Alvarlegar athugasemdir gerðar við leyfi til ræktunar á erfðabreyttum lífverum að Reykjum
Greinargerð vegna fyrirhugaðrar ræktunar erfðabreyttra lífvera að Reykjum í Ölfusi, sbr. starfsleyfi Umhverfisstofnunar til handa Orf líftækni hf., fyrir starfsemi með erfðabreyttar lífverur í tilraunagróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Hópur fólks, félaga og stofnana*, hefur skoðað hvaða áhrif leyfisveiting, fyrir ræktun erfðabreyttra lífvera í tilraunagróðurhúsum LBHÍ að Reykjum í Ölfusi, gæti haft í för með sér. Hópurinn gerir í framhaldi af því alvarlegar athugasemdir, eftir að hafa m.a. skoðað drög að leyfisveitingu og hvernig málið hefur verið unnið af hálfu Umhverfisstofnunar. Eftir ítarlega skoðun á málinu, er niðurstaða hópsins sú að að starfsleyfið sé í hæsta máta óásættanleg. Hópurinn beinir þeim tilmælum til bæjarstjórna sveitarfélaganna Ölfuss og Hveragerðis, að þau beiti sér fyrir því við viðeigandi stjórnsýslustofnanir, þ.e. Umhverfisstofnun, Umhverfisráðuneyti, Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og Menntamálaráðuneyti, að umrætt leyfi verði afturkallað.
Bent er á 17 meginþætti og rök, sem mæla sterklega gegn útleigu Landbúnaðarháskóla Íslands á tilraunagróðurhúsunum að Reykjum í Ölfusi, til erfðabreyttrar ræktunar.
- Ófullnægjandi kynning á málinu gagnvart sveitarfélögum en upplýsingar um málið hafa verið takmarkaðar til sveitarfélaga í héraðinu. Einungis hefur Sveitarfélaginu Ölfusi verið sent málið til umsagnar auk Heilbrigðisnefndar Suðurlands. Einnig mun Vinnueftirlit ríkisins og Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur hafa fengið málið til umsagnar, eins og lögboðið er. Þá hafa upplýsingar um málið hvorki borist til bæjarstjórnar Hveragerðis né til hagsmunaaðila í næsta nágrenni, en þeir kynnu að verða fyrir áhrifum af umræddri leyfisveitingu, t.d. skólayfirvöld í Hveragerði, nemendur og starfsmenn á Reykjum, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, ferðaþjónustuaðilar og aðrir hagsmunaðilar í Hveragerði og Ölfusi.
- Grenndarkynning fór ekki fram. Mjög ámælisvert er að engum upplýsingum um málið hefur verið komið á framfæri við íbúa í Hveragerði og í Ölfusi. Grenndarkynning hefur ekki farið fram um málið og íbúar hafa þar af leiðandi ekki átt þess kost að vega og meta þá fjölmörgu ókosti og hættur, sem umrædd leyfisveiting mun hafa í för með sér.
- Saga Hveragerðis og Ölfuss er samofin nýtingu náttúrugæða á umhverfisvænan máta, m.a. með notkun heita vatnsins við heilsueflingu, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, landbúnað og ylrækt. Orðspori þessara gæða verður stefnt í hættu, ef af ræktun erfðabreyttra lífvera verður á svæðinu.
- Ölfus og Hveragerði er vinsælt og vaxandi útivistarsvæði, en bæði íbúar og ferðamenn sækja í mjög auknum mæli til þeirra kjörlenda, sem þarna eru til göngu- og hjólreiðaferða, hestaferða, sund- og baðferða. Heilsueflingarstígur sveitarfélaganna og fleiri aðila liggur t.d. um þau svæði sem Orf líftækni hf. hyggst stunda starfsemi á. Sundlaugin í Laugarskarði, reiðstígar, hjóla- og göngustígar eru í næstu grennd. Heilsugöngur Heilsustofnunar Náttúrlækningafélags Íslands fara um svæðið. Heilbrigði þessa umhverfis og ímynd er stefnt í voða ef af umræddri starfsemi verður.
- Næsti granni er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, sem er jafnframt stærsti vinnustaðurinn í Hveragerði. Stofnunin hefur m.a. mótað sér stefnu um svæði stofnunarinnar og lendur, sem yfirlýst svæði án erfðabreyttra lífvera jafnframt því að vera vagga lífrænnar ræktunar og framleiðslu á Íslandi. Mikilvægt er fyrir félagið og þann rekstur sem það hefur með höndum að fá frið til þeirrar starfssemi. Mikilvægt er að skilyrði til lífrænnar ræktunar sé virt varðandi umhverfi, vellíðan gesta, starfsfólks og lífrænnar vottunar framleiðslunnar. Nú starfa þar um 100 manns og mörg þúsund gestir koma þangað á ári. Mikilvægi þess að starfsemin fái áframhaldandi frið og hreint umhverfi er ótvírætt. Hreinleiki umhverfis er mikilvægur starfseminni og nauðsynlegt að allri mengun m.a. frá erfðabreyttri starfsemi sé haldið utan við 9,6 km radius að lágmarki. Fjarlægð frá gróðurhúsi því sem ræktunarleyfið tekur yfir er innan við 1 km. frá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Stofnunin á lögvarða hagsmuni í málinu sbr. ofannefnt m.a. þar sem lífrænni vottun og margra áratuga uppbyggingu er stefnt í hættu með ræktun erfðabreyttra lífvera í nánasta nágrenni.
- Ályktun um Erfðabreyttar lífverur - ræktun erfðabreyttra plantna á Íslandi var m.a. samþykkt á 33. Landsþingi NLFÍ, sem haldið var á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði sunnudaginn 2. október 2011: „Náttúrulækningafélag Íslands fordæmir það ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda að heimila útiræktun á erfðabreyttum lífverum á Íslandi. Fjöldi ritrýndra vísindalegra rannsókna liggja nú fyrir sem sýna fram á að erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra valda óafturkræfu tjóni á umhverfi og heilbrigði dýra og manna. Landsþing NLFÍ telur að notkun erfðabreyttra lífvera skuli einvörðungu fara fram í lokuðu rými. Þingið krefst þess að þar sem leyfi til slíkrar „afmarkaðrar“ notkunar hafa verið veitt tryggi eftirlitsaðilar raunverulega afmörkun þannig að erfðabreytt efni berist ekki út í umhverfi og mengi grunnvatn og jarðveg. Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að banna með öllu útiræktun á erfðabreyttum lífverum og undirbúa að Ísland verði sem fyrst lýst „land án erfðabreyttra lífvera“.
- Lagt er til að sveitarfélögin Ölfus og Hveragerði móti sér stefnu og taki HNLFÍ sér til fyrirmyndar og stuðnings í stefnumótun um umhverfismál og m.a. gerist yfirlýst Svæði án erfðabreyttra lífvera.
- Umrætt svæði er á mjög virku jarðskjálftabelti. Þekkt er að jarðsprungur liggi um svæðið og m.a. undir þeim byggingum, sem eru fyrirhugaðar til ræktunar á erfðabreyttum lífverum, sbr. þá eyðileggingu, sem jarðskjálfti vorið 2008 olli á byggingum m.a. á Reykjum.
- Umhverfisstofnun fjallar ekkert í starfsleyfi sínu til Orf líftækni hf. um þann skaða, sem gæti orðið af starfseminni af völdum náttúruvá s.s. jarðskjálfta og hveramyndana á svæðinu. Nýleg dæmi sýna að ekki þarf að hafa sérstakt hugmyndaflug til að sjá að slíkt getur gerst aftur fyrirvaralaust.
- Varmá, sem rennur skammt fyrir neðan staðinn, er á náttúruminjaskrá og nýtur þar af leiðandi verndar samkvæmt lögum. Varmá er mjög mikilvægt náttúruverndarsvæði fyrir bæði sveitarfélögin Ölfus og Hveragerði. Mengist vatn í Varmá kann það að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir allt lífríki árinnar og kynni einnig að valda óbætanlegri mengun grunnvatns og jarðvegs á aðliggjandi svæðum.
- Sú tækni, sem er í dag í umræddum byggingum, tilraunahúsum að Reykjum getur ekki komið í veg fyrir að erfðabreyttar lífverur eða erfðabreytt efni sleppi í umhverfið. En allar þessar mögulegu hættur, sem fylgja leyfisveitingu fyrir ræktun erfðabreyttra lífvera að Reykjum eru ókannaðar. Þó svo að starfsleyfi hafi verið veitt til afmarkaðrar notkunar er rétt að árétta, að með afmörkun er að sjálfsögðu átt við að notkun fari fram í lokuðu kerfi. Gera verður kröfu til þess að ekki ein einasta lífvera geti sloppið út. Jafnframt verður að gera kröfu til að þess að erfðabreytt efni berist ekki út fyrir kerfið, til að fyrirbyggja mengun grunnvatns og jarðvegs af þeirra völdum. Því verður ekki lengur móti mælt að erfðabreytt efni flytjast og geta flust, með ófyrirsjáanlegum heilsufarsafleiðingum, yfir í jarðvegs- og grunnvatnsörverur og smádýr (sn. flöt genatilfærsla, e: horizontal gene transfer), sem er ekki síðra áhyggjuefni en dreifing sjálfra lífveranna (s.s. fræ með frjómagn). Ef sótt er um afmarkaða notkun á að krefjast þess að um raunverulega lokað kerfi sé að ræða en ekki „að mestu“. Huga þarf að öllum þáttum þ.m.t. að gólf séu þétt úr föstu efni, gler í veggjum og lofti sé tvöfalt, öryggissvæði sé til að fyrirbyggja tilflutning efna með mönnum og tækjum út úr ræktunarhúsum, frárennsli sé dauðhreinsað og öllum úrgangi frá ræktun sé eytt með brennslu, o.fl. í þeim dúr, þannig að hvorki lífverur né erfðabreytt efni sleppi út úr kerfinu.
- Reynsla af fyrri starfsemi Orf líftækni hf. í tilraunagróðuhúsnum að Reykjum var ámælisverð. Ræktað var án tilskilinna leyfa, að einhverju leyti árin 2003 - 2008. Óvíst var þar hvort ræktað hafi verið til framleiðslu eða tilrauna. Umgengni fyrirtækisins var afburða slæm; eftir notkun gróðurhúsa stóðu plöntur þar dauðar vikum saman, var að lokum fleygt út ýmist „bak við hús” eða enduðu á almennum úrgangshaug skólans fyrir jurtaleifar við hverasvæði við Reyki. Hvernig staðið var að „tilraunaræktun“ Orf líftækni hf. í Gunnarsholti á Rangárvöllum er einnig ámælisvert. Svæði var m.a. ekki vaktað og ekkert eftirlit var með starfseminni af hálfu Umhverfisstofnunar.
- Margar rannsóknir um sambærilega erfðabreytingu, sem Orf líftækni hf. er að vinna með, kunna að valda myndun krabbameins og eiga alls ekki ekki heima í náttúrunni. Jafnframt getur þetta skapað hættu fyrir almenna byggræktun, sem er eina korntegundin, sem hægt er að rækta að einhverju ráði hér á landi.
- Ekkert tryggingafélag tryggir rekstur með erfðabreyttar lífverur. Sveitarfélögin sætu ein uppi með mögulegt tjón. Fjárhagslegu öryggi sveitarfélaganna væri þar með stefnt í mikla hættu. Þetta hefur gerst nokkrum sinnum í Bandaríkjunum (sjá nánar á heimasíðu Institute for Responsible Technology).
