Á síðustu öld jókst mjög tækni við fiskveiðar, svo mjög að sumir fiskstofnar voru ofveiddir. Þegar þorskstofninn á Grand Banks við Nýfundnaland hrundi á síðasta áratug síðustu aldar óx umræða um þörfina á bættri umgengni um auðlindir sjávar. Smám saman gerðu stjórnvöld og útvegurinn sér grein fyrir að verndun fiskistofna og skilvirk veiðistjórnun væri strandríkjum lífsnauðsyn. Einstaka umhverfissamtök gengu enn lengra og hvöttu fólk jafnvel til þess að hætta að borða fiskmeti.

Á þessum árum eins og í dag voru í  stórmörkuðum erlendis seldar margar tegundir af fiski, sumar úr sjálfbært nýttum stofnum en aðrar úr ofveiddum stofnum. Neytandinn hafði engin tök á að vita hvaða fiskur væri úr vel nýttum stofni. Þetta skapaði óvissu og á sama tíma var lifandi áróður ýmissa samtaka að best væri að hætta að borða fisk, sökum ofveiði. Úrlausnarefnið var að búa til kerfi sem greindi á milli hvort fiskurinn í stórmarkaðnum kæmi úr sjálfbært nýttum stofni eða ekki. Á þessum grunni voru búnir til staðlar og vottunarkerfi fyrir sjálfbærar fiskveiðar, sem fengu nafnið Marine Stewardship Council (MSC). Merki MSC skyldi sett á umbúðir  fiskafurða sem kæmu úr sjálfbært nýttum stofnum en áður þurftu viðkomandi fiskveiðar að fara í vottun og standast staðla MSC. Stórmarkaðir og aðrir sáu viðskiptatækifæri í því að sýna neytendum að varan sem þeir versluðu með kæmi úr sjálfbærum fiskveiðum  og hefðu hlotið vottun samkvæmt staðli MSC. Hugsjónin á bakvið MSC er að með aukinni eftirspurn eftir sjávarafurðum úr sjálfbært nýttum stofnum verði allir fiskstofnar heimsins nýttir með sjálfbærum hætti í framtíðinni  og ofveiði heyrði þar með sögunni til.

Eftir hægan framgang fyrstu árin, þá gekk MSC í gegnum mikla endurskipulagningu árið 2004 og upphófst þá nýtt tímabil vaxtar og útbreiðslu sem stendur enn. Í dag eru um 10% af fiskafla sjávar til manneldis með MSC vottun eða í vottunarferli og fjöldi fiskveiða sem sækja um vottun vex stöðugt. Í dag eru seldar í yfir 80 löndum ríflega 15000 vörutegundir sem bera umhverfismerki MSC. Í april árið 2008 voru tæplega 1500 vörutegundir sem báru merki MSC. Frá 2008 til 2012 hefur því orðið tíföldun í földa MSC vara. Á sama tíma vilja æ fleiri stórmarkaðir og aðrir setja það sem kröfu fyrir viðskiptum að fiskur sem verslað er með komi úr vottuðum sjálfbært nýttum stofnum. Mörg af þekktum vörumerkjum nota merki MSC eins og margir stórmarkaðir, Youngs, Iglo, Birds Eye, sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver og Macdonalds hamborgarakeðjan og fleiri.

Forestry Stewardship Council

Vottunarkerfi til að staðfesta sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er ekki einskorðuð við sjávarauðlindir. FSC eða Forestry Stewardship Council er staðall fyrir sjálfbærar skógarnytjar og er notaður á afurðir úr skógarnytjum. Hér á landi má sjá víða garðhúsgögn úr tré sem bera merki FSC og þýðir þá að viðurinn í þeim vörum á uppruna í skógarhöggi sem hefur hlotið FSC vottun um sjálfbærar skógarnytjar.  Fjöldi annarra umhverfismerkja eru til sem fela hvert og eitt í sér ákveðin skilaboð.

Þegar staðlar Marine Stewardship Council (MSC) voru kynntir fyrst hér á landi á tíunda áratug síðustu aldar þá guldu margir varhug við samtökunum. Í gömlum blaðagreinum má glöggt sjá að ótti hagsmunaðila við MSC var djúpstæður. Árið 2008 hóf greinarhöfundur að starfa með MSC og var eitt af fyrstu verkefnum að athuga hvort einhversstaðar á landinu bláa væri ekki einhver sem vildi fá MSC vottun fyrir sín viðskipti.

Sæmark Sjávarafurðir og fyrsta vottunin

Eftir að hafa rætti við nokkra aðila þá var ljóst að Sæmark sjávarafurðir vildu fara í fiskveiðimat á þorsk, ýsu og steinbít fyrir veiðarfærin, línu, handfæri og dragnót fyrir ákveðinn fjölda báta sem þeirra framleiðendur áttu eða voru í viðskiptum við.  Þeir stóðust matið á þorsk og ýsu, en því miður stóðst steinbíturinn ekki matið, sem var m.a. vegna þess að í nokkur ár var búið að gefa út kvóta umfram ráðgjöf. Það var synd því þetta hefði orðið fyrsta MSC vottunin á steinbít í heiminum. 

Sæmark selur afurðir fyrir nokkra framleiðendur en á bakvið þá í umsókninni voru 4 framleiðendur, Hraðfrystihús Hellissands, Oddi Patreksfirði, Þórsberg Tálknafirði og Íslandssaga Súgandafirði. Umsóknin var gerð að hluta í kringum viðskipti Sæmarks við Youngs sem svo selur pakkaða vöru áfram í stórmarkaðinn Sainsbury. Þessi umsókn Sæmarks varð árangursrík, bæði fyrir ensku viðskiptin en einnig jókst viðskipti Sæmarks beggja vegna Atlantshafsins og var þar eftirspurn eftir MSC vöru sem reið baggamuninn. Fljótlega fjölgaði því framleiðendum Sæmarks í MSC hópnum til að anna eftirspurn. Á heimasíðu Sæmarks má sjá video um þetta http://saemark.is/media/ en þetta video er líka að finna á heimasíðu Sainsbury. Jafnframt fóru framleiðendur á þorsklifur að nota MSC úr vottuðum veiðum Sæmarks, þannig að eftirspurn eftir MSC kom úr ýmsum áttum.

Icelandic group fór einnig af stað með umsókn fyrir þorsk og ýsu. Munur á þessari umsókn og hjá Sæmark var að undir var allur íslenski flotinn en ekki hluti af flotanum eins og hjá Sæmark sem einnig lét einungis votta veiðar á línu, handfæri og dragnót en hjá Icelandic bættust við net og togveiðar. Það var því ríkur metnaður hjá Icelandic group að gera viðamikið fiskveiðimat.

Dótturfyrirtæki Samherja erlendis eru víða komin með MSC vottun og markaðsfyrirtæki Samherja skynja eftirspurn eftir MSC vottuðum vörum á heimsmörkuðum.  Á Íslandi fór Samherji í vottunarferil á þorski, ýsu og norsk íslensku síldinni.  Með þessari umsókn koma fyrstu íslensku uppsjávarveiðarnar i vottunarferil samkvæmt MSC staðli sem er ánægjuefni ásamt því að þetta öfluga fyrirtæki verði sér úti um MSC vottun.

Iceland Sustainable Fisheries

Á sama tíma og allt þetta var í gerjun, fóru aðrir útflytjendur að tala sig saman og hugðust lika fara í vottun á þorski og ýsu og hugsanlega fleiri tegundum. Ætlunin var að stofna félag sem myndi heita Iceland Sustainable Fisheries sem hefði það eitt hlutverk að sækja um og halda utan um MSC vottanir fyrir hluthafa. Icelandic group bauð þessum hópi að vera með sér í sínu fiskveiði vottunar skírteini sem þá var nýlokið. Nú hefur verið stofnað félagið Iceland Sustainable Fisheries (ISF) og skírteini Icelandic flutt yfir í það félag.

Með stofnun á ISF vinnst margt en m.a:

  • ISF er sameiginlegur vettvangur þeirra sem þurfa á MSC vottun að halda
  • ISF er rekið á kostnaðargrunni og opið öllum
  • Fiskveiðivottunarskírteinin eru hýst hjá ISF sem er hlutlaus aðili og ekki í samkeppnisrekstri
  • Þegar mörg fyrirtæki sameinast um svona vinnu þá er kostnaður hvers og eins lægri
  • Sameiginlega stefnir ISF að sækja um vottanir á öðrum fisktegundum

Það hefur margt breyst á síðustu 4 árum í vottunarmálum sjávarútvegsin bæði á úti í heimi og hér á Islandi.  Mikilvægast fyrir Íslendinga er að þorsk og ýsuveiðar hafa verið metnar samkvæmt þekktustu stöðlum um sjálfbærni og þær upplýsingar er hægt að nota við sölu og markaðsfærslu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum.

Höfundurinn Gísli Gíslason er ráðgjafi Marine Stewardship Council.

Sjá alla MSC vottaða aðila á Íslandi hér á Grænum síðum.

Sjá heimasíðu Marine Stewardship Council.

Ná í app hér til að leita að MSC vottuðu vöruframboði i heiminum.

Birt:
Aug. 20, 2012
Höfundur:
Gísli Gíslason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Gísli Gíslason „MSC og Ísland“, Náttúran.is: Aug. 20, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/20/msc-og-island/ [Skoðað:May 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Aug. 22, 2012

Messages: