Ný kynslóð söfnunarbíla var kynnt hjá Gámaþjónustunni í Berghellu í Hafnarfirði í morgun. Tæknibúnaður söfnunarbílsins gerir það mögulegt að taka við úrgangi úr endurvinnslutunnunni og almennu sorptunnunni í einni ferð og fækka þannig ferðum sorpbílsins um götur borgarinnar.

Bíllinn sjálfur er Volvo FM 6x2 en búnaður bílsins er frá Norba í Svíþjóð. Fyrsti bíllinn verður tekinn í notkun á Norðurlandi, nánar tiltekið á Akureyri, Dalvík og Eyjafjarðarsvæðinu. Söfnunarkassanum er skipt langsum í tvö sjálstæð hólf, 14 m2 og 7 m3. Bæði lyfta og press geta unnið sjálfstætt á hvoru hólfi fyrir sig eða saman þegar sama efni er safnað í bæði hólfin.

Með því að geta losað tvö ílát frá heimilum í hverri ferð sparast tími og akstur og þar af leiðandi minnkar kolefnislosun af sorphirðu til mikilla muna enda aðeins um eina ferð í stað tveggja áður. Þessi nýjung er því bæði hagkvæm fyrir umhverfið og rekstraraðilann, Gámaþjónustuna, sem þýðir minni kostnað fyrir sveitarfélagið og að lokumt sparnað fyrir hinn almenna neytanda sem borgar allt á endanum.

Auk bílsins kynntu starfsmenn Gámaþjónustunnar gestum ýmsar nýjungar í úrgangsmeðhöndlun svo sem tveggja tunnu kerfi með innra hólfi fyrir lífræna söfnun.

Ljósmyndir: Frá kynningunni í morgun. Tveggja hólfa sorphirðubíllinn og t.v.; Endurvinnslutunna með innáhangandi hólfi fyrir dósir, gler o.fl. og ruslatunna fyrir almennt heimilissorp með innáhangandi íláti fyrir lífrænan úrgang.
Ljósm.: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
4. janúar 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Gámaþjónustan kynnir nýjan sorphirðubíl fyrir endurvinnanlegt sorp“, Náttúran.is: 4. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/01/04/gamathjonustan-kynnir-nyjan-sorphirdubil-fyrir-end/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: