Hvað á að gera við jólapappírsruslið?
Það hlaut að koma að því; jólapappír, umbúðir, borðar, kassar, ruslið eftir aðfangadagskvöld er komið og allt þarf þetta að fara eitthvert, en hvert?
Það er óskaplega freistandi að troða bara öllu í stóra svarta plastpoka og troða ofan í tunnu...eða eitthvað. En ef allir gerðu það...þvílík sóun. Það er til betri leið, allavega fyrir umhverfið og hún er að sortera allt heila klabbið í flokka sem síðan má annað hvort endurnota eða henda á rétta staði. Nokkur ráð: pakkaskraut, borða, kassa, poka og bönd sem enn standa fyrir sínu má nota aftur og jólapappírinn má líka nota aftur á næstu jólum eða afmælum jafnvel þó að eitthvað af honum hafi rifnað, (þökk sé mismunandi pakkastærðum). Með því að rúlla heillega pappírnum í myndarlega rúllu gætir þú átt gjafapappír á lager allt árið!
Áætluð notkun á jólapappír á Íslandi eru 3-4 milljón metrar um hver jól. Skrautpappír er í fæstum tilfellum endurvinnanlegur. Litaður jólapappír með málmáprentun eða glimmeri er alls ekki endurvinnanlegur og flokkast sem óendurvinnanlegt sorp. Það er ágætt að minnast þess þegar keyptur er jólapappír um næstu jól að til er jólapappír sem er endurvinnanlegur og er alveg jafn fallegur en glimmerpappírinn þó á annan hátt sé.
Ef þú býrð í hverfi eða bæ þar sem blá tunna er í boði þá getur þú sett allan endurnýjanlegan pappír í hana. Annars getur þú nýtt þér Endurvinnslukortið til að hjálpa þér að finna móttökustað í þínu næsta nágrenni.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvað á að gera við jólapappírsruslið?“, Náttúran.is: Dec. 25, 2013 URL: http://nature.is/d/2010/12/26/hvad-ad-gera-vid-jolapappirsruslid/ [Skoðað:Sept. 17, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Dec. 26, 2010
breytt: Jan. 1, 2013