Fyrirtækið Te & Kaffi hefur fyst íslenskra fyrirtækja tekist að fá Fair Trade vottun (sanngirnisvottun, einnig þýtt sem réttlætismerking) á vöru hér á landi.

Kaffihrábaunir sem upprunanlega eru ræktaðar á grundvelli Fair Trade má ekki selja unnar (brenndar, malaðar og pakkaðar) sem slíkar án þess að framleiðsluyrirtækið sjálft fái leyfi FLO Fairtrade Labelling Organization til að merkja vöru sína sem Fair Trade vöru. Náttúran.is bað  Te & Kaffi um að lýsa hvað það þurfti að gera til að fá sanngirnisvottun á vöruna þannig að aðrir geti fræðst og lært af reynslunni sem skapar ákveðið fordæmi fyrir íslenska aðila sem hugsanlega hafa áhuga á að feta í fótspor Te & kaffis. Kristbjörg Marteinsdóttir hjá Te & Kaffi tók reyslusöguna saman í eftirfarandi texta:

„Við hófumst handa við að kanna þann möguleika að fá að framleiða og selja Fairtrade vottað kaffi þegar einn viðskiptavinur fyrirtækisins, Háma í Háskóla Íslands, vildi bjóða upp á kaffi sem hefur þessa vottun. Í fyrstu fengum við synjun þar sem ekki væri nein umboðsskrifstofa á Íslandi fyrir Fairtrade. Innan Hjálparstofnunar Kirkjunnar var Lydia Geirsdóttir verkefnastjóri að kynna Fairtrade verkefnið fyrir Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum og þekkti vel til fyrir hvað Fairtrade stendur. Við vorum í nánu samstarfi við hana til að byrja með og reyna að fynna lausn á því hvað við gætum gert í stöðunni.  

Í ágúst 2007 ákvað skráningastofa Fairtrade, Flo- Cert, í Bonn í Þýskalandi að opna fyrir umsóknir fyrir lönd sem ekki væru með umboðsskrifstofu í sínu heimalandi. Þetta varð til þess að fyrirtækið einhenti sér í að sækja um. Umsóknarferlið tók alls 6 mánuði með tilheyrandi fyrirspurnum, samskiptum, samningum og mikilli pappírsvinnu. Bæði þurfti samþykki fyrir merkingum á umbúðum við Fairtrade Labelling Organizations International og síðan sjálf samningagerðin við Flo Cert, þar sem Te & Kaffi þurfti að samþykkja og undirgangast ýmis skilyrði sem samtökin hafa sett framleiðendum til að tryggja gagnsæi og samræmi í meðferð, framleiðslu og sölu Fairtrade vottaðara kaffihrábauna.

Í Janúar 2008 fékk Te & Kaffi vottunarnúmer sem staðfestir að fyrirtækið má nú kaupa Fartrade vottaðar kaffihrábaunir vinna þær og selja með Fairtrade merkingu, en þess má geta að seljendur hrábauna mega einungis selja þeim Fairtrade hrábaunir sem hafa slíkt vottunarnúmer.

Fyrirtækið styður s.s. Fairtrade með því að kaupa kaffihrábaunir á uppsetttu markaðsverði hverju sinni. Te & Kaffi sem framleiðandi þarf síðan að borga til samtakann Flo-Cert prósentu hlutfall af allri sölu á kaffinu og þarf á þriggja mánaða fresti að senda skýrslu með staðfestingu og yfirliti yfir sölutölur. Markaðsverðið tryggir að bændurnir sem eru í samtökunum fá viðunandi verð fyrir afurð sína og geta borgað mannsæmandi laun ásamt því að byggja upp betra vinnu-og félagslegt umhverfi fyrir vinnumenn og fjölskyldur þeirra. Markaðsverð getur verið breytilegt en er ætíð þannig að bóndinn fær sanngjarnt verð og getur því haldið uppi þeim skuldbindingum og skyldum gagnvart sínu starfsfólki sem hann hefur samið um og eru um leið laus við það ferli sem oft fylgir því að þurfa semja við marga milliliði til að koma framleiðslu sinni á markað sem getur á endanum orðið til þess að kaffibaunabóndinn fær einungis u.þ.b. 1-5 % af verði framleiðslunnar í sinn hlut. Þeir bændur sem ganga í samtökin fá aðstoð Fairtrade við að byggja upp framleiðslu og vinnuumhverfi sem er sanngjarnt fyrir starfsfólkið og skilar verðmætari framleiðslu.
Te & Kaffi leggur upp úr því að fara mismunandi leiðir við innkaup á hrábaunakaffi þar sem Fairtrade er ein leið af mörgum. Aðrar leiðir eru önnur regnhlífasamtök s.s. UTZ, Sol, Rainforest Alliance eða beint frá bændum sjálfum, lífrænt ræktað og svo mætti lengi telja. En þetta gefur viðskiptavinum möguleika á að kaupa hágæða sælkerakaffi og styðja um leið við það samfélagslega verkefni sem viðkomandi viðskiptavini hugnast hverju sinni.“

Sjá viðmið fyrir sanngirnisvottun.

Birt:
21. september 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Te & kaffi - ryður brautina fyrir Fair Trade vottun hérlendis“, Náttúran.is: 21. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/01/te-kaffi-ryour-brautina-ao-fair-trade-vottun-herle/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 1. apríl 2009
breytt: 22. ágúst 2014

Skilaboð: