Rifsberjarunni (Ribes rubrum)Rifsber þurfa góðan raka meðan berin eru að þroskast til þess að þau verði stór og safarík. Hefðbundna aðferðin er að gera hlaup úr berjunum. Ef hlaup mistekst hafa berin að öllum líkindum verið orðin of þroskuð. Hleypiefnið er í þeim ljósu og þarna er um að gera að tína snemma og að vera á undan þröstunum. Hlaupið verður samt rautt og fallegt. Hafi hlaup mistekist má annaðhvort nota það sem dásamlega sósu eða hella því aftur í pottinn, kaupa sultuhleypi og endursjóða. Það má frysta rifsberjahlaup ef það á að geymast til jólanna.

Rifsberjahlaup:
Notað er 1 kg af sykri á móti 1 kg af berjum, 1/2 bolli af vatni og ein stöng af vanillu. Hrein berin, stönglar og jafnvel lauf eru soðin í vatninu 10–15 mínútur þangað til þau eru sprungin, síuð frá og sett upp aftur með sykrinum og vanillunni, froðan veidd ofan af og soðið í 20 mínútur þangað til loðir milli fingra en ekki lengur. Það má reyna að minnka sykurinn og gera tilraunir með fjallagrös sem rotvarnarefni.

Rifsberjasafinn sigtaður í gegnum bleiuSafinn settur aftur í pott, soðið agnarstund og sykri bætt í að vild. Sett heitt á heitar flöskur eða krukkur og notað sem saft blandað í vatni eða til hátíðabrigða í kolsýrt vatn. Í veisluna er fallegt að hella saft og kolsýrðu vatni í skál, henda nokkrum ferskum berjum út í saftina og kalla púns. Betra en nokkur gosdrykkur eða mjöður og auðvitað þúsund sinnum hollara.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmyndir, efst; Rifsberjahrat í bleiuþroskuð rifsber. Neðri myndirnar sýna sýjun berjanna eftir suðu, séð ofan frá og frá hlið .Gott er að strengja bleyju (t.d. á koll á hvolfi, endarnir fjórir festir með teygju á stólfæturnar) og láta rifsberjasafann leka rólega í gegnum bleyjuna í skál. Athugið að síunin getur tekið nokkuð langan tíma. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 3, 2015
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Rifsber og rifsberjahlaup“, Náttúran.is: Sept. 3, 2015 URL: http://nature.is/d/2007/08/16/rifsber/ [Skoðað:June 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Aug. 16, 2007
breytt: Sept. 3, 2015

Messages: