Pétur M. Jónasson kærir úrskurð vegna Gjábakkavegar
Pétur Mikkel Jónasson vatnalíffræðingur hyggst stefna umhverfisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins til þess að fá hnekkt úrskurði ráðherra þess efnis að heimilt sé að leggja Gjábakkaveg (Lyngdalsheiðarveg) á milli Þingvalla og Laugarvatns eftir leið 7, nálægt ÞIngvallavatni. Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður Péturs mun leggja kæruna fram innan skamms. Ákvörðun ráðherra hafði á sínum tíma verið tekin án tillits til umsagnar Umhverfisstofnunar til umhverfisráðherra um stjórnsýslukæru Péturs frá 10. október 2006. Í umsögn stofnunarinnar kemur fram að stofnunin telji að velja eigi Gjábakkavegi stæði sem er í mestri fjarlægt frá vatninu sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Því skuli vernda það frá hvers kyns mögulegum áföllum s.s. titurmengun frá bílaumferð um hraðbraut, heilsárvegar með 90 km/klst hámarkshraða, eins og áætlanir standa til um. Slík hraðbraut í gegnum þjóðgarðinn myndi óhjákvæmilega skaða lífríki vatnsins og viðkvæmt lífríki þess.
UNESCO mennta, og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sent fyrirspurnir til Vegagerðarinnar vegna fyrirhugaðs vegstæðis en fengið þau svör að Umhverfisstofnun hafi ekki hreyft mótmælum þegar umhverfismat fór fram og að þeir hafi ekki vitað af þeim rökum sem færð voru fram af Umhverfisstofnun árið 2006 og sjái því ekki ástæðu til að breyta áformum sínum.
Þessu vill Pétur ekki una og því mun hann kæra úrskurð ráðherra sem heimilar Vegagerðinni að fara fram með gerð Gjábakkavegar þannig að umhverfisspjöll verði af. Útboði fyrir vegaframkvæmdum var frestað í lok síðasta ári því aðalskipulag Bláskógarbyggðar lá ekki fyrir og er málið því í biðstöðu eins og stendur.
Ath. Sjá fleiri greinar um málið hér t.h. á síðunni eða sláið inn leitarorð í leitarvélina hér efst á siðunni.
Myndin er af Pétri M. Jónassyni í kynningarferð um svæðið í ágúst 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pétur M. Jónasson kærir úrskurð vegna Gjábakkavegar“, Náttúran.is: 23. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/23/kaera-urskuro-vegna-gjabakkavegar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.