- Það er ekki á verksviði LBHÍ að leigja einkaaðilum sérhannað tilraunagróðurhús á vegum ríkisins til starfsemi sem er óskyld garðyrkju og matvælaframleiðslu. Húsið var byggt í samstarfi við garðyrkjubændur og fjármagnað úr ríkissjóði miðaðist við slíka notkun en ekki framleiðslu erfðabreyttra lífvera. Engin önnur aðstaða yrði fyrir hendi til rannsókna og eflingar ylræktar í landinu. Starfsemi Orf líftækni hf. er hvorki landbúnaður né matvælaframleiðsla. Starfsemin kemur ekki til með að vera atvinnuskapandi fyrir svæðið. Til þess er reksturinn allt of sérhæfður og starfsmenn munu koma tímabundið frá öðrum starfstöðvum fyrirtækisins
- Ekki hefur farið fram lögformlegt mat á umhverfisáhrifum vegna almennrar starfsemi Orf líftækni hf. Leyfisdrögin hafa verið skoðuð af hópnum. Hópurinn skrifaði Umhverfisstofnun bréf þ. 28. nóvember sl. og óskað eftir að fá leyfisdrögin til skoðunar. Þeirri beiðni var ekki sinnt strax og borið við veikindum innan stofnunarinnar. Leyfisdrögin bárust hópnum því ekki fyrr en leyfið hafði verið gefið út (sbr. svar frá starfsmanni UST) eða þ. 1. desember sl. en beiðni um að sjá leyfið sjálft var ekki sinnt þrátt fyrir ákvæði í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Leyfið, greinargerð og umsagnir voru síðan ekki birt á vef Umhverfisstofnunar fyrr en þ. 13. desember sl. Leyfið er stimplað afgreitt af stofnuninni þ. 2. desember sl. eða einum degi eftir að stofnunin tilkynnti hópnum að leyfið hafi þegar verið gefið út. Í leyfinu segir m.a. „Komi nýr aðili að rekstrinum getur hann sótt um til UST að leyfið verði fært yfir á hann, án þess að gefið verði út nýtt leyfi. Með umsókninni skulu fylgja gögn sem sýna fram á að rektaraðilinn hafi tekið við rekstrinum.“ Þetta ásamt fjölmörgum öðrum atriðum er algjörlega óásættanlegt. Umhverfisstofnun lagði áherslu á fljóta afgreiðslu leyfisins og því má draga þá ályktun að leyfisveitingunni hafi verið flýtt til að komast hjá því að uppfylla þær skyldur, sem ný lög kveða á um sbr. að Árósasamningurinn um samráð við almenning og félagasamtök tekur gildi 1. janúar 2012 hér á landi.
- Margvísleg rök mæla sterklega gegn útleigu Landbúnaðarháskóla Íslands á tilraunagróðurhúsunum að Reykjum í Ölfusi, til ræktunar erfðabreyttra afurða Orf líftækni hf., en mannvirkin voru byggð fyrir íslenska ylrækt, þ.e. grænmetis- og blómaframleiðslu, í samstarfi við Samtök garðyrkjubænda árið 2001.
Kort sem sýnir 9,6 km radíus frá gróðurhúsunum að Reykjum en það markar mengunarsvæði og þ.m.t. áhrifasvæði skv. stöðlum Soil Association en lífræna vottunarkerfi Vottunarstofunnar Túns er þróað í samræmi við staðla og í samvinnu við Soil Association. Lífræn vottun HNLFÍ er útgefið af Vottunarstofunni Túni.
*Greinargerðin er unnin í samráði við eftirfarandi aðila:
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Vor – Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap
Samtök lífrænna neytenda
Slow Food samtökin á Íslandi
Önnu Heiðu Kvist, garðyrkjufræðing
Birgi Þórðarson, náttúrufræðing
Einar Bergmund Arnbjörnsson, tækniþróunarstjóra Náttúran.is
Guðrúnu A. Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Náttúran.is
Vísað er til eftirfarandi laga og reglugerða er varða mál þetta;
Lög 182/1996 um erfðabreyttar lífverur http://www.althingi.is/lagas/nuna/1996018.html
Reglugerð 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera.
Birt:
Uppruni:
VOR - Verndun Og Ræktun - félag framleiðenda í lífrænum búskapNáttúran.is
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands
Slow Food í Reykjavík
Náttúruverndarsamtök Íslands
Samtök lífrænna neytenda
Tilvitnun:
Erfðabreytt að Reykjum - NEi „Alvarlegar athugasemdir gerðar við leyfi til ræktunar á erfðabreyttum lífverum að Reykjum“, Náttúran.is: Dec. 27, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/27/alvarlegar-athugasemdir-gerdar-vid-leyfi-til-raekt/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 5, 2012