunnuna sem er valkvæð þjónusta fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Reykjavíkurborg vinnur nú að því fram til næstu áramóta að innleiða kerfi, í hvert hverfi á fætur öðru, sem felur í sér að ef skilagjaldsskyldar umbúðir eða pappír finnst í gráu heimilistunnunni (sem er nú einnig kölluð „orkutunna“) þá verður tunnan ekki tæmd. Það má segja að þetta sé leið til að kenna fólki að flokka pappír og skilagjaldsskyldar umbúðir án þess að skikka það til að panta sér blátunnu.

Skilaboð borgarinnar er að fólk geti annað hvort tamið sér að fara með pappírsruslið á endurvinnslustöðvar eða grenndargám en geti einnig pantað sér blátunnu, ef því finnst það þægilegra.

Á pappirerekkirusl.is er hægt að panta sér blátunnu og þar er einnig kort af grenndarstöðvum borgarinnar þar sem bláu pappírs  grenndargámarnir eru staðsettir.

Við viljum einnig benda á að allar upplýsingar um staðsetningu grenndargáma og gámastöðva á öllu landinu er að finna hér á Endurvinnslukortinu okkar sem við byrjuðum að þróa árið 2008. Eigendur iPhone-a og iPad-a geta náð sér í Endurvinnslukorts-appið og verið þannig með stöðugar upplýsingar um staðsetninga endurvinnslustöðva og grenndargáma og endurvinnsluflokkana sem tekið er á mót á hverjum stað. Og auðvitað opnunartíma allra stöðva.

Sjá hér á Endurvinnslukortinu hver tekur við hvaða tegund af rusli, hvar á landinu.

Sæktu Endurvinnslukorts-appið fyrir iPhone eða iPad til að fræðast um endurvinnslu og sjá hvar mótttaka á endurvinnanlegu rusli er á landinu öllu.

Grafík: Forsíða vefsíðunnar pappirerekkirusl.is.

Birt:
Jan. 4, 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pappír er ekki rusl“, Náttúran.is: Jan. 4, 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/04/pappir-er-ekki-rusl/ [Skoðað:June 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: