Það kemur að þessu árlega.
Jólapappír, umbúðir, borðar, kassar, ruslið eftir aðfangadagskvöld er komið og allt þarf þetta að fara eitthvert, en hvert? Það er óskaplega freistandi að troða bara öllu í stóran svartan plastpoka og troða ofan í tunnu...eða eitthvað. En ef allir gerðu það...þvílík sóun. Það er til betri leið, allavega fyrir umhverfið og hún er að sortera allt í flokka sem síðan má annað hvort endurnota eða henda á rétta staði.

Nokkur ráð: pakkaskraut, borða, kassa, poka og bönd sem enn standa fyrir sínu má nota aftur og jólapappírinn má líka nota aftur á næstu jólum eða afmælum jafnvel þó að eitthvað af honum hafi rifnað, (þökk sé mismunandi pakkastærðum).

Bylgjupappi og kassar fara í bylgupappagáma á næstu móttökustöð. Jólapappír sem er ekki úr plasti, málmi eða glimmeri má setja í bláu tunnuna (þjónusta í Reykjavík og víðar), bláu grenndargámana á höfuðborgarsvæðinu eða í pappírsgáma á nætu gámastöð. Óendurvinnanlegan skrautpappír og plastafganga má síðan setja í þægilega svarta plastpokann og losa sig við hann með sæmilega góðri samvisku á næstu móttökustöð eða ef ruslið er ekki svo mikið, þá í heimilistunnuna. Við erum þá allavega að taka ábyrgð á eigin rusli og taka þátt í að það lendi á þeim stöðum þar sem búið er að koma upp kerfi til að endurvinna ruslið samkvæmt viðurkenndum stöðlum sem stuðla að umhverfisvernd.

Hér á Endurvinnslukortinu sérð þú allt um hvar á landinu hver tekur á móti hvaða endurvinnnsluflokkum.

 

                 

Birt:
25. desember 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Og þá er það jólaruslið“, Náttúran.is: 25. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2009/12/26/og-tha-er-thao-jolaruslio/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. desember 2009
breytt: 14. febrúar 2015

Skilaboð: