Bjarkarlundur og Sigur Rósar-garður í Skaftholti
Í dag var margt um manninn skammt frá bökkum Þjórsár í landi Skaftholts í Gnúpverjahreppi en Sól á Suðurlandi og Náttúruverndarsamtök Suðurlands höfðu boðað til gróðursetningar þúsund bjarka í landi Skaftholts.
Þúsund bjarkir voru gefnar af Garðyrkjustöðinni Sunnu á Sólheimum. Í Bjarkarlundinum miðjum var síðan plantað þyrnirósum sem tákni fyrir hljómsveitina Sigur Rós. Skógræktin tengist söngkonunni Björk og hljómsveitinni Sigur Rós á þann hátt að þau hafa boðað til Náttúru-tónleika í Laugardalnum að viku liðinni þar sem þjóðinni er boðið til tónleika til að vekja athygli á mikilvægi varúðar í umgengni við náttúru Íslands. Þetta framtak vilja samtökin Sól á Suðurlandi og Náttúruverndarsamtök Suðurlands þakka og festa í minni með ræktun Bjarkarlundar og Sigur-Rósar-garðs við bakka Þjórsárs.
Frú Vigdís Finnbogadóttir sendi þrjár myndarlegar bjarkir til að gróðursetja í lundinum, eina fyrir drengi, aðra fyrir stúlkur og hina þriðju fyrir ófæddu börnin.
Í Bjarkarlundi mun Suðurland og náttúruunnendur allir geta hist í framtíðinni og fagnað sigrum í baráttunni. Með þessari athöfn er ræktuð sú von að perlur Þjórsárdals og Urriðafossi verði þyrmt og ekki verði af þremur virkjunum í ánni.
Fjöldi manns var mættur til að sýna samstöðu og leggja skógræktinni lið og náttúruöflin létu ekki sitt eftir liggja og vökvuðu rækilega enda slíkt nauðsynlegt ný -jarðtengdum viðarplöntunum.
Efri myndin er frá gróðursetningu bjarkar fyrir stjúlkur og sú neðri af Valgerði Helgadóttur við gróðursetningu þyrnirósarrunna í miðjum Bjarkarlundi.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bjarkarlundur og Sigur Rósar-garður í Skaftholti“, Náttúran.is: 21. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/21/bjarkarlundur-og-sigur-rosar-garour-i-skaftholti/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. júní 2008