Bláfánahöfnum fjölgar á Íslandi
Þann 1. júli lauk Bláfánaafhendingum Landverndar fyrir sumarið 2008 á Suðureyri við Súgandafjörð. Að þessu sinni hlutu sex umsækjendur náð fyrir augum alþjóðlegrar dómnefndar og bætast nú tvær nýjar hafnir í hóp Bláfánahafna en það eru Arnarstapahöfn og Suðureyrarhöfn.
Bláfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem veitt er rekstraraðilum baðstranda og smábátahafna fyrir góða umhverfisstjórnun. Fáninn segir til um að umhverfi Bláfána-svæðisins sé snyrtilegt, að góð aðstaða sé fyrir hendi til að flokka úrgang, að lögð sé áhersla á öryggismál og að upplýsingar séu aðgengilegar um náttúru svæðisins.
Samtök um umhverfismennt, Foundation for Environmental Education, FEE, halda utan um Bláfána-verkefnið sem á Íslandi er hþst af Landvernd. Fyrstu Bláfánarnir voru dregnir að húni hér á landi í júni 2003 og er þetta því sjötta árið í röð sem Bláa lónið, Ylströndin í Nauthólsvík, Hafnarhólmahöfn á Borgarfirði eystri og Stykkishólmshöfn flagga fánanum.
Bláfánatímabilið hefst 15. maí ár hvert og veitti alþjóðleg dómnefnd Bláfánans Bláa lóninu nú leyfi til að flagga Bláfánanum allt árið um kring. Aðrir staðir á landinu flagga fánanum til 15. október.
Sækja þarf um endurnýjun Bláfánans árlega. Í ár var 2585 baðströndum og 614 höfnum í 37 löndum úthlutað Bláfánanum víðsvegar um heim. Tvær dómnefndir, ein alþjóðleg og önnur innlend, meta umsóknir um Bláfánann og hafa eftirlit með að reglum FEE um úthlutun sé framfylgt. Í dómnefndunum sitja sérfræðingar um náttúruvernd, heilbrigðis- og öryggismál. Í íslensku dómnefndinni sitja fulltrúar frá Siglingasambandi Íslands, Fuglavernd, Umhverfisstofnun, Félagi Umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Fiskifélagi Íslands, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Landvernd.
Landvernd sér um afhendingu fánans.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Bláfánahöfnum fjölgar á Íslandi“, Náttúran.is: 3. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/03/blafanahofnum-fjolgar-islandi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.