Wall Street út um grænar grundir
Fjárfestingargeirinn í Bandaríkjunum hefur tekið vel í ýmis viðskipti tengd kolefnisverslun og umhverfisvernd jafnvel þótt ríkisstjórnin hafi ekki innleitt kolefnisskuldbindingar
Í fyrradag hófst í Bandaríkjunum verslun með fyrstu afleiðusamningana sem tengdir eru markaðsverði kolefnislosunarheimilda. Hún fer fram á markaðnum Green Exchange, en aðstandendur hans eru New York Mercantile Exchange, Evolution Markets, Morgan Stanley, Merrill Lynch og fleiri.
Tímaritið The Economist segir frá þessu í nýjasta tölublaði sínu, en greinir jafnframt frá nýjustu þróun í grænum viðskiptum á Wall Street. Í Bandaríkjunum er þegar rekinn markaður með kolefnislosunarheimildir, Chicago Climate Exchange, en hann byggist á kaupum og sölu á sjálfviljugri kolefnisjönun fyrirtækja.
Framtak Green Exchange er enn ein viðbótin við kolefnisverslun í Bandaríkjunum sem markaðurinn hefur sjálfviljugur tekið upp þrátt fyrir að ríkisstjórnin leggi honum engar kvaðir á herðar í þeim efnum, öfugt við Evrópu þar sem stærsti kolefnismarkaður heims er til kominn vegna skuldbindinga Evrópuríkja við Kyoto-bókun Loftslagssamnings SÞ.
Þúsund milljarða dollara markaður
Economist greinir stöðuna þannig að markaðurinn sjái nú fram á að sambærilegur kolefnismarkaður sé óhjákvæmilegur í Bandaríkjunum, í ljósi þess að allir þrír forsetaframbjóðendurnir hafi hann á stefnuskrá sinni, auk þess sem vísindalegri óvissu um loftslagsbreytingar af manna völdum hafi verið eytt.
Þessi upphæð er að minnsta kosti tíu sinnum stærri en kolefnismarkaður Evrópu er nú. Blythe Masters, talsmaður JPMorgan Chase, bætir því við að afleiðuviðskipti geti jafnframt aukið stærð þessa markaðar margfalt.
Á tíunda áratugnum voru Bandaríkin fremst í flokki innleiðingar á viðskiptakerfi með framseljanlegar heimildir vegna gastegunda sem ollu súru regni, en nú eru evrópsk fjármálafyrirtæki langfremst í grænum markaðslausnum, segir í frétt Economist. Sérstaklega eru bankarnir HSBC og ABN Amro nefndir, en þó segir Econmist 50 milljarða dollara framlag Citigroup til umhverfismála vera til marks um nýja viðleitni.
Vogunarsjóðir áhugasamir
Ein nýjung í umhverfistengdum viðskiptum er að Bank of America verðleggur kolefnislosun fyrirtækja þegar kemur að mati á þeim lánakjörum sem þeim bjóðast hjá bankanum. Bankarnir Citi, JPMorgan Chase og Morgan Stanley hafa hins vegar farið þá leið að setja þeim fyrirtækjum sem þeir fjármagna reglur um magn losunar koltvísýring.
Bankar á Wall Street bjóða einnig, að sögn Economist, upp á viðskiptaráðgjöf þar sem sérstaklega er horft til þess hvernig minnka megi kolefnislosun hjá þeim fyrirækjum sem fjárfest er í. Nýlegt dæmi er að Goldman aðstoðaði hóp fjárfestingarsjóða við að setja höft á fyrirætlanir TXU Energy um byggingu kolavera um leið og fyrirtækið var yfirtekið.
Mark Tercek, helsti sérfræðingur Goldman í umhverfismálum, segir að ráðgjafar sem horfist í augu við viðskiptavini með slæmt orðspor í mengunarmálum eigi að leitast við að hjálpa þeim að bæta frammistöðu sína frekar en að koma sér alfarið hjá slíkum viðskiptum.
Auðugir fjárfestar hafa einnig aukinn áhuga á þessum málum, segir Economist, og hefur eftir ónafngreindum banka að hann hafi fengið fleiri en tíu fyrirspurnir frá einstaklingum sem vildu fjárfesta á umhverfisvænan hátt fyrir á bilinu 50 til 100 milljónir bandaríkjadala.
Vogunarsjóðir eru sagðir laðast að kolefnisverslun vegna þess að um óþroskaðan markað er að ræða. Peter Fusaro, talsmaður Global Change Associates, segist vera kunnugt um 75 umhverfisvæna vogunarsjóði, en þeir voru teljandi á fingrum annarrar handar fyrir um þremur árum.
Þó hafa ekki allir látið sannfærast. Steve Milloy hjá Free Enterprise Action Fund, segir að viðleitni bankanna á sviði umhverfismála sé "í skásta falli græný vottur og í versta falli sóun." Sjóður Milloys er rekinn af efasemdamönnum um loftslagsbreytingar af mannavöldum.
Mynd frá Viðskiptablaðinu. Myndatexti:Þessir kaupahéðnar eru með hugann við loftslagsbreytingar og hvernig nýta megi markaðstækin til að stemma stigu við þeim, ef marka má umfjöllun The Economist í vikunni.
Birt:
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Wall Street út um grænar grundir“, Náttúran.is: 19. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/19/wall-street-ut-um-graenar-grundir/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.