Rifsber í körfuAð gera rifsberjahlaup þykir mér satt að segja nokkuð mikið vesen. Það verður bara að segjast eins og er. Á móti kemur auðvitað að auðvelt er að tína berin af runnunum, sé nóg af þeim á annað borð. Það er seinlegt að leyfa safanum að dropa í gegnum bleiuna klukkutímum saman og óskaplega mikið hrat situr eftir sem ekki virðist nokkur leið að kreista meira úr. Ég reyndi því að sjóða saft upp af hratinu og gekk það mjög vel. Það er engin ástæða til að hafa saftina of sæta, hún stendur vel fyrir sínu þó að hún sé ekki mjög sæt. Uppskriftin er eitthvað í þessa áttina:

Hrat af rifsberjum sett í pott og vatni bætt í að vild. Soðið upp í 10-15 mínútur og síðan síað í gegnum bleiu. Það gengur mun fljótar fyrir sig að sía þennan þunna safa en að sía safann af fyrstu soðningu í rifsberjahlaup.

Safinn settur aftur í pott, soðið agnarstund og sykri bætt í að vild. Sett heitt á heitar flöskur eða krukkur og notað sem saft blandað í vatni eða til hátíðabrigða í kolsýrt vatn. Í veisluna er fallegt að hella saft og kolsýrðu vatni í skál, henda nokkrum ferskum berjum út í saftina og kalla púns. Betra en nokkur gosdrykkur eða mjöður og auðvitað þúsund sinnum hollara.

Ljósmynd: Nýtínd rifsber í körfu. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
5. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Rifsberjasaft“, Náttúran.is: 5. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2010/08/29/rifsberjasaft/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. ágúst 2010
breytt: 5. ágúst 2014

Skilaboð: