Önnur ályktun Náttúruverndarþings 2012 frá hópi um náttúruvernd og ferðmennsku hljómar þannig:

Náttúruverndarþing 2012 vill að tryggt verði með öflugri stefnumótun og samvinnu mismunandi hagsmunaðila, þ.m.t. heimamanna, að aukinn ferðamannastraumur á láglendi og hálendi komi ekki frekar niður á náttúrugæðum en nú er. Nýting auðlindarinnar verður að vera sjálfbær bæði til styttri og lengri tíma litið. Í þessu sambandi telur þingið að líta beri til eftirtalinna þátta:

  1. Náttúruverndarþing beinir því til ráðherra ferðamála og umhverfis að koma á samvinnu stjórnvalda, eftirlitsstofnana í náttúruvernd, fræðimanna, ferðaþjónustufyrirtækja, náttúruverndarsamtaka og annarra félagasamtaka um mótun eftirfylgni við markmið um ferðamennsku og útivist í sátt við umhverfi og náttúru. Með þessu má tryggja að hægt sé að bregðast við neikvæðum áhrifum ferðamennsku með árangursríkum aðgerðum.
  2. Náttúruverndarþing telur að stórauka þurfi rannsóknir og þekkingu á áhrifum ferðamennsku og útivistar. Auka þarf mælingar og vöktun á umhverfislegum og félagslegum þolmörkum svæða til að ákvarða megi betur hvaða fjölda ferðamanna viðkvæm svæði þola. Þá þarf að vinna úttekt á mismunandi leiðum til að stýra ferðamennsku þar sem það kann að verða nauðsynlegt, þ.m.t. með kvóta, gjaldtöku o.fl. Stórauka þarf fræðslu til innlendra og erlendra ferðamanna og ferðaþjónustuaðila og efla landvörslu.
  3. Náttúruverndarþing hvetur stjórnvöld til að móta stefnu um og efla menntun leiðsögumanna og landvarða, þannig að hún færist einnig á háskólastig. Landvörslustörfum og öðrum störfum í ferðaþjónustu sem sinna náttúruvernd verði gert hærra undir höfði.
  4. Veita þarf stórauknu fé til rannsókna tengdum áhrifum ferðamennsku á náttúru og umhverfi. Einnig er því beint til stjórnvalda að tryggja fjármagn í nýtilkominn Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Ljósmynd: Hópur um náttúruvernd og ferðamennsku við störf á Náttúruverndarþingi 2012 í Háskólanum í Reykjavík þ. 28. apríl sl.. Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
2. maí 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „ Ályktun Náttúruverndarþings um náttúruvernd og ferðmennsku “, Náttúran.is: 2. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/02/alyktun-natturuverndarthings-um-natturuvernd-og-fe/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: