Björk Guðmundsdóttir og Sigur Rós halda tónleika ásamt Ólöfu Arnalds í brekkunni fyrir ofan þvottalaugarnar í Reykjavík þ. 28.júní næstkomandi. Aðstandendum tónleikanna langar að bjóða öllum Náttúruverndarsamtökum til þátttöku. Leyfi hefur fengist hjá garðastjórum að koma upp tjöldum í samráði við þá á tónleikasvæðinu þar sem félögin geta kynnt sig og sína starfsemi og þau málefni sem eru efst á baugi í náttúrvernd. Einnig er óskað eftir samvinnu sem felst í sjálfboðavinnu á svæðinu á meðan tónleikarnir standa yfir t.a.m. við upplýsingaþjónustu og halda svæðinu hreinu.

Sundlaugin í Laugardal og Fjölskyldugarðurinn verður opinn sérstaklega fyrir tónleikagesti til kl. 24:00 á tónleikakvöldinu þ. 28. júní. Reykjavíkurborg sér hins vegar um alla hreinsun eftir tónleikana og Gámafélagið ehf boðið fram þjónustu við endurvinnslu, endurgjaldslaust, á öllu rusli sem kemur til með að falla til. Góð samvinna hefur skapast við allar deildir Reykjavíkurborgar sem að tónleikunum koma. Við óskum einnig eftir góðum og nytsömum hugmyndum eða athugasemdum varðandi uppákomuna.

Sjálfboðaliðar óskast
Náttúran auglýsir hér með eftir sjálfboðaliðum fyrir tónleikana. Sjálboðaliðar hafi vinsamlega samband við Margréti Vilhjálmsdóttur í síma 8483891 eða maggavil@simnet.is.
Sjá einnig upplýsingavef um tónleikana.

Kolefnisjafnaðir tónleikar
Búið er að kolefnisjafna tónleikana og buðu bændur á Þjórsárverasvæðinu og Sól á Suðurlandi að gróðursetja 1001 björk og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur. Allt eru þetta gleðilegar fréttir sem gefa tónleikunum meira vægi á þessum víðsjárverðu tímum.

Myndin er frá „Ertu að verða náttúrulaus“ tónleikunum þ. 7. janúar 2006, Björk á tjaldinu. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
16. júní 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Margrét Vilhjálmsdóttir „Sjálfboðaliðar óskast á Náttúrutónleikana“, Náttúran.is: 16. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/16/sjalfbooalioar-oskast-natturutonleikana/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. júní 2008

Skilaboð: